Elítan á Íslandi étur upp velferðina

23. maí 2023

Ég er hætt að skrifa um ástandið á Íslandi hjá þeim sem minna mega sín en stundum rek ég augun í eitthvað sem lætur mig setjast niður og hugsa alvarlega um hvað er að gerast á landinu.

Eins og þeir vita sem hafa lesið skrif mín þá bý ég ekki á landinu og hef ekki verið þar lengi.

Í gær átti ég afmæli og varð 78 ára gömul sem er nokkuð hár aldur og ég er þakklát fyrir hvert ár sem líður, því margir eru ekki svo heppnir að fá að vera á lífi fram eftir öllu og kynnast því hvernig hvert ár er ólíkt þeim sem á undan eru gengin.

Ég fæ eftirlaun frá Íslandi því þar var megnið af starfsferli mínum og þar vann ég mér inn réttindi til „áhyggjulauss ævikvölds“

Áhyggjulausa ævikvöldið hefur látið bíða eftir sér.

Sparnaðurinn minn í lífeyrissjóð er étinn upp í hverjum mánuði vegna laga um skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Ég man hvað starfsmannastjórinn þar sem ég var að vinna, var hrifinn af nýju lögunum um sparnað til efri áranna og hvernig hann brosti út í bæði yfir því að við ættum að leggja fyrir 4% af laununum í þessa dásamlegu hýt!

Á þeim árum var ég fátæk og 4 prósent voru mikið.

Auðvitað gat ég ekkert gert annað en að sætta mig við þessi 4% en játa að ég var ekki bjartsýn á þessa miklu sælu þegar ég yrði gömul og færi að taka út sparnaðinn.  Ég var sannspá, því miður.

Bjarni heldur ræður og skrifar um hvað allt sé dásamlegt á Íslandi í dag, árið 2023.

Hann er auðvitað að tala um þá sem hann umgengst, elítuna, sem hefur safnað í sjóði á meðan við hin borguðum skatta og skyldur, og gátum ekki sett fyrirtæki á hausinn og skipt um kennitölur og haldið áfram að græða.

Það eru 3 þjóðir í landinu.

Þeir ríku, sem BB og co tilheyra, sem kaupa banka og eiga fiskimiðin.

Svo eru það þeir sem eru í miðjunni og tilheyra ekki beint BB en hafa það ágætt og hafa fengið tækifæri á meðal þeirra vel stæðu í gegnum skattakerfi.

Síðast, en ekki síst, eru það þeir sem lepja dauðann úr skel. Þar eru konur, einstæðar mæður, öryrkjar, eldri borgarar sem tilheyra lægri stettum, og fólkið sem vann erfiðisvinnu allt sitt líf og missti heilsuna vegna álags.

Síðasti hópurinn er sá sem BB talar aldrei um!

Hann talar aldrei um það hvernig þessi hópur hefur ekki þak yfir höfuðið, hefur ekki peninga til þess að fara til læknis, hefur ekki efni á lyfjum, hefur ekki efni á mat alla daga mánaðarins, fer aldrei til tannlæknis af því að það eru ekki til peningar fyrir því.

Ég get talið upp fleira sem þriðji hópurinn getur ekki veitt sér en þetta er nóg.

Af hverju er þetta svona á Íslandi?

Ég veit það ekki, en ég sé að það eru til peningar til þess að halda fundi með útlendingum sem kosta morð fjár og ekkert til sparað þar svo frú forsætis geti brosað og geiflað sig út í eitt.

Ég sé í umræðunni að innviðir eru að bresta og í mörgum tilfellum þegar brostnir. Það eru ekki til peningar til þess að halda velferðarkerfi gangandi því elítan hans BB þarf sitt.

Hvað varð til þess að ég settist niður til þess að skrifa núna?

Jú, ég sá auglýsingu um dáleiðslu og námskeiðið kostar 390 þúsund krónur. Ég fór að velta fyrir mér hvort þeir ríku þyrftu að fara á dáleiðslu námskeið til þess að halda utan um fúlgurnar?

Ég veit alla vega að þeir sem eru öryrkjar og eldri borgarar lægri stétta, hafa ekki efni á svona námskeiðum, svo þetta hlýtur að vera miðað við hálauna stéttir.

Bilið milli ríkra og fátækra hefur alltaf verið stórt á Íslandi en úr fjarska sýnist mér það breikka dag frá degi.

Ríkisstjórnin situr sem fastast og heldur áfram að skemma innanfrá.

Þetta eru stór orð, ég veit það.

Ég sé að nú er kominn stjórnmálamaður sem fólk treystir til þess að breyta.

Er það raunhæft?

Ég veit það ekki en það er undir kjósendum komið hvað verður ofan á þegar þessi stjórn fer frá.

Kjósa Íslendingar áfram að vera kúguð þjóð eða rísa þeir upp?

Ég hef ekki mikla trú á því að þeir rísi upp.

Það er svo þægilegt að kjósa bara það sem alltaf hefur verið kosið, og svo hefur það auðvitað ekkert að segja þó einhverjir nýir lofi öllu fögru, því þegar komið er í valdastólana gleymist það sem er óþægilegt.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig ástandið verður á næsta afmælisdegi mínum.

Hefur eitthvað breyst þá, eða er það sami grautur í sömu skál?

Ég er ekki bjartsýn.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: