Endurgreiðslukröfur frá TR !

26.05.2019

Góðan daginn

Ég er að rísa upp úr flensunni og líklega löngu kominn tími á að senda eitthvað frá mér. Mér liggur ansi margt á hjarta eftir leguna en ætla í dag að tala um tekjuskerðingar TR hjá eldri borgurum ásamt svolitlu um stofnunina sjálfa.

Áður en þið takið af mér hausinn bið ég ykkur að lesa pistilinn a.m.k. 2svar!

Eins og þeir vita sem hafa lesið pistlana mína reglulega hef ég ekki sparað stóru orðin í garð TR þegar mér hefur þótt það við eiga.

Þegar viðskipti mín við stofnunia hófust fyrir 8 árum kunni ég lítið sem ekkert á kerfið og var áttavilt svo vægt sé tekið til orða. Ég og TR elduðum saman grátt silfur og gekk það svo langt að starfsmaður stofnunarinar skellti á mig símanum í miðju öskureiðu samtali. Ég var reið og starfsmaðurinn var líka reiður.

Smátt og smátt, eftir því sem árin hafa liðið, hef ég lært á kerfið og starfsfólkið. Núna eru viðskipti okkar á þægilegum nótum og þegar ég sendi skjöl sem þeir biðja um fer ég fram á að fá staðfestingu sem ég fæ svo til um hæl. Auðvitað eru samskipti okkar annað hvort í gegnum netið eða í símtölum þar sem ég bý jú ekki á landinu.

Semsagt, allt í besta lagi hjá mér og TR, en svo er ekki hjá öllum.

Núna er kominn endurreikningur fyrir árið í fyrra og fólk er að fá kröfu um endurgreiðslu og er reitt.

Ég fékk 87 krónur endurgreiddar og var bara lukkuleg með það þegar ég sá upphæðina fyrir rúmum mánuði inni á reikningi mínum.

Sumir frá endurgreitt og eru ekkert að rífast mjög mikið yfir því. Þeir sem fá bakreikning eru reiðir og líklega eru vonbrigði frekar orsök.

Það eru auðvitað vonbrigði að fá bakreikninga. Það er aldrei gott, ég skil það. Já, ég skil það raunverulega. Ég fékk svona bakreikning fyrir 7 árum og var hann þá upp á rúmar hundrað þúsund íslenskar krónur, 125 þúsund minnir mig. Það var ekki vanhæfni TR sem olli þessu. Nei, það var kunnáttuleysi mitt. Ég vissi einfaldlega ekki að tekjuáætlun hjá TR er á mína ábyrgð. Ég hélt að þeir sæu um að það mál væri í lagi. Skárra væri það nú á tímum tölvualdar og alles. Eftir nokkur samtöl og bréfaskriftir og rökstuðning stofnunarinnar um endurreikninginn sannfærðist ég svona hér um bil og ákvað að taka málið í mína umsjá, þ.e. að segja, tekjuáætlunina.

Á hverju ári fæ ég sent frá TR í tölvupósti tekjuáætlun. Ég skoða hana og prenta út. Tekjur mínar eru frá Lífeyrissjóði VR og ég veit að verðbólgan ræður hvort ég hækka eða lækka og fylgist ég því með hvað gerist í verðbólgumálum. Allt er þetta frekar auðvelt af því að ég kann að nýta mér tölvutæknina.

Þá kem ég kannski að kjarna málsins.

Það eru ekki allir eldri borgarar sem kunna almennilega á tölvur. Það eru ekki allir eldri borgarar sem treysta sér til að læra á apparötin og þeir standa svolítið einir gagnvart kerfinu.

Ég velti fyrir mér í alvöru hvort félög eldri borgara vítt og breitt um landið gætu ekki aðstoðað félagsmenn sína um áramót þegar tekjuáætlun TR kemur. Gætu þessi félög, sem innheimta félagsgjöld, ekki hjálpað fólkinu sem ekki treystir sér til sjálft, að fara inn á mínar síður á vef TR og skoða áætlunina og finna út hvort hún er kannski ekki rétt?

Gætu þessi félög ekki boðið upp á þessa þjónustu?

Félög eldri borgara eru mörg hver dugleg að bjóða upp á ferðalög og dansiböll og alls konar samkomur en það gæti verið að svona smámunir þyrftu að bætast við, það er aðstoð við tekjuáætlun TR. Ef þetta væri gert þá minnkaði endurgreiðslukrafan ábyggilega. Það mundi minnka tortryggni í garð TR og allir yrðu ánægðari.

Í þessari umræðu sem ég hef séð um málið er því haldið fram að króna á móti krónu skerðing valdi þessum endurgreiðslukröfum og þýðir oft ekki mikið að reyna að segja fólki að hjá eldri borgurum hafi króna á móti krónu skerðing verið felld niður og í stað komið 25 þúsund króna frítekjumark fyrir flesta.

Hugtakaumræðan er aðeins skökk.

Króna á móti krónu er ekki sama og 25 þúsund krónu frítekjumark og skerðingar upp á 45% eftir það.

Kannski þyrfti að koma upp orðabanka um þessi hugtök, ekki síst fyrir suma þingmenn sem nú sitja á hinu háa Alþingi Íslendinga. Segi bara svona.

Þeir sem eru núna ægilega reiðir við mig gætu hugsanlega lesið pistilinn aftur. Ef reiðin blossar enn þá verður bara að hafa það. Ég lifi það líklega af en ég held að það sé ekki málstað okkar til framdráttar að skoða ekki málið niður í kjöl.

Við erum auðvitað reið yfir því hvernig stolið er af okkur sparnaði okkar í lífeyrissjóði en er það TR að kenna? Er það ekki löggjafinn sem stýrir því?

Svo er líklega best fyrir Íslendinga að kjósa áfram sama flokkasukkið til þess að geta áfram rifist yfir greiðslum frá TR!

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: