25. janúar 2021
Núna er þessi mánuður alveg að verða búinn og gengið á krónunni hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er árinu, 1. jan. 156,1 evra og 25. jan er evran 157,52
Janúar er alveg að kveðja og febrúar að sigla í hlað. Það er gott að stuttur mánuður er fram undan og margir sem anda léttar.
Hvernig ætli þetta verði á þessu nýja ári?
Ætli gengið haldi sig fyrir neðan 160 krónur á evrunni?
Ég er ekki spámaður góður og veit auðvitað ekkert um þetta en bjartsýni er mér í brjóst borin og ég trúi því þar til ég tek á öðru að handónýtar krónur falli ekki mikið að minnsta kosti ekki þar til búið er að maka krókinn fyrir hina efnamestu.
Auðvitað er þetta andstyggilegt og ekkert annað að ég skuli voga mér að vera með einhver ónot í garð hinna ríku.
Ég sá í fréttum í morgun að auðkýfingarnir í Bandaríkjunum eru búnir að ná sér eftir áfallið en hinir fátækari og milli stéttin eiga líklega mörg ár í að komast niður úr helgreipum kreppunnar sem hin ógeðslega veira hefur valdið.
Þetta er að sjálfsögðu ekkert öðruvísi á Íslandi. Þeir efnameiri bjargast alltaf og hinir sitja eftir. Þannig hefur þetta alltaf verið og líklega verður engin breyting á, allavega ekki í minni ævigöngu.
Veiran er að setja allt á hvolf hér í litla landinu mínu og við erum í lockdown allavega fram í endaðan febrúar og ekki ótrúlegt að ástandið vari til vors. Við kunnum þetta frá því í fyrra en erfitt er það samt. Fólkið sem vinnur á spítölunum er að örmagnast og biður okkur að vera heima.
Ég sá sjúkrabíl í gær þegar ég var að leggja af stað í gönguferðina um þorpið mitt og mér varð hugsað til þeirra og hvernig þeim líður. Alltaf eru þau tilbúin til þess að flytja sjúklingana á spítalana og sækja þegar heimferð er. Alltaf eru þau tilbúin að leggja sig í hættu þegar eldarnir geysa yfir sumarið og margir láta lífið við slökkvistörfin. Það búa nokkrir lögreglumenn og slökkviliðs fólk í götunni minni og þau eru flest ungt fólk með lítil börn. Fórnfýsi þessa unga fólks er aðdáunarverð og þau eru í framlínunni núna varðandi veiruna.
Hér erum við skyldug til þess að vera með maska jafnvel úti á götu og flestir fylgja þeirri reglu.
Vonandi tekst að halda landinu sæmilega hreinu og vonandi verður lífið komið í nokkuð eðlilegt horf á þessum tíma næsta ár. Heimurinn er á heljarþröm í bili og hver og einn verður að leggja sitt af mörkum.
Eitt hefur þó ekki breyst. Eldri borgarar og öryrkjar á Íslandi lepja enn dauðann úr skel séu þeir svo óheppnir að tilheyra hópi sem ekki er í efri þrepum þjóðfélagsins.
Núna er loforðastraumurinn að hefja göngu sína eins og svo oft áður og líklega trúa þeir sem verst eru settir að betri tíð sé fram undan.
Ég er auðvitað svo neikvæð að ég trúi ekki orðum, ég vil sjá athafnir í stað loforða.
Ég vildi að ég ætti eftir að upplifa þá hamingju að vita til þess að öryrkjar og eldri borgarar á Íslandi þyrftu ekki að kvíða síðustu viku hvers mánaðar.
Ég vildi óska þess að allir hefðu mat á diskinum sínum alla daga alltaf.
Ég vildi óska að enginn þyrfti að búa við kulda og vosbúð bara af því að þeir eru svo óheppnir að vera öryrkjar eða eldri borgarar.
Ég vildi óska þess að fátækt væri ekki til á Íslandi, landi þar sem gull drýpur af greinum en ratar ekki til almennings.
Óskir mínar eru bara óskir. Ég hef ekki trú á því að þær rætist. Ég held að valdagræðgi og græðgi almennt sigri og réttlætið hopi.
Ég er hætt að skrifa um kjörin og er eiginlega búin að gefast upp. Það er sárt að þurfa að viðurkenna það en lífið er svo einkennilegt og þó baráttan sé mér í brjóst borin þá hef enn það mikla skynsemi að ég sé hvenær nóg er komið og hvenær vonleysið er bara ágætt veganesti.
Einn góðan veðurdag rís ég kannski aftur upp og rífst en á þessum dögum og vikum sé ég ekki hinn minnsta tilgang í því að reyna að láta heyrast hjáróma rödd sem reynir að hvetja fólk til þess að rísa upp og berjast.
Það koma kannski nýir menn og konur í húsið við Austurvöll en hvort eitthvað breytist er önnur ella.
Þuríður Harpa heldur áfram að nudda fyrir öryrkjana og henni tekst að þoka hænufetum áfram og það er gott að kyrrstaða er ekki hjá henni.
LEB situr líklega við ipadina og leggur kapla. Það er ekki mikið sem ég hef séð frá þeim og líklega ekki von til þess að það breytist.
Við höldum stundum að lausnin sé að koma fólki á þing og þá geti það barist fyrir bættum kjörum fátækra.
Er það lausn? Ég held ekki. Ég held að baráttan þurfi að vera utan gráa hússins og mér finnst reynslan sanna það.
Ég er hrygg yfir því að þeir sem mér finnst hafa verið haukar okkar í horni séu nú bornir út og útilokaðir.
Stundum skil ég ekki miskunnarleysi veraldarinnar og hefndarþorsta hinna réttlátu.
Hulda Björnsdóttir