Verðmæti eftirlauna minna minnkar í takt við verðgildi íslensku krónunnar

14.júlí 2020

Á einum mánuði hafa útborguð laun mín rýrnað um 20.670 krónur vegna gengis íslensku krónunnar.

Af hverju er ég að tuða um þetta?

Jú, það vill þannig til að margir öryrkjar og eldri borgarar sem búa á Íslandi eru að velta fyrir sér flutningum til landa þar sem ódýrara er að búa og hægt að draga fram lífið með aðeins meiri reisn en á Íslandi. Ég er ekki að bera saman verð á Íslandi og til dæmis á Spáni. Mér dettur það ekki í hug. Þegar verðsamanburður er gerður þarf að taka tillit til launa í landinu sem flutt er til og ýmissa þátta í því þjóðfélagi.

Hér í Portúgal eru til dæmis eftirlaun rúmar 250 evrur á mánuði fyrir heimafólk, venjulegt heimafólk. Þau skrimmta með hjálp ættingja og vina og þau eru oft á tíðum með ræktun og drýgja þannig tekjurnar. Eins og fólk getur séð er ekki hægt að bera saman 250 evrur og 2.000 evrur. Annars vegar eftirlaun heimamanns og hins vegar eftirlaun til dæmis Íslendings.

Það sem ég er að vekja athygli á er að þegar flutt er til annara landa og kannski ekki eignir á Íslandi og launin í íslenskum krónum þá er gengið það sem setur strik í reikninginn fyrir alla, ekki bara okkur sem búum erlendis heldur líka þá sem eru á Íslandi. Allt hækkar á Íslandi þegar gengið fer til fjandans eins og það gerir þessa mánuðina.

Við flutning á milli landa þarf að gera ýmsar áætlanir og skoða hvort dæmið gangi upp og þá skiptir máli hvernig krónututtlan stendur sig.

Núna er ég í stökustu vandræðum með að láta mitt dæmi ganga upp. Allar áætlanir frá síðasta ári eru foknar út í veður og vind.

Mér finnst óþægilegt að geta ekki vitað nokkurn vegin hvað gerist á árinu og hvernig fjárhagurinn kemur til með að líta út. Það hefur bjargað mér að sumu leyti fyrir horn að ég hef verið í nokkurs konar einangrun síðan í mars vegna Covid og ekki dandalast út um allar trissur.

Ég vildi ekki lifa þessu lífi til lengdar en á meðan ekki er komið bóluefni þá hlýði ég því sem við eigum að gera hér í litla landinu mínu.

Þegar fólk sem hefur ekki miklar tekjur hyggur á flutninga til ódýrari landa er mikilvægt að skoða vel aðstæður. Hvað kostar að lifa í landinu og er það þess virði að skilja við ættingja og vini?

Í sumum löndum er hægt að leigja húsnæði og þá er að finna út hvað fylgir leigunni. Hérna hjá okkur er til dæmis hrikalega dýrt að halda heitu yfir veturinn því húsin eru ekki byggð með einangrun eins og við erum vön frá Íslandi og ef við viljum hafa hlýtt inni þá kostar það mikla peninga.

Ég settist niður til þess að skrifa þetta hreinlega til þess að hvetja fólk til að skoða hug sinn vel áður en farið er í útleguna. Verið hreinskilin við ykkur og vegið og metið alla kosti og galla. Bjóði einhver ykkur gull og græna skóga ef þið flytjið til útlanda þá staldrið við.

Gullið getur verið ómerkilegt þegar grannt er skoðað. Það er alveg öruggt að þó í útlöndum sé þá fæst aldrei EITTHVAÐ fyrir EKKI NEITT.

Annað sem líka er vert að skoða er hvort fólk sem er að hugsa um að flytja til heitari landa þolir mjög mikinn hita.

Núna  er sumar hér í litla landinu mínu, Portúgal og skógareldar geysa þrátt fyrir Covid aðstæður. Við missum slökkviðliðsfólkið okkar þetta ár eins og öll hin.

Ég ætla að láta fylgja með þessari grein mynd af klæðum slökkviliðsmanns sem lést núna. Hann var með 95% bruna um líkamann og einn af félögum hans heldur uppi því sem eftir er af síðubuxum þess sem lést.

Það er ekki hægt að lýsa með orðum hugrekki og fórnfýsi þessa unga fólks sem kemur á hverju sumri til þess að berjast við elda sem oft eru óviðráðanlegir og fórnarkostnaðurinn er mannslíf eftir mannslíf.

 

Ég hvet alla sem huga að flutningi að skoða vel hvert þeir vilja fara og hvort það sé eina lausnin.

Með kærri kveðju úr 36 stiga hita og sól þar sem ekki er von á undir 30 stigum út júlí mánuð að minnsta kosti.

Hulda Björnsdóttir

 

 

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: