Sendum stjórnmálamenn í endurhæfingu

4.janúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Þá er komið nýtt ár og óska ég öllum til hamingju með það. Vonandi verður árið 2018 skárra fyrir öryrkja og eftirlaunaþega en árið 2017
Þó verð ég að játa að bjartsýni mín fyrir hönd láglaunahópa á Íslandi er ekki yfirþyrmandi.
Ég ræddi í gær við konu, þjónustufulltrúa í erlendum málum, hjá TR.
Við töluðum líka saman á síðasta ári þegar ég var að andskotast út í stofnunina fyrir hálfvitalegt kerfi.
Þjónustufulltrúinn er fín. Hún er ein af þessum hjá stofnuninni sem er líklega ekki par hrifin af regluverki og starfsreglum sem eru eins og langavitleysa.
Ég er í sannleika sagt ekki hissa á þvi að fólk gefist upp á að vinna fyrir svona kerfi.
Þau þurfa að svara alls konar reiðu fólki, ofsareiðu stundum, og líklega ekki auðvelt að halda rónni.
Það hefur verið rætt um að stofnunin sé andstyggileg varðandi greiðslur um áramót og sé að mismuna fólki af einskærri mannvonsku.
Fólk gleymir því að bætur TR eru greiddar fyrirfram. Það var greitt fyrir desember í byrjun desember og greiðslur sem voru lagðar inn þann 1.janúar eru fyrir janúar 2018.
Fólk þarf að hafa þetta í huga þegar það skipuleggur desember mánuð.
Auðvitað er vandamálið ekki hvenær er greitt, vandamálið er að greiðslurnar eru langt undir framfærsluviðmiðum og duga aldrei til framfærslu út mánuðinn.
Nú erum við með ríkisstjórn sem ætlar ekki að gera neitt í málum láglaunahópa, EKKI NEITT. Fallegu brosin eru frosin út í eitt og kuldahrollur lekur eftir hryggsúlinni þegar ég horfi á forsætisráðherra sem svo miklar vonir vour bundnar við.
Tal við marga og bros til sjónvarpsvéla seðja ekki hungraða maga.
Svöngu börnin eta ekki brosin frá frú forsætisráðherra.
Foreldrarnir sem engjast sundur og saman í angist og örvæntingu og sjá ekki fram á hvernig hægt verður að halda lífinu í fjölskyldunni eru ekkert betur komin með brosandi ráherra sem skilur ekki, HREINLEGA SKILUR EKKI, að það þarf að hafa mat og húsaskjól alla daga ársins en ekki bara nokkra daga fyrir kosningar.
Ég veit ekki hvort það breytti miklu þó þessi bévaðans ríkisstjórn hyrfi og önnur kæmi. Það breyttist ekkert til hins betra við síðustu kosningar. Brotin loforð og hrein og klár mannvonska eru efndirnar á fögru fyrirheitunum.
Stjórnarandstaðan, hver er hún? Er einhver andstaða? Ég veit það ekki en spurningin brennur á mér:
HVERS VEGNA SAT FLOKKUR FÓLKSINS HJÁ VIÐ ATKVÆÐAGREIÐSLU FJÁRLAGA?
Fólk treysti á Flokk fólksins og trúði því að hann yrði fyrir lítilmagnann. Er hann það? Ég get ekki svarað því en mér finnst alltaf mjög einkennilegt þegar fólk í flokkum eins og þessum sitja hjá við atkvæðagreiðslur um mál sem geta skipt sköpum fyrir þá sem þurfa að fá hlut sinn réttann.
Svo er það frúin að vestan. Fiskveiðar eru aðalmálið.
Við skulum ekki gleyma því hverjir settu upp helgisvipinn í umæðunni um fátækt og gríman féll um leið og atkvæðagreiðsla um fjárlög gekk yfir.
Ég er ekki bara reið. Ég er svo hrikalega vonsvikin fyrir hönd meðbræðra minna á Íslandi sem þurfa að búa við kjör sem enginn, nákvæmlega enginn, getur dregið fram lífið á.
Endurhæfing fyrir stjórnmálamenn væri kannski ráð en líklega er forherðingin of mikil til þess að hægt sé að koma þeim í skilning um að lífið er ekki bara saltfiskur. Lífið er að hafa ofan í sig og á ALLTAF.
Vita stjórnmálamenn sem sitja á Alþingi Íslendinga að fólk sviptir sig lífi þegar það sér ekki fram á neinar breytingar?
Nei, það má auðvitað ekki tala um svoleiðis.
Það má bara tala um það sem er fallegt og gott jafnvel þó hjúpa þurfi þann sannleika í umbúðir hroka og vanþekkingar. Þeir sem lítið hafa eru úti í kuldanum. Þeir sem mikið eiga, hinir örfáu, eru inni í hlýjunni og maka alla króka jafnt og þétt á kostnað þeirra sem allir ættu að bera umhyggju fyrir.
Nýr forsætisráðherra er eins og umskiptingurinn í sögunni. Rétt fyrir fáum mánuðum var allt annað hljóð í þeim skrokki. Hvernig getur fólk umturnast svona?
Ég bara spyr.
Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: