13.janúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Dagarnir hlaupa áfram eins og enginn sé morgundagurinn.
Mikið vildi ég óska þess að Ísland fengi almennilega ríkisstjórn sem hefði hag ALLRA í fyrirrúmi.
Ríkisstjórn sem sæi til þess að almnenningur, svona fólk eins og ég og þú, þyrfti ekki endalaust að velta fyrir sér hvernig í veröldinni hægt verði að hafa mat á borðum síðustu viku mánaðarins.
Ríkisstjórn sem skildi hvað það er mikilvægt að hafa öruggt húsaskjól sem étur ekki upp megnið af tekjum láglaunafólks og þeirra sem hafa litlar ráðstöfunartekjur.
Ríkisstjórn sem hætti að ala önn fyrir hinum ofsaríku á landinu á kostnað almúgans.
Svona óskir eru auðvitað vonlausar en stundum verð ég svo þreytt á ástandinu hjá eftirlaunaþegum, öryrkjum, einstæðum foreldrum, láglaunafólki og öllum þeim sem lepja dauðann úr skel árið 2018.
Stundum læt ég mig dreyma um fallegt land þar sem öllum líður vel.
Ég vakna svo upp af fallegu draumunum og kolsvartur raunveruleikinn blasir við.
Flokkar koma upp á yfirborðið og lofa öllu fögru. Þeir komast á þing og hefja fátækra umræðu í þingsal. Umræðan verður voða falleg og flestir vilja gera eitthvað í málum fátækra.
Það er svo auðvelt að flytja sköruglegar ræður úr ræðustól hins háa alþingis en ósköp verður þetta nú ömurlegt þegar efndirnar eiga að líta dagsins ljós.
Það er ódýrt að setja plástra hér og þar og auka enn misskiptingu í þjóðfélaginu og þykjast vera að bæta hag allra.
Hræsnin á sér engin takmörk. Landamæri hræsninnar eru engin. Hræsni þeirra sem þykjast vera talsmenn fátæka fólksins og setja upp alvöru svip á meðan þeir stíga á stokk en gleyma svo öllu um leið og stigið er niður. Hræsni þessa fólks er svo yfirgengileg að ég, meira að segja ég, sem alltaf er að urga, á ekki til orð.
Ég batt vonir við Flokk fólksins, flokkinn sem átti að vera fyrir þá sem lepja dauðann úr skel. Flokkinn sem var með kjörna fulltrúa sem höfðu verið á örorkubótum. Flokkinn sem talaði svo fagurlega þar til sest var í þægilegu stólana.
Vonir mínar brustu og nú á ég fátt eftir annað en fallega dagdrauma um að einhver, bara einhver, heiðarlegur þingmaður taki í taumana og stöðvi óréttlætið, misskiptinguna og viðbjóðinn.
Hulda Björnsdóttir