28. desember 2021
Í desember 2021 fékk ég greitt frá TR krónur 203.090 fyrir skatt
Í janúar 2022 fæ ég greitt frá TR krónur 203.419 fyrir skatt
Í desember 2021 var tekjuáætlun mín frá lífeyrissjóði 166.000 krónur á mánuði fyrir skatt
Í janúar 2022 er tekjuátætlun mín frá lífeyrissjóði 188.000 krónur á mánuði fyrir skatt
Einhver segir nú að ég eigi ekki að vera að kvarta því margir hafi það verra en ég!
Það er rétt, margir hafa það verra en ég og hef ég haldið því á lofti meira en margir aðrir.
Það sem gerist hér í mínu tilfelli og fjölda annara er að lífeyrissjóður verslunarmanna ákvað að láta okkur sem fáum tekjur frá sjóðnum njóta góðrar ávöxtunar sjóðsins og hækkaði laun okkar um 10 prósent á mánuði.
Við fengum leiðréttingu fyrir allt árið 2021 og þeir sem ekki breyttu tekjuáætlun sinni hjá TR fyrir árið 2021 koma til með að skulda stofnuninni 45 prósent af hækkuninni frá lífeyrisjóðnum þegar árið 2021 verður gert upp um mitt næsta ár.
Þegar ég var að byrja að greiða í lífeyrissjóð var mér sagt að það yrði mín eign þegar ég kæmi á eftirlauna aldurinn og var mikið lof borðið á þennan skyldusparnað sem var partur af launum mínum á þeim tíma og allan þann tíma sem ég starfaði, rúm 40 ár.
Nú þegar ég er komin á eftirlauna aldurinn nýt ég sáralítils af þessum sparnaði mínum. Kerfið sem eldri borgurum og öryrkjum er boðið upp á rekur skurðarhnífinn á bólakaf og étur upp það sem ætti að vera sjálfsagður hlutur að hver og einn fengi að njóta.
Á sama tíma og hægt er að borga milljónir á milljónir ofan til stjórnmálaflokka og alþingismanna eru öryrkjar og eftirlauna þegar píndir fram í rauðan dauðann.
Réttlætið er bara fyrir suma.
Nú liggur fyrir að örlítið prósent eldri borgara getur unnið og fengið 200 þúsund króna frítekjumark plús 25 þúsund sem við hin fáum.
Það er sorglegt að sjá formenn stjórnmálaflokka berja sér á brjóst fyrir að hygla enn og aftur þeim best stæðu í þjóðfélaginu og gefa þeim sem tilheyra milli flokk og neðar langt nef.
Það er enn sorglegra að almenningur á Íslandi er þeirrar skoðunar að þetta kerfi sé bara í hinu besta lagi og fólk eins og ég sem eru sár og reið yfir því hvernig farið er með samningsbundna sparnaðinn okkar eigum að halda okkur á mottunni og þiggja það sem er að okkur rétt með bros á vör.
Mér þykir það leitt, en ég er reið yfir því hvernig farið er með mig og mína líka.
Hulda Björnsdóttir