31.maí 2019
Góðan daginn
Siðasti dagur mánaðarins runninn upp og líklega anda einhverjir léttar eftir örfáa klukkutíma þegar lífeyrissjóðir hafa lagt inn á reikninga fólks.
Kannski geta þeir sem ekki hafa átt fyrir mat og lyfjum þessa síðustu daga fengið að borða og farið í apótekið.
Á undanförnum árum hefur ríkt góðæri á Íslandi og þeir sem mata krókinn hafa fitnað eins og púkinn á fjóshaugnum. Á sama tíma hafa öryrkjar og eldri borgarar ásamt fátæka fólkinu á einu ríkasta landi heims þurft að lepja dauðann úr skel.
Forrsætisráðherra sagði að fólkið gæti ekki beðið.
Fjármálaráðherra sendi fallegt bréf til eldri borgara árið 2013, þá voru einmitt kosningar að skella á og þurfti að ná í atkvæði.
Nú eru þessir 2 ráðherrar önnum kafnir við það að segja okkur að 5 ára fjárhagsáætlun ríkisins með öllu góðærinu, sé úrelt!
Auðvitað á ég ekki að vera svartsýn og trúa því versta, skárra væri það nú, á meðan ég hamast við að niðurgreiða eftirlaun mín frá TR með launum frá Lífeyrissjóði sem ég hef sparað í alla mína starfsæfi. Nei, ég á að vera þakklát fyrir að fá að taka þátt í því að hnoða undir elítuna sem fjármálaráðherra er í fararbroddi fyrir.
Samt er ég svartsýn og ég trúi því að ég sé bara ósköp raunsæ!
Þegar ráðherra kemur í fjölmiðla eða í stól hins fræga Alþingis og segir að nú sé að skella á kreppa veit ég hver kemur til með að borga. Þeir sem borga verða hinir verst settu eins og venjulega, það er bara þannig á Íslandi í dag. Ofdekruð kynslóð fjármálaráðherra elítunnar skilur ekki að jafnvel þó hægt sé að setja inn í reiknivél TR forsendur sem gefa öryrkja yfir 400 þúsund á mánuði þá er raunveruleikinn ekki þannig.
Nú þegar farið er að hamra á því að afkomulíkur séu verri en við var búist fyrir nokkrum mánuðum dettur mér í hug að líklega kunni klíkan ekki að reikna, allavega ekki frádrátt og samlagningu. Það er eins og ég hef sagt áður bráðnauðsynlegt að senda svona fínt fólk á námskeið í reikningi. Það þarf ekki að senda það á námskeið í útlistun á draumaástandi, þau eru sérfræðingar í því.
Kannski þarf líka að vekja kjósendur sem kjósa sama sukkið aftur og aftur og aftur og aftur, bara af því að þeir hafa alltaf gert það.
Nú er tími til þess að búa sig undir kreppuna.
Við sem tilheyrum EKKI elítunni þurfum ef mögulegt er að herða sultarólina enn frekar og strekkja á henni þar til við missum andann eitthvað út í loftið.
Á þessum fallega, heita degi, hér í litla þorpinu mínu í litla landinu mínu er ég öskureið og svartsýn.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra á Íslandi er svo hjartanlega sama um okkur sem erum utan við elítuna og þau gefa lítið fyrir kvartanir okkar. Við getum verið alveg viss um að öryrkjar og eftirlaunafólk fær ekki launahækkanir á næstunni.
Á Íslandi hefur efnahags ástandið alltaf gengið í bylgjum. Nú er komið að lægðinni. Gengið er í frjálsu falli og þingmenn stjórnar hamast við að vara okkur við. Lifum við þetta af? Ég veit það ekki. Getum við haldið í einhverja von? Ég veit það ekki. Ég vildi að ég hefði einhver ráð en þau hef ég ekki. Ég get bara horft á hvernig ástandið hefur verið í tíð núverandi ráðherra og vonað að kannski taki eitthvað betra við ef skipt verður um í brúnni. Ég verð þó að segja að bjartsýni mín stendur höllum fæti, svo ekki sé meira sagt.
Hulda Björnsdóttir