24. febrúar 2021
Eiga eldri borgarar erindi á Alþingi?
Aðeins um hversu vænlegt það er að bjóða fram til Alþingis á Íslandi og ætla sér að beita sér fyrir ákveðnum málum sem eru ekki sérlega vinsæl.
Nú eru háværar raddir uppi um að eldri borgarar þurfi mann eða menn á þing til þess að berjast fyrir bættum kjörum hópsins.
Það er talað um óréttlætið vegna skerðinganna og það er talað um hversu skammarlega lítið er skammtað frá Almannatryggingakerfinu.
25 þúsund er ekki mikið þegar skoðað er í því samhengi að fáir þú greiðslur frá lífeyrissjóði, sem þú hefur borgað í alla þína ævi, því eftir 25 þúsundin fer upphæð sem greidd er frá TR að skerðast og hvorki meira né minna en um 45%.
Svo dragast auðvitað skattar frá því allir þurfa að borga skatta á Íslandi ef þeir fara eftir lögum og reglum. Það eru einhverjir sem eru ekkert að ergja sig á smá skattsvikum hér og þar en þeir eru vonandi í minnihluta.
Ég hef endalaust verið þeirrar skoðunar að eldri borgarar ættu ekki að senda baráttumenn sína, úr röðum eldri borgara, inn á þing.
Ég hef ekki skipt um skoðun og tel mun vænlegra til árangurs að koma málum hópsins á framfæri við alþingismenn og flokka og reyna að koma baráttumálum inn í stefnuskrá flokkanna, og þar sé talað tæpitungulaust en ekki í einhverjum rósum.
Það sem mér finnst fólk sem er æst í að komast á þing úr röðum eldri borgara og þeir sem endalaust reka áróður fyrir því að við, eldri borgarar, þurfum mann á þing eða jafnvel flokk og þá verði allt miklu auðveldara, er að þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir því að FLOKKSAGINN ræður öllu þegar á þing er komið.
Dæmin sanna það á núverandi kjörtímabili þar sem einhverjir hafa haft samvisku sína að leiðarljósi og hún skorað hærra en AGINN og þar af leiðandi hafa þessir þingmenn sagt skilið við flokkinn og flutt sig eitthvað annað, sem er reyndar bara í annan FLOKKSAGA!
Svo eru auðvitað valdafíklarnir sem segja skilið við t.d. Sjálfstæðisbatteríið og búa til nýtt sem er í raun alveg það sama, bara undir öðru nafni.
Einu sinni ætlaði ég að breyta heiminum og hafði til þess dágóðann stuðning kjósenda í ákveðnu sveitarfélagi.
Ég komst að því eftir einn fund að málefni þau sem fólk hafði treyst mér fyrir voru ekki vinsæl og mundu ekki fá brautargengi innan flokksapparatsins. ÉG FORÐAÐI MÉR í snarhasti en var þó reynslunni ríkari.
Ég veit að það eru ekki margir sem hafa þessa skoðun en ég ætla mér að halda henni á lofti áfram. Ég vonast til að baráttujaxlar, alvöru baráttujaxlar falli ekki í valdagryfjuna þar sem þeir eru kveðnir í kútinn um leið og þeir setjast í stólana.
Ég á auðvitað ekkert að vera að skipta mér af eina ferðina enn. Samt er eitthvað sem togar í mig allavega í bili og ég bind vonir við að fyrir hvern baráttumann úr röðum eldri borgara sem sest í stóla Alþingis rísi upp að minnsta kosti fjórir sem berjast af krafti utan þessara þægilegu stóla.
Ég held að það sé ekki borin von. Ég trúi því enn að til sé fólk sem berst af hugsjón og lætur ekki glepjast af blekkingu um að FLOKKURINN breyti einhverju bara af því að eldri borgari kemst í baráttusæti eða jafnvel öruggt sæti á framboðslista.
Ég óttast að baráttugleðin verði barin niður um leið og komið verður að stjórnar kötlunum.
Hulda Björnsdóttir