26.desember 2019
Ég ætla aðeins að tala um skerðingar sem stundaðar eru samvkæmt lögum!
Tryggingastofnun ríksins greiðir öryrkjum og eftirlaunafólki ákveðnar greiðslur á mánuði sem kallaður er lífeyrir.
Þegar stofnunin reiknar út hvað hver og einn á að fá frá stofnuninni eru skoðaðar tekjur einstaklingsins, það er fyrsta skrefið.
Fyrst ætla ég að skoða hvernig þetta er hjá öryrkjum. Ég ætla rétt að bæta því við að mér finnst kerfi það sem öryrkjar búa við hjá stofnuninn alveg eins og kínverskan þegar ég var að byrja að læra hana. Gjörsamlega óskiljanlegt og hvernig sem ég reyni að komast til botns í kerfi sem öryrkjum er boðið upp á er það enn botnlaust. Ég efast stórlega um að nokkur maður skilji óskapnaðinn og ég lærði sæmilega kínversku á sínum tíma en er enn að basla við kerfi sem Tryggingastofnun er gert að vinna eftir.
Þetta sem er hér að neðan er tekið af vef TR og er tafla 3 sem fjallar um hlutfall frádráttar eftir að frítekjumörgum er náð og er mismunandi eftir greiðslutegundum!
AUÐSKILIÐ eða hvað?
Semsasgt
Tegund lífeyris sem öryrkjar geta fengið, takið eftir GETA fengið er þetta:
Örorku- og endurhæfingarlífeyrir (grunnlífeyrir) frádráttur 25%
Aldursteng örorkuuppbót er fast hlutfall af örorkulífeyri og miðast við aldur við fyrsta örorkumat frádráttur 25%
Tekjutrygging: Viðmiðunartekjur lífeyris upp að 2.575,220 kr. Frádráttur 38.35%
Tekjutrygging: Viðmiðunartekjur lífeyris upp að 2.575.220 kr. Frádráttur 13.35%
Heimilisuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Frádráttur 12,96%
Ráðstöfunarfé : frádráttur 65%
Sérstök uppbót til framfærslu (framfærsluviðmið) er greidd ef allar tekjur að meðtöldum skattksyldum tekjum frá Tryggingastofnun eru undir framfærsluviðmiði. Það sem vantar upp á framfærsluviðmið er þá greitt sem sérstök uppbót til framfærlsu. Við útreikning sérstakrar uppbóter eru teknar 65% af tekjum lífeyrisþega, 50% af aldurstengdri örrkuuppbót frá Tryggingstofnun auk 10% uppbótar af öðurm greiðslum frá Tryggingastofnun. Aðrar uppbætur á lífeyri eru ekki teknar með við útreikning sérstakrar uppbótar.
Framfærsluviðmið býr ekki einn: krónur 255.834 á mánuði
Framfærsluviðmið býr einn: krónur 321.678 á mánuði
Ég get svarið það að ég skil harla lítið í þessu sem er hér að framan. Ég reyndi að tala við Öryrkjabandalagið og fékk þau svör að ég skyldi tala við Tryggingastofnun !
Þá eru það eftirlauna fólkið:
Ellilífeyrir er kr.256.789 á mánuði, og skerðist vegna tekna frá Lífeyrissjóði og fleiri tekna sem eru umfram 25.þúsund, um 45%
Heimilisuppbót er krónur 64.889 krónur á mánuði fyrir þá sem búa einir og búa á Íslandi. Hún skerðist um 11,9% vegna annarra tekna
Orlofs- og desemberuppbót er alls 96.829 krónur og greiðist 40% upphæðar í júlí og 60% upphæðar í desember. Greiðslan skerðist um 2% af tekjum lífeyrisþega uns hún fellur niður.
Það sem mér finnst einkum áhugavert að skoða hér er heimilisuppbótin.
Stjórnamálamenn ásamt núverandi formanni Landssabands eldri borgara nota heimilisuppbót til þess að eftirlaunin líti betur út og taka hana með þegar þau eru að tala um upphæðir frá TR til eftirlaunaþega.
STAÐREYNDIN ER AÐ HEIMILISUPPBÓT ER EKKI PARTUR AF ELLILÍFEYRI, HÚN ER FÉLAGSLEG UPPBÓT SEM GREIDD ER TIL ÞEIRRA SEM BÚA ALEINIR OG ALLS EKKI TIL ÞEIRRA SEM BÚA ALEINIR ERLENDIS!
FÉLAGSLEG AÐSTOÐ, ÖLL EINS OG HÚN LEGGUR SIG, FELLUR NIÐUR BÆÐI HJÁ ÖRYRKJUM OG ELDRI BORGURUM, EF ÞEIR VOGA SÉR AÐ FLYTJA TIL LANDA ÞAR SEM ÞEIR HUGSANLEGA GÆTU LIFAÐ AF EFTIRLAUNUM SÍNUM EÐA ÖRORKUBÓTUM.
Ég verð dálítið pirruð þegar ég skoða þetta skrímsli og ég verð eiginlega mjög reið þegar ég skoða stöðu mína þar sem ég niðurgreiði um 45% það sem opinbert apparat, sem á að vera stuðningur númer eitt, notar sparnað minn í lífeyrissjóð til að skerða greiðsluna frá TR sem ég hef áunnið mér með búsetu í landinu yfir 40 ár og greiðslu skatta og opinberra gjalda alla mína starfsæfi.
Ég hef semsagt vogað mér að verða meira en 67 ára og fyrir það skal mér refsað.
Ég ætla ekki að gera apparatinu það til geðs að drepast fyrr en í fyrsta lagi eftir 10 ár. Þangað til mun ég vera mjög reið og ofsalega pirruð og halda áfram að andskotast yfir óskiljanlegum óskapnaði sem þetta kerfi er.
Ranglátt, ómanneskjulegt og búið til af ráðamönnum sem hafa setið í ráðuneytum árum og áratugum saman.
Þegar Pétursnefndin kom með góðar tillögur til úrbóta á lögum um Almannatryggingar á þeim 10 árum sem hún starfaði til ársins 2017, var svar ráðuneytisins NEI NEI NEI, þetta gengur ekki!
Það var og er nefninlega ekki við Pétursnefndina að sakast hvursu hroðalega tókst til með hin nýju lög Almannatrygginga. Nefndin vildi bót og gerði tillögur en hún var hunsuð og send til baka.
Mikið hlýtur ráðuneytisstjórum að líða vel þegar þeir skoða skrímslið. Þeir hljóta að líta yfir verk sitt og segja : Þetta er harla gott, og glotta út í annað ef ekki bæði.
Það er fólk enn á lífi sem sat í Pétursnefndinni og getur borið vitni um hvernig farið var með góðar tillögur.
Núna er settur á laggirnar hópur eftir hóp, ekki lengur kallað nefnd, til þess að skoða allt milli himins og jarðar varðandi eldri borgara og þeirra líðan. Í þessum hópum situr oftar en ekki fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, sem er núverandi formaður Landssambands eldri borgara.
Þessi ágæta manneskja sullaði því út úr sér í viðtali ekki fyrir svo mjög löngu að bætt líðan eldri borgara fælist í IPAD notkun!
Ég held að ég hætti mér ekki út í að tala meira um frúnna.
Það eru jú síðustu dagar þessa árs og ég get tekið til eftir áramótin og andskotast í öllu og öllum sem sitja við kaffidrykkju og vínarbrauðs át vélandi um hvernig mér og öðrum, sem erum svo óheppin að vera annaðhvort eldri borgarar eða öryrkjar, á að líða og hvaða tæki við eigum nota til þess að láta okkur líða svo dásamlega vel!
Hulda Björnsdóttir