Bótasvik – nei, ekki tala um þau!

15.júlí 2018

Ég er hætt að skrifa um málefni eldri borgara þar sem sú barátta virðist gjörsamlega vonlaus og engin ástæða til þess að reyna að koma þjóð sem kýs yfir sig aftur og aftur svartasta íhald í skilning um að það voru þeir sem á undan komu sem byggðu upp og lögðu grunn að þjóðfélagi sem átti að vera fyrir alla.

Það er vonlaust að koma þeim sem hafa það fínt og spóka sig á Davíðs eftirlanum í skilning um að margir á þessu guðsvolaða landi lepji dauðann úr skel, eftirlaunaþegar, öryrkjar og láglaunafólk eru þar efst á blaði.

Nei, þjóðfélagið færi á hausinn ef ljósmæðrum væru greidd almennileg laun.

Þjóðfélagið, sem á forsætis puntudúkku sem stendur næst fyllibyttu á Nato ráðstefnu og hristir á sér hárið og sleikir sólina, getur ekki séð fyrir öllum, það getur bara séð fyrir sumum.

Svo verða kosningar aftur og frú forsætis setur upp bros og lofar út og suður og allir voða ánægðir og kjósa aftur sama sukkið.

Ástæða þess að ég sit hér nú og skrifa eru ummæli Gunnars Smára í útvarpsþætti á Sögu fyrir örfáum dögum.

Ég hlusta aldrei á þessa stöð, og yfirleitt ekki á íslenskar stöðvar þar sem ég bý ekki í landinu, en ég sá á facebook vitnað í þennann þátt og ákvað að hlusta.

Rætt var við Hauk, Helgu Þorberg (Thorberg) og fleiri ásamt SIGGU í Portúgal.

Umræðuefnið var: Kjör eldri borgara og væntanlega öryrkja, fyrst talað var við SIGGU í Portúgal.

Allir nema þessi SIGGA í Portúgal komu fram undir fullu nafni.

Hvers vegna ætli það hafi verið?

Hvers vegna kom SIGGA ekki undir fullu nafni? Ég bara velti því fyrir mér.

Það er tvennt sem ég ergði mig yfir í þessum þætti, sem annars var að mörgu leyti ágætur.

  1. Gunnar gerði lítið úr því að verið væri að reyna að koma í veg fyrir bótasvik.
  2. Og, hvers vegna kom sú sem býr í Portúgal ekki fram undir fullu nafni.

Varðandi bótasvikin vil ég segja þetta:

Það má ekki tala um þau og nú verður allt vitlaust í minn garð en verður að hafa það.

Hvað eru bótasvik?

Ég lít á það sem bótasvik þegar fólk sem býr erlendis meira en 180 daga á árinu og er komið á eftirlaun og skráir sig til heimilis á Íslandi til þess að fá meðal annars heimilisuppbót, sem er félagslegur styrkur fyrir eftirlaunaþega sem búa einir.

Já, en það eru nú ekki margir sem gera þetta! gæti einhver sagt.

Er það ekki?

Ég þekki ekki neinn skara af fólki en get þó nefnt í kringum 30 manns sem ég þekki og svíkja út úr kerfinu á þennann máta.

Það er fólk sem flutt hefur til Spánar og hreykir sér af því að svindla á íslensku tryggingakerfi.

Það er fólk sem hefur búið í Bandaríkjunum árum saman og ekki stigið fæti á Ísland en er samt skráð til heimlis á Íslandi búandi eitt og fær heimilisuppbót ofan á eftirlaunin.

Ég ætla ekkert að segja um þá örfáu íslendinga sem búa í Portúgal.

Ég veit að ég borga í skatta hér Portúgal þetta árið rúmlega 70 þúsund krónum meira en ef ég greiddi skattinn á Íslandi og kemur það til vegna hagstæðs gengis krónunnar á síðasta ári. Ég borga skatta í þráðbeinu hlutfalli við gengið. Sé gengið óhagstætt borga ég minna og sé það hagstætt borga ég meira. Þannig er það bara og ég er ekkert að kvarta, þetta er bara staðreynd.

SIGGA í Portúgal talar um 400 evrur í húsaleigu sem getur alveg staðist. Húsaleiga getur verið hærri eða lægri en það.

Hún talar um að hægt sé að kaupa í matinn fyrir fjölskylduna fyrir 10 evrur og tekur fram að kjúklingur kosti 4 evrur og eitthvað fleira sem hún tiltekur. Þetta getur alveg staðist, það er auðvitað ódýrarar að búa í landi þar sem meðal laun eru innan við 600 evrur á mánuði.

Ég veti ekki hvar SIGGA í Portúgal býr en þykir ekki ólíklegt að hún sé á Algarve svæðinu.

Það svæði er dýrara en meginlandið og dýrara en Spánn.

Einhverjum sem setti komment við þáttinn langaði að vita um læknisþjónustu og lyf. Gunnar spurði ekki um það.

Ég ræddi fyrir nokkru við íslenska vinkonu mína sem berst í bökkum og er öryrki og býr á Íslandi. Ég lagði til að hún skoðaði möguleika á að flytja til Spánar. Þar þekkir hún fólk og þó hún tali ekki málið er þó nokkur nýlenda íslendinga sem hún gæti farið til.

Ég benti henni þó á að hún mundi missa allar aukagreiðslur við það að flytja.

Vinkona mín sagði þá:

“Það þarf enginn að vita að ég hafi flutt, margir búa þarna og eru skráðir á Íslandi”

Ég fékk fyrir hjartað, þetta var vinkona mín og henni þótti það bara sjálfsagt að stunda bótasvik, á sama tíma og Gunnar Smári gerir grín að því að yfirvöld á Íslandi hafi verið að reyna að hafa upp á svikurum.

Ég nenni ekki að hlusta á fleiri þætti en er nokkuð ánægð með að farið sé að ræða þessi mál af alvöru.

Haukur er ekki á því að hækka megi eftirlaun upp í rúm 400 þúsund á mánuði. Það gæti sett þjóðfélagið á hvolf að hans áliti.

Af hverju er ekki talað um skattpeninga sem koma til baka og aukna neyslu sem hlýtur að skila sér væri afkoman bætt?

Það er yfirleitt talað um brúttó hækkun og allir fá fyrir hjartað.

Ég legg til við Gunnar Smára að hann komi á framfæri þeirri hugmynd að hætta að ljúga að almenningi og halda því fram að heimilisuppbót sé partur af ellilífeyri. Hún er það ekki. Hún er félagsleg uppbót fyrir þá sem búa einir, rétt eins og bílastyrkur og fleiri styrkir.

Heimilisuppbót hefur hækkað margfalt meira en venjulegur ellilífeyrir frá TR.

Þessi heimilisuppbót er rúmar 60 þúsund krónur á mánuði og nota ráðamenn hana óspart til þess að fegra hina skammarlega lágu upphæð sem venjulegt fólk komið á eftirlaun nýtur.

Þeir sem skrifa daglega um bág kjör hinna verst settu af miklum móði tala ekki oft um hvernig þeir sem hafa sparað í lifeyrssjóði allt sitt líf hafa það litlu betra.

Nei, það er allt í lagi og tekur ekki að tala um hvernig lífeyrisjsóðs tekjur niðurgreiða eftirlaun frá TR.

Margir þeirra sem eru á þessum aumkunaverðu strípuðu töxtum eru þeir sem hafa svikið undan skatti meira og minna alla sína ævi. Ef það eru ekki bótasvik þá veit ég ekki hvað er.

Auðvitað er meirihluti fólks heiðarlegt en það er talað um hina ríkustu og að þeir feli um 30 prósent tekna í skattaskjólum. Það er auðvitað glæpur.

Það er ekkert minni glæpur að svíkja út úr kerfinu, hvernig svo sem það er gert.

Bótasvik eru stunduð.

Þau eru nokkuð algeng hjá þó nokkrum sem hafa flúið landið.

Bótasvik má ekki nefna.

Þau eru bannorð.

Ég legg til að þeir sem talað er við í þáttum eins og Gunnar Smári var með komi ALLIR fram undir fullu nafni.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: