1.desember 2019 – Við megum ekki gefast upp

1.desember 2019

Góðan daginn kæri lesandi

Nýr mánuður, sá síðasti á þessu ári og líklega mörgum léttir að sjá fram á bjartari daga á nýju ári, eða er það?

3,5 prósent hækkun greiðslna frá TR er í augum sumra, stjórnmálamanna, heill hellingur.

Hins vegar erum við sem fáum greitt frá TR, annað hvort öryrkjar eða eldri borgarar, ekkert sérlega hoppandi hamingjusöm með örlætið.

Ég veit ekki hvað mikið verður úr þessum prósentu títlum sem t.d. ég fæ úthlutað!

Í grjóthörðum peningum gerir það hvorki meira né minna en 6.500 krónur FYRIR SKATT.

Þetta gerist næsta ár, og líklega í janúar!

Núna, þetta árið, er ástandið víða svona;

Sárafátækt fólk á ekki fyrir mat, það á ekki fyrir hússkjóli og það þarf að leita á náðir hjálparstofnana til þess að deyja ekki!

Hvaða vitleysa er segir þetta í þér manneskja! segir einhver.

Nei, þetta er bláköld staðreynd á Íslandi þar sem milljarðar á milljarða ofan renna ljúft í vasa ættingja og vandamanna þeirra sem ráða hvert peningarnir fara! er svar mitt.

Þessa síðustu dafa hef ég heyrt í nokkrum öryrkjum sem eru yndislegir vinir mínir. Ástandið er ekki gott. Vonleysi og svartsýni eru ofan á. Uppgjöf er algeng og viðkvæðið “við getum engu breytt, ég er búin að gefast upp” kemur aftur og aftur hjá þessu dásamlega fólki.

Eldri borgararnir, vinri mínir, eru ekki par bjartsýnni. Skattarnir eru að drepa allt, segja sumir. Af hverju er þetta svona? spyrja aðrir. Hvað varð um sparnaðinn okkar? Hvað varð um framlag okkar til uppbyggingar þjóðfélags sem núna hefur gleymt okkur, eða vill ekki muna eftir okkur? Hvað eigum við að gera? Getum við gert eitthvað? segja þeir.

Svar mitt er ekki einfalt, eða kannski er það bara merki um einfeldni mína að mér finnst við ekki geta gefist upp. Við getum ekki látið troða á okkur endalaust.

Einn ágætur herramaður sagði að eina ráðið væri að ganga til liðs við Miðflokkinn og koma þessum málum í höfn þar!  Það er auðvitað fín hugmynd að ganga til liðs við eina flokkinn á Íslandi sem er tandurhreinn og EKKI ANGI AF SPILLINGU innanborðs! Eins og ég hef sagt áður þá er ég svo ljónheppin að þurfa ekki að velja þar sem kosningaréttur minn er útrunninn og ég ætla mér ekki að endurnýja hann.

Ég veit ekkert hvaða flokk fólk á að kjósa og mér kemur það eiginlega ekkert við.

Ég veit hins vegar að við getum ef við stöndum saman, brotið á bak aftur kúgunina, því það er auðvitað ekkert annað en kúgun að láta tugi manna og kvenna draga fram lífið á tekjum sem eru langt undir lágmarksframfærslu!

Sumir sem komnir eru á eftirlaun hafa það fínt og er það gott mál. Aðrir, og þeir eru líklega fleiri, eru á horriminni alla daga ársins og engin undantekning þó það séu jól eða aðrar hátíðir framundan.

Það er fyrir fólkið sem er á horriminni sem við þurfum að berjast. Við verðum að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra. Við verðum að láta í okkur heyra. Við verðum að styðja þá sem eru að reyna. Við verðum að breyta þeirri aldagömlu venju að Íslendingar sætti sig bara við ástandið.

Fullveldisdagur er á Íslandi í dag.

Fullveldið kom ekki á silfurfati. Það þurfti að hafa fyrir því og sýna baráttuvilja, þrek og þor.

Hugsið ykkur, það eru sumir sem þora ekki annað en að kjósa flokka sem nú á tímum fyrirlíta þá sem eiga erfitt og vilja helst snúa baki við þessu fólki. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég las þetta í meira en einu commenti hér á Facebókinni.

Við getum notað daginn í dag, 1. desember 2019, til þess að hugleiða hvað við getum gert til þess að ÖLLUM líði vel ALLTAF. Ég er ekki að tala um að fólk þurfi að lifa í vellystingum alla daga. Nei, ég er að tala um að ALLIR eigi alltaf mat, hafi alltaf skjól yfir höfuðið, geti alltaf farið til læknis þegar þarf og geti einstaka sinnum sótt listaviðburði ef fólki finnst það skemmtilegt.

Sumir halda jól og aðrir ekki.

Sumir halda jól af því að þeir elska jólin. Aðrir halda ekki jól af því þeir kvíða þeim og ýmsum ástæðum, meðal annars sárri fátækt. Enn aðrir halda ekki jól af því þeir velja að gera það ekki.

EIGA EKKI ALLIR AÐ HAFA VAL, FRJÁLST VAL?

Það er ekki frelsi að kvíða jólunum af því að peningarnir eru svo naumt skammtaðir að ekki tekst að hafa mat á borðinu þessa síðustu viku ársins! Það er heldur ekki frelsi að kvíða kuldanum yfir veturinn af því að ekkert skjól er til.

Þegar ég var að alast upp og þó nokkuð fram eftir ævinni voru utangarðsmenn þeir sem ekki áttu skjól og sváfu utandyra yfir veturinn og þegar ég gekk um túnið á Kjarvalsstöðum voru nokkrir útvaldir staðir þar fyrir útigangsfólkið. Mér varð alltaf hálfillt þegar ég sá þetta blessaða fólk svo arkandi um göturnar á morgnana á leið í apótekið eða í matvöurverslunina til þess að ná sér í brjóstbirtuna. Þetta var fyrir mörgum áratugum.

Núna er árið 2019 og 2020 rétt handan við hornið. Þeir sem sofa úti eru ekki útigangsmenn. Þeir eru bara venujulegt fólk sem hefur gefist upp á baráttunni við skrímslið sem velferðarkerfi íslensks þjóðfélags er í dag af því að græðgin hefur haslað sér völl og hrifsað til sín ALLT.

Margir hafa flúið land. Það fólk getur sumt hvert dregið fram lífið á tekjum sem það hefur en lifir engu lúxsus lífi, en það lifir þó. Þeir sem flýja með ekkert á milli handanna eiga erfitt uppdráttar en það tekst að merja lífið fram og ná sér á strik með hjálp heimamanna og andlegum stuðningi. Samt sem áður er dökkur blettur á þessu öllu saman. Einhverjir sem eru veikir fyrir standast ekki freistingar ódýrra veiga og verða veikir, svo veikir að ættingjar þurfa að sækja þá og flytja aftur heim í landið sem vill þá ekki. Ég vissi ekki af þessu ástandi fyrr en nýlega og hrökk í kút. Þetta er samt, þegar ég hugsa um það, rökrétt og ég hef horft upp á svona ástand án þess að gera mér grein fyrir því hvað væri að gerast. Væri nú ekki manneskjulegara að búa svo að fólki á Íslandi að það þyrfti ekki að flýja, og gæti notið þess að vera í návist vina og fjölskyldu? Væri það ekki mannúð að búa svo að öryrkjum og eftirlaunafólki ásamt fátækasta fólkinu, að það gæti verið þar sem það helst kýs ef það land er Ísland? Mér finnst það vera sjálfsögð krafa og ætti ekki að velkjast fyrir neinum.

Ég verð þó aðeins bjartsýnni fyrir hönd vina minna þegar ég hugsa um kraftinn sem Finnur, Wilhelm og Ingibjörg sýndu. Þau hrintu af stað ferli sem endar nú í málssókn gegn ríkinu vegna stærsta þjófnaðar síðari tíma, þjófnaði þar sem ríkið hefur brotið afskiptalaust á þeim sem hafa greitt og sparað í lífeyrissjóði.  Það er ærandi þögn stjórnmálamanna um þetta mál og ekki að undara. ALLIR stjórnmálamenn síðari tíma hafa fylgt þeirri stefnu að stela sparnaðinum!

Ég ætla ekkert að tala um jólabónusa alþingismanna versus jólabónus þeirra sem fá greitt frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég ætla heldur ekkert að tala um að verkalýðsfélög greiða eftirlaunafólki sínu ekki jólabónusa eða desemberuppbót sem bónusinn heitir á launamarkaði. Ég ætla ekki heldur að tala um að atvinnulausir fá hærri jólabónus, desemberuppbót, en öryrkjar og eldri borgarar. Nei, ég ætla ekkert að tala um þetta því gerði ég það risu upp öskureiðir lesendur og segðu mér að þetta væri allt í gúddí!

Ég get þó ekki setið á mér að segja frá því að jólabónus þeirra sem sitja á hinu háæruverðuga er hærri en tekjur mínar frá Tryggingastofnun ríkisins í desember! Sanngjarnt ekki satt?

Eða er ég kannski bara full af mannfyrirlitningu og öfundsýki eins og einn formaður lýsti mér?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: