Katrín og Bjarni, hvernig líður ykkur þegar þið farið að sofa á kvöldin?

  1. maí 2020

Nú er búið að semja enn eina ferðina og er það auðvitað hið besta mál.

Ég velti því þó fyrir mér hvernig fer fyrir hinum efnaminni þegar verðhækkanir læðast létt á tánum svo fáir verði raunverulega varir við fyrr en holskeflan ríður yfir.

Gengið er enn á leið til heljar og það hefur líka áhrif á verðlagið almennt.

Við sem búum erlendis fáum minna fyrir naumt skammtaðar krónur vegna eftirlauna og örorkubóta. Það er líka fólk sem hefur flúið landið sem er með börn og fær meðlag frá Íslandi. Þær upphæðir rýrna þegar gengið lætur eins og núna.

Þeir sem búa á Íslandi halda sumir hverjir að gengið hafi ekki áhrif á þá eins og okkur flóttamennina og finnst við vera með frekju og yfirgang þegar við kvörtum yfir genginu.

Bara að þetta væri svo einfalt þá væri ég ekki með eins gríðarlegar áhyggjur af öryrkjunum mínum og eldri borgurunum ásamt fátæka fólkinu á einu ríkasta landi í veröldinni.

Ég velti því endalaust fyrir mér þegar samið er á hinum almenna vinnumarkaði fyrir félagsmenn í hinum ýmsu stéttarfélögum af hverju ekki er tekið inn í samningana réttlæti fyrir eldri borgara og öryrkja.  Flestir eldri borgarar hafa borgað félagsgjöld alla sína starfsævi og hafa verið látnir, lögum samkvæmt, spara prósentu af launum sínum til efri áranna, í formi greiðslu til Lífeyrissjóða.

Fótunum getur verið kippt fyrirvaralaust undan félagsmönnum með slysi eða veikindum og fólk orðið öryrkjar vegna þess. Þetta fólk hefur líka verið í verkalýðsfélögum og greitt félagsgjöld og sparað í Lífeyrisjsóði.

Ætti ekki að vera sanngirnismál að fjalla um kjör þessara hópa þegar samið er á hinum almenna vinnumarkaði?

Nú er farinn af stað málarekstur gegn ríkinu vegna skerðinga á greiðslum frá TR ef fólk er að fá greitt úr lífeyrissjóðum. Við erum látin niðurgreiða með sparnaði okkar það sem átti að vera fyrsta stoð í kerfinu. Grái herinn og baráttujaxlar þar hafa tekið af skarið og sækja nú málið fyrir Héraðsdómi. Stofnaður hefur verið málssóknarsjóður og allt í kringum peningamálin er eins og best verður á kosið.

Við erum lánsöm að hafa fólk eins og Wilhelm, Finn og Ingibjörgu sem aldrei gáfust upp og komu málinu á koppinn.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur var held ég fyrst til þess að gefa loforð um framlag í sjóðinn og fleiri hafa fylgt á eftir. Einstaklingar eru líka í hópi þeirra sem leggja sitt af mörkum, allt eftir efnum og ástæðum.

Svona málarekstur er flókinn og tekur tíma. Reiknað er með öllum dómsstigum og 3 árum að minnsta kosti. Já ég veit að ég hef talað um þetta sjötíu og eitthvað sinnum áður en þetta er vísa sem við verðum að læra.  Það er búið að brjóta á okkur árum saman og nú er komið HINGAÐ OG EKKI LENGRA og ég er þakklát fyrir það.

Ég er enn að velta því fyrir mér af hverju verkalýðsfélög taka ekki öryrkja og eldri borgara inn í samningaferlið. Af hverju er ekki til dæmis lögð áhersla á að farið sé eftir lögum varðandi þessa hópa um að greiðslur TR fylgi launaþróun?

Svo er það fátæka fólkið á vinnumarkaðinum sem alla daga lepur dauðann úr skel. Hvað verður um launahækkunina á meðan gengið gargast upp eftir öllu og ALLT kemur til með að hækka?

Þjóðfélag sem getur greitt stjórnendum fyrirtækja fúlgur fjár fyrir það eitt að hætta störfum er eitthvað á skjön við þá sem lepja dauðann úr skel alla daga ársins.

Ríkisstjórn sem segir að ekki sé hægt að greiða námsmönnum eða öðrum sem ekki hafa atvinnu, af því að fólk fái ekki greitt FYRIR AÐ GERA EKKI NEITT, er eitthvað einkennilega stemmd.

Ég hef held ég aldrei heyrt neitt eins kolgeggjað á langri ævi og hef þó fylgst grannt með tíkinni á Íslandi.

Hvar er réttlætið Katrín?

Hvar eru loforðin frá 2013 Bjarni?

Er ykkur bara skítsama um hvort við hinn sauðsvarti lepjum dauðann úr skel alla daga ársins eða finnið þið til ábyrgðar og ætliði að gera eitthvað strax?

Ég geri mér grein fyrir því Katrín og Bjarni að við erum ekki fyrirtæki og alls ekki í ættarranni hinna ríku.

Ég ætlast samt til þess að þið standið við orðin sem höfð eru eftir ykkur á Alþjóðavettvangi um að allt sé svo dásamlegt á Íslandi. Ég hef horft á ykkur í beinni útsendingu erlendis dásama hvað allt sé gott á landinu ykkar.

Vakniði nú af draumasvefninum og skoðið raunveruleikann. Þið fenguð launahækkun afturvirkt og getið verið alsæl með það. Við sem erum öryrkjar og eldri borgarar höfum ekki fengið bættan skaðann frá 2008 og við fáum aldrei afturvirkar leiðréttingar. AF HVERJU SITJUM VIÐ EKKI VIÐ SAMA BORÐ OG ÞINGHEIMUR?

Réttlætið er fyrir alla en sumir eru gjaldgengir í réttlætinu og aðrir ekki.

Hvernig líður ykkur Katrín og Bjarni þegar þið farið að sofa á kvöldin?

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: