- mars 2018
Góðan daginn
Þá er síðasti dagur þessa mánaðar runninn upp og sólin skín hér í Penela. Smá hlé frá rigningu og roki er góð tilfinning.
Föstudagurinn langi liðinn og Jesú að rísa upp bráðum.
Ég veit ekkert hvort sagan sem skráð er í biblíunni er rétt eða ekki. Ég þarf ekki að vita það. Ég veit ekki hvort ég trúi sérstaklega heitt og innilega að frelsari heimsins komi endurfæddur og frelsi þá sem hafa verið GÓÐIR í þessu lífi. Ég bara veit það ekki.
Skírdagur var dagur svika samkvæmt sögunni.
Föstudagurinn langi dagur niðurlægingar og haturs í bland með valdagræðgi.
Sunnudagurinn, páskadagurinn sjálfur var dagur vonar.
Á meðan vonin lifir er ekki allt glatað.
Þegar vonin deyr þá deyjum við líka, held ég.
Íslenskt þjóðfélag er einkennilegt og hefur verið lengi. Pólitíkin tekur á sig ýmsar myndir í gegnum áratugina en allt gengur aftur rétt eins og í fatatískunni.
Fyrirgreiðslupólitík, valdagræðgi, loforðaflaumur, svik og gleymska eftir að sest hefur verið í þægilega stóla hins háa löggjarfaþings landsins.
Loforðin streyma af munni framboðsfólks á meðan verið er að krækja í atkvæði kjósenda. Stundum eru meira að segja send falleg bréf til heilu hópanna, rétt eins og herra fjármála og yfir kökugerðarmeistari gerði árið 2013 þar sem hann lofaði eldri borgurum gulli og grænum skógum.
Frú forsætis hélt hugljúfa ræðu úr stól hins háa alþingis þar sem þungur tónn frúarinnar lýsti því yfir að fátækt fólk gæti ekki beðið, lausnir þyrftu að koma STRAX.
Frúin settist svo í einn af hinum þægilegu stólum við hlið ræðupúlts vinnustaðarins og hún skipti um tón. Hugljúfa ræðan var fokin út í veður og vind. Nú gat sveltandi fólkið beðið til vors, að minnsta kosti.
Herra kökugerðarmeistari hefur verið sjálfum sér samkvæmur. Hann lemur í borðið og segir frekjudöllunum að halda sig á mottunni. Allt sé svo dásamlegt á landinu og þetta kveinandi lið bara bullarar, sem skilji ekki hagsældina.
Fyrirgreiðslupólitíkin er dansandi hamingjusöm og slettir úr klaufum akandi um allar Trissur á meðan fátæka fólkið veltir fyrir sér hvernig það eigi að láta smáaurana duga út mánuðinn sem er svo ógnar langur og hefur 31 dag.
Fátæka fólkið borgar svo aksturinn og fyrirgreiðsluna alla með svita sínum og tárum.
Fyrirgreiðslupólitík er gömul. Hún er til þess að hygla þeim sem tilheyra fjölskyldu og nánum vinum og svo auðvitað stundum þeim sem hugsanlega gætu snúið atkvæði sínu í hring og krossað við velgjörðarmanninn eða konuna.
Jesús steig upp samvkæmt sögunni.
Hvort sem ég trúi Jesú sögunni eða ekki þá trúi ég þvi að nú sé risinn upp á alþingi einstaklingur sem þorir að rísa upp úr spillingunni, og ég trúi því að það séu að skjóta upp kollinum einstaklingar sem þora að fylgja samvisku sinni og gefi flokkslínum svolítið langt nef.
Upprisa sem þessi er mér mikið fagnaðarefni og þegar ég horfi líka á verkalýðsforyngja sýna klærrnar þá kviknar von.
Björn Leví, Pírataþingmaður er skelfir þingmanna og ráðherra. Hann er að rugga bátnum, bát spillingar og fyrirgreiðslu ásamt valdagræðgi.
Þessi ungi maður hefur kjark og þor til þess að sækja upplýsingar sem hafa verið leyndarmál hinna ágætu sem stundað hafa fyrirgreiðslupólitík og hagsmunapot fyrir fáa. Nú skelfur þingheimur.
Nú geta allir sem vilja farið inn á vef hins háa alþingis og séð eitt og annað. Þar er hægt að sjá hverjir fá greitt hvað og ekki síður áhugavert að mínu mati er að fylgjast með því hvernig loforðin eru efnd. Efnd loforðanna er í atkvæðagreiðslunni.
Ef stjórnmálamaður eða menn hafa lofað að berjast fyrir bættum kjörum sitja hjá eða greiða atkvæði á móti málum eins og til dæmis hátekjuskatti, sýnist mér að hugur hafi fokið út í veður og vind.
Verkin tala. Atkvæði sýna svo ekki er um villst hvað þingmenn telja mikilvægt og hvað ekki.
Krossfesting þeirra sem mótmæla spillingu og valdagræðgi er ekki til mikils. Þessir uppreisnarseggir eru óþægilegir fyrir þá sem komist hafa að kjötkatlinum en lítið leggst fyrir kjörna fulltrúa að leggjast í fórnarlambs hlutverk, sem virðist gerast nokkuð algengt nú um þessar mundir.
Þeir sem kjörnir eru á hið háa alþingi eru ekki fórnarlömb eins eða neins. Þeir eru opinberar fígúrur sem sæta gagnrýni og njóta hróss, allt eftir því hvað hverjum og einum almúgamanni finnst réttmætt.
Ég er himinlifandi yfir ötulli baráttu unga Pírata þingmannsins sem lætur ekki kúga sig og heldur ótrauður áfram að grafa upp hinn raunverulega óþverra og spillingu.
Ég er ekki síður ánægð með ungu þingmennina sem fylgja drengskaparheiti og fara eftir því sem samviska þeirra segir þeim og gefa flokkslínu langt nef, jafnvel þó þeir tilheyri ríkisstjórnarflokki.
Ég er bjartsýn á að ný forysta verkalýðsins taki að sér að berjast fyrir alla fátæka á Íslandi.
Öryrkjar og eftirlaunaþegar ásamt fátækum barnafjölskyldum og öðrum sem af einhverjum ástæðum hafa orðið undir í þessu lífi, þurfa svo sannarlega á fólki eins og Ragnari, Sólveigu og Vilhjálmi að halda.
Verkalýðsforystan getur bætt kjör allra ef hún stendur saman. Ég hef meiri trú á þessum þremur en sumum þeirra sem nú sitja á hinu háa alþingi og tala fjálglega um bætt kjör hinna verst settu.
Frú forsætis og hennar ríkisstjórn gefur almúganum langt nef. Hún hefur snúist og situr nú á hvolfi í helli hinna vellauðugu og lætur sig litlu skipta fallegu orðin sem hún flutti af svo miklum þunga fyrir nokkrum mánuðum. Nei, atkvæðin eru í höfn, stóllinn góði er þægilegur og engin ástæða til þess að standa við það sem sagt var í fyrra.
Ef hægt er að gráta sig inn á hið háa Alþingi Íslendinga er líklega allt hægt. Það er líklega hægt að breyta kökusneiðunum þannig að þær seðji hungur ALLRA en fiti ekki bara suma.
Hulda Björnsdóttir