21.desember 2019
Örfá orð í kvöldkyrðinni áður en rafmagnið fer af hér í Portúgal.
Nú hef ég fengið greiðsluáætlun og tekjuáætlun frá TR fyrir árið 2020.
Staðreynd málsins er þessi:
ALLAR TÖLUR ERU FYRIR SKATT
Fullur ellilífeyrir er krónur 256.789 fyrir árið 2020
TR greiðir mér króur 195.494 árið 2020
Stofnunin með fulltingi laga um Almannatryggingar stelur af mér krónum 61.295 í hverjum einasta mánuði ársins!
Af hverju segi ég að stolið sé af mér í hverjum mánuði?
Jú, það er ekki flókið. Ég borgaði í lífeyrissjóð allt mitt líf, eða alla starfsævi mína og sá sparnaður var lögum samkvæmt og átti að vera viðbót við það sem ég hafði unnið mér rétt til að fá frá Almannatryggingakerfinu með búsetu og skattgreiðslu.
Margir, eða allavega einhverjir líta svo á að það sé bara í fínu lagi að gera sparnaðinn minn upptækann á þennan máta. Ég er ekki sammála því.
Einhverjir hafa uppi þær varnir að þetta sé nú ekki svo slæmt. Ég fái meira en þeir sem aldrei hafa greitt í Lífeyrissjóði og ég fái meira en margir sem eru í láglaunastörfum hingað og þangað í þjóðfélaginu.
Einmitt!
Og réttlæta svona rök að það sem ég sparaði til efri áranna sé bara hirt til þess að hægt sé að gera eitthvað annað við peningana og að ríkisstjórnir hvers tíma geti verið í húllum hæi fram og til baka eins og þeim sýnist?
Nei, þau gera það ekki!
Mér er nákvæmlega sama hvað hver segir. Ég sparaði í þeirri trú að ég mundi geta séð fyrir mér þegar ég hætti að vinna!. Þess vegna borgaði ég glöð í lífeyrissjóð af launum mínum eins og lög gera ráð fyrir. Ég var hins vegar heppin og sá í gegnum plottið. Ég sá fljótlega að ég gæti engan vegin lifað af því sem mér mundi vera skammtað og lagði á flótta. Ég vissi að ég mundi ekki verða gömul á Íslandi. Ég tók til minna ráða og fór og kem aldrei aftur og kalla Ísland aldrei “heima”. Heima er þar sem ég bý núna og þar sem ég kem til með að bera beinin.
Mér er líka alveg sama þó einhver segi að ég sé hrokafull og eigingjörn og hafi enga meðaumkun með þeim sem hafa minna á milli handanna en ég. Það verða einhverjir sem láta slíkt út úr sér!
Ljósið í myrkrinu, í öllu óréttlætinu sem stjórnmálamenn sem hafa sett lög undanfarna áratugi beitt okkur venjulegt fólk sem greiddum sum hver nauðug í sjóðina, er að nú er að fara af stað málssókn til þess að hnekkja gjörningnum.
Grái herinn, sem ég hafði ekki trú á hér fyrir einu eða tveimur árum, er nú orðinn alvöru baráttumaskína og stendur fyrir málaferlunum. Baráttujaxlar þeir Finnur Birgisson og Wilhelm Wessman hafa farið þar í fararbroddi ásamt Ingibjörgu. Þetta fólk á þakklæti inni hjá mér og öðrum sem finnst ekki í lagi að niðurgreiða réttmætar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
Þeir sem finnst allt í fína að niðurgreiða geta bara haldið því áfram og verið glaðir og glaðar með sitt. Ég neita hins vegar að ganga í þann hóp. Ég ætla að halda áfram að vera í óánægða hópnum sem finnst brotið á sér.
Ég verð öskureið í hvert sinn sem ég lít á þessa staðreynd, um hver einustu mánaðmót, að vera beitt slíku ofbeldi þegar það eina sem ég hef unnið mér til saka er að vera komin á eftirlaun.
Ég verð enn reiðari þegar ég hugsa til þess að ég skuli vera svift heimilisuppbót sem þeir sem búa einir fá, bara af því að ég var svo ósvífin að búa ekki við sult og seyru á Íslandi þegar ég fór á eftirlaun.
Til þess að halda heilsu næstu 10 árin er auðvitað ekkert vit í því að vera öskureið alla daga svo ég leyfi mér að fá útrás stundum, en alls ekki alltaf, en það get ég sagt með sanni að þegar ég heyri þetta: Sumir hafa það nú miklu verra! þá fyrst rýkur út úr hausnum á mér.
Á ég að svelta bara af því að einhverjir aðrir svelta?
Á ég að vera hálf geðveik alla mánuði af því að einhverjir aðrir eiga ekki fyrir öllum reikningum en ég get borgað mína?
Á ég að skammast mín fyrir að geta leyft mér að borða mat sem mig langar í þegar mig langar í af því að einhverjir aðrir hafa ekki í sig og á alltaf?
Þetta eru svo viðbjóðslega ómanneskjuleg rök að ég skammast mín fyrir að skrifa þau niður á blað.
Ég á auðvitað að geta haft það þokkalegt rétt eins og allir aðrir.
Kjarni málsins er nefninlega sá að Íslendingar, allir Íslendingar eiga að geta haft að bíta og brenna alla daga ársins. Eins og ég hef sagt hundrað og sjötíu sinnum eða meira þá er það þjóðarskömm fyrir eina af ríkustu þjóðum heims að hafa leyft glæpamönnum að hirða upp eignir þjóðarbúsins og að hafa leyft mönnum að fara á hausinn aftur og aftur og byrja upp á nýtt, allt á kostnað skattgreiðanda og láta svo þetta lið sitja í stólum Alþingis og þykjast bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti er toppurinn á heimskunni.
Þú átt nú að vera góð, það eru að koma jól! segja einhverjir.
Mér er alveg sama hvort það eru að koma jól eða bara mánudagur, venjulegur mánudagur.
Ég vil fá Lífeyrissjóðinn minn óskertann og hananú!
Hulda Björnsdóttir
Hvað meinarðu með þessari setningu Hulda?
“Ég verð enn reiðari þegar ég hugsa til þess að ég skuli vera svift heimilisuppbót sem þeir sem búa einir fá, bara af því að ég var svo ósvífin að búa ekki við sult og seyru á Íslandi þegar ég fór á eftirlaun.”
Kv.
LikeLike
Þegar íslendingar flytja til útlanda missa þeir allar félagslegar bætur og heimilisuppbót er félagsleg uppbót fyrir eftirlaunafólk sem býr eitt. Þeir sem búa á Íslandi fá þessa viðbót. Við sem búum ein erlendis fáum hana ekki.
LikeLike
Einmitt eins og talað út úr mínum munni, af hverju að þvinga mann til að greiða í lífeyrissjóð, þegar það er ekki að gera lífið neitt betra og ég veit ekki hvort það er hagstætt fyrir ríkið að allir ellilífeyrisþegar sem geta því við komið flýi land en sennilega er það plottið, ég mun alla vega ekki geta leyft mér að eldast á Íslandi og skammast mín svolítið að hafa ekki lagt inn á reikning í Sviss í stað þess að greiða eins og glaður asni í lífeyrissjóð og þar sem ég vann nú í einum slíkum, þá var það hefð að biðja frekar um hækkun á greiðslum í lífeyrissjóði frekar en beina launahækkun. Ég sé það núna að við erum öll seld undir sama hatt. Ríkisstjórn hinna efnameiri og við getum bara étið það sem úti frýs þ.e. þessi “málaflokkur” aldraðir og ellilífeyrisþegar sem kosið er að kalla þetta battery því það er miklu auðveldara að svíkja málaflokk en fólk.
LikeLike