22.júlí 2021
Góðan daginn
Ég ætla ekkert að skammast hér en ég get þó ekki orða bundist.
Ég las í „Lifðu núna“ spjall við konu sem lýsir því hvað það er dásamlegt að verða gamall á Íslandi og hvað hún og hennar líf hafi orðið unaðslegt þegar hún fór á eftirlaun.
Það er frábært að margir hafa það dásamlegt á eftirlaunaaldri. Fólkið getur sinnt áhugamálum sínum, það hefur efni á því, það getur farið í ferðalög, skrifað bækur, farið í frí og notið lífsins vítt og breitt. Þetta fólk er margt með frábæra heilsu og hefur getað sinnt heilsunni vel í gegnum ævina, sem er auðvitað grunnur þess að vera hraustur á efri árum, þ.e. að hafa haft sæmileg tök á því að til dæmis að borða hollan mat, fara í hreyfingu með markmiðum, hafa öruggt húsaskjól og ýmislegt fleira gæti ég talið upp og er auðvitað ekkert að fetta fingur út í hin dásamlegu eftirlaunaár þessa hóps.
Ég spurði hvenær yrði skrifuð svona grein um fátækt á eftirlaunaárunum, því margar greinar hafa verið birtar í Lifðu núna, um ágæti eftirlaunaaldursins, og ég hef ekki séð svona langar fallegar greinar skrifaðar í ritið um þá sem eru fátækir á eftirlaunaaldrinum og lepja dauðann úr skel.
Það þarf að hafa hátt um þá sem lepja dauðann úr skel.
Það þarf að segja frá því hvernig fólki líður sem á ekki fyrir mat á diskinn sinn síðustu viku mánaðarins alla mánuði ársins.
Það þarf að segja frá því hvernig fólki líður sem er ekki með öruggt húsaskjól á eftirlaunaárunum.
Það þarf að segja frá því hvernig fólki sem á ekki fyrir næstu máltíð líður núna þegar allir eiga að geta farið í sumarfrí og ferðast ef fólk langar til. Þetta fólk getur ekki farið neitt, það á ekki fyrir mat hvað þá ferðalögum.
Það þarf að segja frá því hvernig fólki líður sem ekki hefur efni á að nota part af naumt skömmtuðum eftirlaunum til þess að hugsa vel um heilsuna með hollri hreyfingu og góðu matarræði.
Það er sumar, það er faraldur í gangi í heiminum sem skerðir getu fólks til þess að vera innan um aðra. Það eru ýmsar skoðanir á því hvernig eigi að höndla þennan faraldur en ég er nokkuð viss um að líðan þeirra sem lepja dauðann úr skel er ólíkt verri en þeirra sem njóta eftirlaunanáranna vegna viðunandi fjárhags.
Ég ætla ekkert að minnast á þá sem hafa flúið land þegar eftirlaunaárin skriðu í höfn.
Ég vona bara að einhvern tímann verði skrifaðar margar fallegar greinar um raunverulegt líf þeirra sem lepja dauðann úr skel þegar eftirlaunaárin taka við.
Ég vona líka að einhvern tímann verði skrifaðar fallegar greinargóðar lýsingar á hinum „frábæru“ dögum öryrkjanna sem verða 67 ára og komast af örorkubótum yfir á eftirlaun! Það eitt er rannsóknarefni vel þess virði að skoða en auðvitað ekki eins sætt og greinin sem var upphaf þessara hugleiðinga minna.
Ég öfunda ekki þá sem hafa það gott á eftirlaunaárum. Þeir eiga það ábyggilega flestir skilið og hafa skilað öllu sínu til þjóðfélagsins í gegnum starfsævina!
Ég er hins vegar áhyggjufull vegna hinna, og get ekki annað en látið þá skoðun mína í ljós.
Hulda Björnsdóttir