3.september 2020
Þetta eru tillögur Samfylkingarinnar núna!
“Ég hvet stjórnaliða til þess að sýna hugrekki, standa með fólkinu í landinu og styðja þessar tillögur” – Helga Vala Helgadóttir
Við leggjum til að…
• atvinnuleysisbætur hækki í að minnsta kosti eitt ár.
• hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021.
• einingaviðmið verði hækkað að 22 einingum svo komið sé til móts við þá námsmenn sem ekki geta verið í fullu námi og þeim veitt heimild til töku atvinnuleysisbóta.
• veitt verði heimild til að greiðslur launa í sóttkví nái til þeirra foreldra sem ekki gets sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiða til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns undir 18 ára aldri sem foreldri hefur forsjá með en þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þó að barnið hafi ekki sætt sóttkví.”
Ég spyr: “af hverju er ekki minnst á öryrkja og eldri borgara? Erum við ekki FÓLK?”
Ágúst Ólafur svarar: “við erum svo sannarlega lagt fram tillögur sem snerta öryrkja. Mjög margar slíkar og höldum því áfram. Enda mjög brýnt.”
Ég spurði Ágúst ekki hvað HEFÐI verið gert.
Ég spurði af hverju ekki væri talað um öryrkja og eldri borgara í þeim tillögum sem Helga var að kynna og verið er að flytja NÚNA.
Það er einhvern vegin þannig að stjórnmálamenn geta aldrei haldið sig við nútíðina og þegar þeir þurfa að svara óþægilegum spurningum eins þeirri hvort við öryrkjar og eldri borgarar tilheyrum ekki fólkinu í landinu þá er svarið um hvað HAFI verið gert einhverntíman!
Ég er viss um að bæði Helga og Ágúst eru hið besta fólk.
Hins vegar er ég reið og sár yfir því að vera ekki talin með FÓLKINU í landinu, bara af því að ég er á vitlausum aldri.
Það eru að koma kosningar. Það er ljóst. Nú rísa upp þingmenn og alls konar fólk og reka aróður fyrir ágæti hvers og eins.
Ég var að láta mér detta í hug að kannski væri Samfylkingin flokkur sem mundi hugsa um okkur þessa 2 hópa sem alltaf eru skilin eftir, en ekki líst mér beint á umræðuna í dag.
Ég hef oft talað um það hvað það mundi spara ríki og sveitarfélögum ef þessir 2 hópar væru á launum sem hægt væri að framfæra sér á. Það mundi spara læknis kostnað, sálfræðiþjónustu, lyfjakostnað og margt fleira sem fylgir því að vera alltaf á hausnum.
Það væru greiddir skattar, beinir og óbeinir til þjóðfélagsins og ef útkoman væri skoðuð grannt er ég sannfærð um að hækkun örorkulífeyris og ellilífeyris mundi skila sér ansi vel til baka.
Það hlýtur að vera til bóta fyrir þjóðfélagið að sem flestir séu við sæmilega heilsu, bæði andlega og líkamlega. Það bara hlýtur að spara heilsugæslukostnað.
Til þess að fólk sé sæmilega hraust þarf það að geta keypt í matinn og það er ekki hægt alla daga mánaðarins eins og ástandið er núna hjá þeim sem ekki tilheyra elítunni en eru öryrkjar eða eftirlauna fólk.
Já, nú verður hægt að fylgjast með loforðabunkanum streyma af vörum þeirra sem ætla sér að komast á þing næst og loforðin um gull og græna skóga, og svo skammir til núverandi ríkisstjórnar sem fellir allt sem andstaðan leggur fram. Þetta er söngur sem við þekkjum og spurningin verður hvort lagið breytist eitthvað núna? Ég hef ekki trú á því.
Hvað gerir þjóðin svo? Jú, hún segir að ástandið sé slæmt en ekkert hægt að gera.
Hvernig var það í búsáhaldabyltingunni og hvað gerði Hörður?
Sat hann heima og gerði ekki neitt?
Nei, hann barðist og fékk fólk í lið með sér og allt varð vitlaust sem betur fer.
Núna er bara vonleysi og engin barátta að ráði, sýnist mér. Passið ykkur þegar pólitíkin fer að vitna í það sem þau hafi gert og hafi ekki fengið stuðning. Þar liggur hundurinn nefninlega grafinn. Þegar þeir sem voru hundsaðir af núverandi ríkisstjórn komast til valda breytist allt. Það hefur alltaf gert það og mun gerast núna.
Loforð sem ekki er hægt að standa við af því að stjórnin er eins og hún er verða EKKI EFND að loknum kosningum. Margir munu láta blekkjast og halda að eitthvað gott sé í pokahorninu, því miður.
Öryrkjar og eldri borgarar eru afætur á þjóðfélaginu samkvæmt pólitíkinni og tilheyra ekki FÓLKINU.
Hulda Björnsdóttir