- febrúar 2018
Góðan dag.
Það er von !
Í fyrradag skrifaði ég á Facebook um kröfu frá mörgum um málssókn gegn ríkinu vegna þess hvernig sparnaður í Lífeyrissjóði niðurgreiðir greiðslur frá TR.
Til þess að ná athygli fólks lét ég sem um væri að ræða einstakling, mig, sem vissi ekkert hvernig ætti að fara að því að sækja málið.
Viti menn.
Ég held að mér hafi tekist ætlunarverk mitt.
Ég fékk svar frá hernum um að hann ætlaði sko ekkert að gera í svona máli! Kom ekki á óvart.
Svo fékk ég nokkur svör þar sem útskýrt var fyrir mér á kurteisislegan hátt að þetta kostaði mikla peninga og mikinn tíma.
Allt frábærar skýringar og met ég þær.
Tvennt stendur þó upp úr.
Svar Gráa hersins, sem kom ekki á óvart, var númer eitt því mér fannst ágætt að sjá svart á hvítu yfirlýsingu frá þeim þar sem þeir segja að félagasamtök komi ekki inn í svona mál. Þetta sé mál einstaklings en ekki félagasamtaka.
Að sjálfsögðu veit ég að félagasamtök geta ekki sem slík sótt svona mál. Mér hefði hins vegar þótt eðlilegt að herinn hefði lýst sig tilbúinn til þess að styðja við hvern þann sem færi í mál, einhvern sem hætti að blaðra endalaust um að í mál skuli fara, og geri svo ekkert.
Það fer óendanlega í taugarnar á mér slíkur málflutningur sem nákvæmlega ekkert stendur á bak við, þá er ég að tala um hrópin “fara í mál, fara í mál”
Nei, herinn sem er kominn í stað nefndar innan FEB lætur sér nægja að svara með hroka eins og venjulega. Ekkert nýtt þar og ekkert til þess að vekja von í brjósti mínu.
Í upphafi skrifaði ég “Það er von”
Hvað á ég við?
Jú, ég fékk svar frá ágætum Facebook vini mínum. Vini sem ég veit að er mikill baráttumaður og að mínu mati réttsýnn á málefni eldri borgara og ekki bara þess hóps heldur einnig barnafjölskyldna og þeirra sem eiga undir högg að sækja.
Ég hef oft hugsað með mér:
HVERS VEGNA GETUM VIÐ EKKI HAFT SVONA FÓLK Í FORYSTU FYRIR BARÁTTU ELDRI BORGARA? ÞAÐ ER TIL FÓLK MEÐ HUGSJÓNIR SEM ÞORIR AÐ FARA Á MÓTI STRAUMNUM. VIÐ ÞURFUM SVONA FÓLK! Þetta hef ég oft hugsað.
Þá er ég komin að kjaran málsins þar sem ég segi í upphafi “Það er von”
Finnur Birgisson sendi mér þetta comment við færslu minni á Facebook og ég birti það hér því mér finnst full ástæða til þess að leyfa öllum sem lesa Facebook síðuna okkar “Á milli lífs og dauða” að sjá hvað hann skrifar. Mér finnst líka full ástæða til þess að þeir sem ekki eru á Facebook sjái hvað það er sem vekur von hjá mér.
Hér kemur svo commentið
“Sæl Hulda.
Málsókn þarf örugglega að gerast þannig að það sé einstaklingur sem fari í mál út af viðskiptum sínum við TR/ríkið. Hann ætti hins vegar að sjálfsögðu að njóta fulls stuðnings samtaka aldraðra, þannig að þau stæðu undir öllum kostnaði.
Ég hef kannað möguleika á slíkri málsókn með viðræðum við færustu lögfræðinga og komið upplýsingum um þær viðræður til stjórnar FEB. Nú lítur út fyrir að ég fari inn í stjórn FEB á næsta aðalfundi – er a.m.k. í framboði – og þá kemst ég væntanlega í betri aðstöðu til að fylgja málinu eftir.
Tek fram að ég er ekki með áform um að vera sjálfur umræddur einstaklingur, mitt dæmi hentar ekki nógu vel til þess. En það verður örugglega ekki skortur á kandidötum ef ákveðið verður að láta til skarar skríða.
Kveðja,
FB “ hér endar comment Finns.
ÞAÐ ER VON!
Ég segi það enn og aftur. Að fá mann eins og Finn inn í stjórn FEB er dásamlegt og þegar ég last þetta comment frá honum fylltist ég slíkum fögnuði að mig skorti orð.
Það er ekki oft sem ég verð orðlaus, en þegar það gerist er eitthvað mjög merkilegt sem hefur gerst.
Mér finnst það frábært og ég er óendanlega þakklát fyrir að Finnur skuli fara inn í baráttuna. Ég treysti honum fullkomlega til þess að gæta hagsmuna ALLRA.
Ég hef gagnrýnt herinn og FEB og LEB fyrir að vera talsmenn sumra. Það hefur auðvitað farið fyrir brjóstið á forsvarsmönnum og gerir ekkert til.
Þó ég gagnrýni grimmt það sem mér þykir ástæða til þá fagna ég af jafn miklum ákafa því sem ég tel vera til góðs.
Finnur Birgissson er okkar von. Ég vona svo sannarlega að hann verði kosinn. Við þurfum fólk eins og hann , fólk sem þekkir málin, og er tilbúið til þess að berjast fyrir bættum kjörum allra. Fólk sem er ekki með puttann á eigin hagsmunum heldur berst fyrir jafnrétti en ekki auknum mismun.
ÞAÐ ER VON
Við getum horft bjartsýnni fram á veginn í dag finnst mér.
Hulda Björnsdóttir