23. mars 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Undur og stórmerki hafa gerst.
Eins og allir vita þá er ég EKKI í náðinni hjá Gráa hernum og er ég lukkuleg með það.
Venjulega reyni ég að sitja á puttunum á mér þegar ég les eitthvað á Facebook og passa að vera ekki að blanda mér í hin ýmsu comment hér og þar, ekki bara hjá Hernum heldur svona yfirleitt.
Jæja, í gær sá ég undirskriftasöfnun sem var ekki alveg byggð á staðreyndum og lagabókstafnum. Ég sá ástæðu til þess að gera athugasemd og viti menn
VIÐAR EGGERTSSON, sem ég held að sé sá sem svarar og stýrir Facebook hersins, setti LIKE á athugasemd mína!
Hugsið ykkur
undur og stórmerki gerast.
Ég hló og gat ekki annað. Líklega veit maðurinn ekkert hver ég er eða hann hefur dottið á höfuðið og ruglast aðeins.
Andstyggileg athugasemd frá mér, ég veit það. Ég hef svo oft fengið hrokafull svör frá bévaðans hernum og er líklega að endurgjalda eða eitthvað svoleiðis.
Þá að alvöru máli.
Nú er kominn í stjórn FEB maður sem ég hef trú á. Hann Finnur Birgisson var kosinn á nýliðnum aðalfundi félagsins.
Finnur er réttsýnn og með hlutina á hreinu. Ég er oftast sammála honum og stundum leita ég til hans ef ég er í vafa um eitthvað.
Þegar ég sá að hann var kominn í stjórn hins ótrúlega FEB kviknaði aðeins örlítil von í brjósti mínu og það hvarflaði að mér að hann gæti kannski, bara kannski, haft einhver áhrif til betri vegar varðandi baráttu fyrir bættum kjörum mínum og annarra eldri borgara.
Nú á að setja á laggirnar nefnd eða starfshóp eða guð má vita hvað þetta er kallað og formaður FEB í skýjunum og telur sig hafa unnið kappleik.
Ég er auðvitað andstyggileg og vanþakklát og ekki sammála og tel að risa tapleikur hafi átt sér stað.
Einn ein nefnd, hahh!
Ég nenni ekki að tala um þetta en svo datt mér í hug að ef Finnur ætti sæti í nefndinni sem fulltrúi minn og eldri borgara þá væri kannski von til að hægt væri að komast upp úr gryfjunni sem formaðurinn grefur jafnt og þétt og markvisst.
Ég vil ekki láta jarða mig og mína samferðamenn.
Ég vil láta hífa okkur upp og láta okkur njóta réttlætis.
Formaður FEB hefur sýnt að hann er óhæfur til þess.
Ég ætla ekkert að tala um formann LEB, fyrrverandi formann FEB, fálkaorðu eiganda og forsvarskonu stórs verkalýðsfélags. Nei, ekki orð um frú LEB formann, ekki núna.
Líklega er ég að vona heitt og innilega að Finnur Birgisson verði í þessari andskotans nefnd sem Ellert vill ólmur koma fólki í.
Finnur er eina von okkar í FEB nú um stundir. Það er mitt álit og aðrir mega hafa hvaða skoðun sem þeir vilja.
Ég er eins og venjulega alveg æf yfir því að eftirlaun skuli ekki vera þau sömu fyrir gifta og ógifta.
Ég er líka æf yfir því að þó ég flytji úr landi til þess að drepast ekki úr hungri á síðasta kafla æfi minnar á Íslandi sé ég svift parti af ellilífeyri mínum frá TR, engin heimilisuppbót til þeirra sem búa erlendis.
Þeir sem nú ætla að fara að útskýra fyrir mér að þetta hafi verið gert svona til þess að hjálpa þeim sem búa einir, þ.e. að búa til heimilisuppbót fyrir einbúa, VINSAMLEGA LÁTIÐ MIG Í FRIÐI, ég veit þetta vel.
Ég vil ekki heyra þessi rök árið 2018. Pólitíkusar nota heimilisuppbót til þess að hækka töluna á tyllidögum.
Ég gæti alveg haldið áfram og talað um 50 prósent og eitt og annað tengt því. Ég gæti talað um hvernig ríkisbubbarnir á þingi halda áfram að auka misréttið í þjóðfélaginu og brosa breitt. Ég gæti líka talað um kökugerðarmeistara sem halda að við séum öll hálvitar og höfum misst minni, svo ekki sé talað um æruna.
Minni okkar er fínt. Við munum eftir fallegu bréfi kökugerðarmeistara frá 2013 til eldri borgara.
Við munum sviknu kosningaloforðin.
Við munum loforð brosandi ráðherra, sem þá var ekki ráðherra, þar sem frúin sagði í alverlegum tón: AÐ VIÐ GÆTUM EKKI BEÐIÐ EFTIR LEIÐRÉTTINGU.
Við munum eftir umræðu á Alþingi þar sem talað var um fátækt og ein ágæt frá Vestfjörðum mælti af mikilli þykkju og alvöru að bæta þyrfti kjör hinna fátæku, við þyrftum bara að bíða AÐEINS.
Nú eru að koma páskar. Nú fara þingmenn í páskafrí. Voðalega er þetta nú dásamlegt starf. Góð laun, góðir bónusar, góðar uppbætur og sumar meira að segja skattfrjálsar. Stór páskaegg, fallegar kökur, flottar veislur og fermingar. Æi, ég gleymi því að sumir þurfa að borga af lánum af því þau keyptu sér íbúð og við sauðsvartur almúginn viljum ekki borga af láninu fyrir þingmanninn.
Líklega er ég að tapa glórunni ef ég þá einhvern tíman hafði hana.
Hulda Björnsdóttir