9.október 2019
Það er eitt og annað sem hefur verið kastað í mig eftir að ég hóf að skrifa um málefni eldri borgara, öryrkja og fátækra á Íslandi.
Sumt hefur verið sent í persónulegum skilaboðum og hef ég ekki verið að ómaka mig á því að svara skítnum.
Í gær fékk ég hins vegar alveg nóg og eftir blammeringar frá Hafdísi Hauksdóttur var ég half orðlaus. Athugasemdir hennar eru svo út úr öllu samhengi að ég settist niður til þess að skoða prófíl þessarar manneskju.
Upplýsingar eru sáralitlar. Hún á 211 facebook vini og margir þeirra eru fyrirtæki. Hún býr í Reykjavík samkvæmt upplýsingum hennar. Það kemur ekki fram aldur eða fæðingarár. Semsagt, upplýsingar af mjög skornum skammti.
Mér finnst lágmark að þeir sem eru að commenta á viðkvæm mál, eins og málefni eldri borgara og öryrkja eru, sjái sóma sinn í því að hafa sæmilegar upplýsingar um sig.
Semsagt
Hafdís Hauksdóttir leggur mér lífsreglurnar:
“ Vertu bara á bótum erlendis ef þú hefur það betra þar!!!! “
Síðan kemur næsta comment frá Hafdísi við mínu commenti þar sem ég segi að þetta sem er hér á undan sé mjög einkennileg athugasemd:
“nei fólk á ekki að vera á bótum hér ef það býr erlendis er bara að vitna í eina setningu hjá þér og búið, það er ekki hægt að vera með lögheimili í einu landi og búa í öðru landi og halda áfram að kvarta yfir öllu hér á landi eins og ég er margsinnis búinn að lesa. Er samt engan veginn sjálf sátt við hlutina hér á landi!!!!!! “
Það er þetta comment frá Hafdísi Hauksdóttur sem mér finnst í meira lagi athugavert.
Hún gefur hér í skyn að ég sé með lögheimili á Íslandi og búi í öðru landi!
Síðan gefur hún í skyn að hún hafi marglesið, líklega eftir mig, kvartanir yfir öllu á Íslandi.
Að lokum klykkir Hafdís Hauksdóttir út með því að segja að hún sé samt sjálf engan vegin sátt við kerfið á Íslandi, og notar óspart upphrópunarmerkið.
Ég spurði Hafdísi Hauksdóttur hver það væri sem byggi í öðru landi og væri með lögheimili á Íslandi? Hún hefur ekki svarað þeirri spurning þegar þetta er skrifað sem þú ert að lesa núna.
Ég spyr mig
Hvaðan hefur Hafdís Hauksdóttir þær upplýsingar að ég búi erlendis en sé með lögheimili á Íslandi?
Hafi hún þessar upplýsingar ætti hún að tilkynna það til Ríkisskattstjóra, Tryggingastofnunar ríkisins og Þjóðskrár, ef hún ætlar að vera samkvæm sjálfri sér.
Það er auðvelt að fletta mér upp í þjóðskrá og sjá hvar ég er skráð !
Á facebook síðu minni kemur fram hver er fæðingardagur minn, ég hef einfaldlega ekkert að fela, en gæti auðveldlega giskað á að frú Hafdís Hauksdóttir væri ekki alveg gegnsæ með upplýsingar sínar.
Ég veit ekkert hvað hún er gömul. Ég veit ekkert hvort hún er vinnandi eða ekki. Ég veit nákvæmlega ekkert um hana annað en að hún vænir mig um svindl á kerfi sem er lögleitt á Íslandi, kerfi sem ég fylgi í einu og öllu.
Ég hef ekki búið á Íslandi í mörg ár, hátt á annann áratug síðan ég flutti. Ég er ekki búin að vera 67 ára nema í 7 ár. Ég hef ekki þegið neinar bætur frá íslenska ríkinu. Ég fæ eftirlaun frá Lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég niðurgreiði það sem ég fæ frá TR með tekjum mínum frá Lífeyrissjóði þar sem TR skerðir eftirlaun þeirra um 45 prósent vegna tekna minna frá Lífeyrissjóði sem ég hef sparað í alla mína starfsæfi lögum samkvæmt og einnig hef ég greitt skatta og skyldur til íslenska ríkisins frá unga aldri.
Ég skora á Hafdísi Hauksdóttur að upplýsa mig og aðra sem fylgjast með skrifum mínum um eftirfarandi:
- Hvar er lögheimili mitt á Íslandi?
- Hvaða bætur þigg ég frá íslenska ríkinu?
Ég á fullan rétt á því að Hafdís Hauksdóttir upplýsi þessi 2 atriði án tafar og einnig fer ég fram á að hún sýni þann manndóm að kæra svik mín til Tryggingastofnunar, Ríkisskattstjóra og Þjóðskrár.
Geri hún það ekki þá eru ummæli hennar dauð og ómerk og hún ætti að sjá sóma sinn í því að biðja mig opinberlega afsökunar á áburðinum.
Ég mun hins vegar halda áfram að skrifa um bág kjör eldri borgara, öryrkja og fátæks fólks á Íslandi. Hafdís Hauksdóttir kemur ekki í veg fyrir baráttu mína fyrir bættum kjörum þessara hópa. Það er sorglegt að til skuli vera fólk eins og Hafdís sem hefur líklega ekki kjark eða þor til þess að vinna með þeim sem eru að benda á hvernig íslenskt velferðarkerfi fer með suma þegna sína. Haldi Hafdís Hauksdóttir að þeir tugir Íslendinga sem hafa flúið land til þess að komast af séu allir brotamenn þá get ég upplýst hana um að svo er ekki. Þetta fólk eru góðir og gegnir borgarar sem hafa þurft að yfirgefa fjölskyldu og vini á landinu sem þeir ólust upp í og gerast útlagar í framandi landi og löndum þar sem ólík tungumál eru töluð, ólík menning og venjur ríkja. Það er ekki auðvelt fyrir íslendinga að gerast flóttamenn en þeir sem það gera eiga engra kosta völ. Velferðarkerfi á Íslandi er ekki fyrir almenning. Það er sniðið fyrir hina vel stæðu og séð fyrir þeim í hvívetna. Það þarf ekki að berjast fyrir bættum kjörum 20 prósentanna sem fleyta rjómann af íslenskum ríkistekjum og sjá um að velferðarkerfið svelti. Það þarf hins vegar að berjast fyrir réttlæti fyrir tugina og hundruðin sem berjast í bökkum alla daga ársins.
Hulda Björnsdóttir