Hverjir eru landar mínir?

26. október 2021

Hverjir eru landar þínir?

Hverjir eru landar mínir? Það er spurningin sem ég ætla að velta fyrir mér hérna.

Í gær skrifaði ég um eitt og annað varðandi stjórnarmyndun á Íslandi.

Ég er ekki par hrifin af því hvernig það gengur en auðvitað kemur mér það ekkert við, eða er það?

Ég hef ekki kosningarétt á Íslandi, ég bý ekki á Íslandi og mun aldrei búa þar það sem eftir er af þessari jarðvist minni.

Ég vissi fyrir langa löngu að það væri ekki eftirsóknarvert að verða gamall á landinu og ég ákvað fyrir óralöngu að flytja um leið og mér væri það fært.

Ég yfirgaf Ísland og þar með hættu þeir sem þar búa að vera landar mínir.

Landar mínir eru í því landi sem ég bý í en ekki í landi sem ég hef yfirgefið.

Það eru margir sem búa erlendis og kalla altaf Ísland heim, jafnvel þó þeir hafi búið í áratugi erlendis.

Ég er þeirrar skoðunar að landið sem þú býrð í hverju sinni sé HEIM.

Ef ég væri ekki svo óheppin að hafa fæðst á Íslandi og unnið þar mestan hluta starfsævi minnar og greitt skatta og skyldur og áunnið mér með því réttindi til að fá eftirlaun sem ég hef safnað mér í 40 ár með atvinnuframlagi mínu á Íslandi, mundi ég ALDREI líta á eitt eða neitt sem væri að gerast þarna.

Ég á vini á Íslandi, ekki mjög marga, en þó nokkra sem ég met mikils. Ég þekki dálítið af fólki á Íslandi sem eru kunningjar og ég met líka.

Það eru öll tengsl mín við landið. Þetta fólk er ekki landar mínir, þetta fólk eru vinir mínir og kunningjar rétt eins og þeir sem búa í öðrum heimsálfum eða öðrum löndum. Landar mínir eru Portúgalar.

Ég hef skömm á því hvernig farið er með almúgann, þá sem eru í neðri stéttum þjóðfélagsins, á Íslandi. Ég hef skömm á því hvernig ríkasta prósentið makar krókinn endalaust.

Ég hef skömm á því hvernig kjósendur halda þessu liði gangandi og gefa þeim atkvæði sitt aftur og aftur og aftur og mér finnst að það fólk sé fífl og skammast mín ekkert fyrir að segja það.

Mér finnst það ömurlegt að vera bundinn á klafa við íslensk stjórnvöld og þeirra duttlunga og þurfa að reiða mig á að það verði ekki allt keyrt til andskotans og ég og fleiri missi eftirlaun mín og lífsviðurværi.

Ég hef aldrei unnið í landinu mínu, Portúgal, og á þar af leiðandi ekki rétt á neinum eftirlaunum héðan. Ég hins vegar vann í 40 ár á Íslandi og á rétt á eftirlaunum þaðan.

Hungurlúsin sem mér er skömmtuð er svo lítil að væri ég á Íslandi þá væri ég í hópi þeirra sem ekki eiga mat á diskinn sinn síðustu viku hvers einasta mánaðar.

Það má ekki tala um þetta að áliti sumra.

Það verður að tala um þetta að mínu áliti.

Öryrkjar og eldri borgarar sem flýja land, eins og ég gerði, til þess að draga fram lífið njóta alls ekki sömu kjara og þeir öryrkjar og eldri borgarar sem búa á Íslandi, en samt er auðveldara að komast af erlendis af hungurlúsinni.

Þeir sem nú munu rísa upp á afturfæturna og segja mér að halda kjafti og vera bara þakklát fyrir það sem ég þó fæ geta haft sína skoðun í friði fyrir mér.

Ef ég væri ekki á klafanum, hengd upp á snæri hjá íslenskum stjórnvöldum mundi ég ALDREI NOKKURN TÍMAN SKRIFA EITT EINASTA ORÐ UM LANDIÐ.

Ég drepst eftir nokkur ár, það er óumflýjanlegt, en þangað til held ég áfram að rífa kjaft ef mér sýnist og ég verð aldrei landi þeirra sem búa á Íslandi eða eru fæddir þar. Mínir landar eru Portúgalar.

Mér er slétt sama hverja þú telur vera landa þína og troddu ekki upp á mig löndum sem ég kæri mig ekki um.

Vinir mínir á Íslandi skilja mig og þeir sem ekki gera það  eru líklega ekki vinir mínir.

Móðgist einhver þá er það þeirra vandamál en ekki mitt.

Þeir sem fá frá mér jólabréf eru sannir vinir mínir og þeim fækkar með árunum eins og gengur.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: