27. júní 2021
Skattsvikarar eru skítapakk
Setningin hér á undan er skoðun mín og líklega margra annara.
Ég þekki eldri borgara og öryrkja sem hafa flutt frá Íslandi og búa erlendis og borga skatta samkvæmt tvísköttunarsamningum sem gilda á milli viðkomandi landa.
Sumir borga skatta í búsetulandi og aðrir borga skatta á Íslandi.
Þeir sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að sleppa við að borga til þjóðfélagsins eru skítapakk í mínum augum.
Eldri borgarar sem eru jafnvel í áhættu hóp vegna heilsu og þurfa að nota heilsugæslu og heilsukerfi í landi sem þeir búa í, láta sig hafa það að svíkjast undan því að borga skatta af því að þeir fundu glufu sem gerir þeim kleift að komast hjá því að borga til samfélagsins.
Þetta eru auðvitað bara aumingjar sem einn góðan veðurdag komast að því hvar Davíð keypti ölið.
Ég ætla að leyfa mér að vera öskureið yfir því að skattayfirvöld á Íslandi skuli aðstoða þessa aumingja við að koma ár sinni fyrir borð.
Núna er ég búin að fá álagningarseðilinn minn fyrir árið 2021 og er harla ánægð með hann. Ég bý í Portúgal og hef búið hér í 10 og hálft ár. Ég hef borgað skatta til þjóðfélagsins hér frá fyrsta degi.
Portúgal er fátækt land og eru eftirlaun mín sem ég fæ frá Íslandi himinhá miðað við það sem landar mínir, Portúgalar, fá.
Ég er hreint ekki að kvarta yfir því að borga til samfélags sem hefur tekið mér opnum örmum frá fyrsta degi og gert allt sem hægt er til þess að mér líði vel í litla landinu mínu.
Það eru einhverjir Íslendingar sem búa hér og eru í skattsvikaliðinu. Þeir eru til skammar og nýta sér alla þjónustu og hreykja sér af því að borga ekki til samfélagsins. Þetta eru aumar sálir sem eiga ekki samúð mína á nokkurn máta.
Það kemur að skuldadögunum hjá þessu liði sem nú hreykir sér af klókindum sínum og líklega eru einhverjir þessa fólks þeir sem aldrei hafa greitt fulla skatta til samfélagsins þegar þeir voru á Íslandi.
Ég gæti nafngreint suma af þessum hælis leitendum en læt það vera, alla vega enn sem komið er, því ég veit að það er ekki langt í að aumingjarnir fái að finna fyrir því hvað það kostar að vera í landi sem tekur á móti þeim og heldur þeim uppi af því að þessir aumu hælis leitendur frá Íslandi sjá ekki sóma sinn í því að borga til samfélagsins.
Öryrkjarnir sem ég þekki til dæmis á norðurlöndunum gætu vel þegið að hafa til ráðstöfunar það sem dregið er af þeim í skatta.
Eldri borgararnir sem ég þekki víðsvegar um heiminn væru líka fegnir að hafa skattapeningana til framfærslu í hverjum mánuði.
Nei, þeir njóta ekki þess lúxus og ef þeir reyndu það kæmu TR og RSK vaðandi yfir þá til þess að ná í það sem skattmanni ber.
Hvað er það sem er öðruvísi hjá TR og RSK varðandi þá sem búa í Portúgal og hafa fundið glufu til þess að komast hjá þátttöku í samfélagslegum kostnaði?
Hvað er það sem veldur því að TR og RSK ganga ekki jafn hart eftir réttlæti fyrir alla?
Hvað er það sem veldur því að TR og RSK sjá til þess að sumir eldri borgarar og öryrkjar borga ekki skatta af tekjum sínum til jafns við þá sem búa á Íslandi eða til dæmis á Norðurlöndum?
Ég þekki eina fjölskyldu hér í Portúgal sem er íslensk og ég kæri mig hreint ekki um að komast í kynni við fleiri.
Ég skammast mín fyrir skattsvikara frá Íslandi.
Ég get þó huggað mig við það að skuldadagarnir eru ekki langt frá þeim sem hefur verið hvað ákafastur í því að hjálpa fólki við svikin. Hann kemst að því bráðum hvar Davíð keypti ölið og þá mun ég ekki vorkenna aumingjanum eða þeim sem eiga eftir að súpa það kál.
Skítapakk verður alltaf skítapakk hvar sem það býr. Panamaprinsar eru víða í íslensku þjóðfélagi og þeir sem rífast kannski hæst yfir því hvað prinsarnir hafast að, eru ekkert betri sjálfir.
Hulda Björnsdóttir