19.janúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Ég er svo yfir mig reið núna í morgunsárið að það hálfa værí nóg.
Hvernig í veröldinni stendur á því að enginn gerir neitt í málum eldri borgara?
Hvernig stendur á því að félag sem er með yfir 11 þúsund manns innanborðs leikur sér við spil og dansiböll og útlandaferðir á meðan stór hópur eldri borgara sveltir?
Hvar er FEB og LEB?
Hvað eru þessi félög að gera?
Eru þau svona saumaklúbbs grúppa sem kemur saman annað slagið og tekur slag?
Aumingjaskapur þessara samtaka er svo ólýsanlegur að meira að segja mig skortir nógu sterk orð til að lýsa fyrirbærinu.
Björgvin Gumundsson skrifar endalaust um að hækka eigi lífeyri STRAX.
Dettur honum í hug að stjórnvöld hlusti á hann?
Finnur Birgisson skrifar eftirfarandi:
“Eftir hækkunina um s.l. áramót er heimilisuppbótin búin að hækka um 63,24% á tveimur árum meðan lífeyrir að öðru leyti hefur hækkað um 14,13%. – Það er auðvitað ódýrara að hækka bara póst sem einungis fjórðungur aldraðra nýtur en að hækka lífeyri á alla línuna, en þetta er bara ómerkilegt trikk til þess að bakka upp lygina um að lífeyririnn sé orðinn sambærilegur við lágmarkslaun.” (tilvitnun lýkur)
Ég er svo hjartanlega sammála Finni. Stjórnvöld nota ómerkilegar aðferðir til þess að blekkja með og lýðurinn gleypir hrátt.
Svo má líka benda á að þeir sem hafa flúið land til þess að geta lifað af ellilífeyri fá ekki heimilisuppbót jafnvel þó þeir búi einir. Auðvitað er ekkert verið að tala um þann hóp. Það eru bara aumingjar sem búið er að losa sig við, eða hvað?
Hvað gerist þegar Björgvin hættir að skrifa?
Hver tekur þá við?
Þagna þá raddir þeirra sem sætta sig ekki við hvernig búið er að fólki, venjulegu fólki, eftir að það verður 67 ára?
Ekki gerir FEB eða LEB neitt í málunum.
Einhver sagði að verkalýðsforystan ætti að taka málið að sér.
Hah
Verkalýðsforystan sem er að berjast fyrir hverja?
Er líklegt að hún taki þá sem hættir eru að borga félagsgjöld að sér?
Auðvitað ekki
Þeirri forystu er nákvæmlega sama um eitthvað gamalt fólk sem er hætt að vinna.
Heimir skrifaði um hvað hann væri ægilega reiður vegna aðstæðna á hjúkrunarheimilum.
Já það er ágætt að vera reiður yfir því Heimir en það eru líka eldri borgarar sem eru ekki á hjúrkunarheimilum og lepja dauðann úr skel.
Af hverju ertu ekki öskureiður yfir þeirra kjörum?
Ég er reið, öskureið í dag.
Ég er svo yfir mig hneyksluð á ríkisstjórn, á fjölmiðlamönnum, á þeim sem tala endalaust um alls konar mál og láta sig eingu skipta hvernig komið er fram við eldri borgara, venjulega eldri borgara, sem eru með innan við 250 þúsund krónur á mánuði og greiða svo niður bætur TR með greiðslum frá lífeyrissjóðum sem þeir hafa safnað í alla sína starfs ævi.
Hvað er eiginlega að ykkur Íslendingum undir 67 ára aldri?
Dettur ykkur í hug að þið verðið aldrei gömul?
Fagurgali á hátíðsdögum er ekki matur á diskum okkar.
Og að lokum, hin ömurlega umræða á Alþingi um fátækt gerir mig alveg æfa. Hvílík hræsni.
Líklega var BB eini heiðarlegi ræðumaðurinn í þeirri umræðu. Hann setti ekki upp helgisvip, hann hélt bara sínu striki og stóð með fyrri svikum og ómerkilegheitum.
Hulda Björnsdóttir
Great reading your bblog post
LikeLike