21.desember 2017
Ég hvet alla til þess að fara inn á síðu FEB í Reykjavík og nágrenni og lesa Jólahugvekju formanns félagsins. Hann predikar þar eins og ágætis prestur en jafnvel prestur kæmi að baráttumálum í svona hugvekju, ekki síst þar sem um 11 þúsund félagsmenn er að ræða.
Þunnur þrettándi þessi skrif hans finnst mér.
Ályktur LEB frá því 19 des.2017 er líka vel þess virði að lesa. Þar kemur skýrt fram forgangsröðun og áhersla sambandsins með frú fyrrverandi formann FEB í fararbroddi.
Megin áherslan, númer 1 er að hætta að skerða vegna launatekna eldri borgara. (Kemur ekki á óvart)
Hækkun almannatrygginga er númer 2
og síðan kemur númer 3 í áhersluröðinni, skerðingar vegna lífeyrissjóða og eru þær skerðingar samkvæmt ályktuninni óhóflegar. Óhóflegar, takið eftir því!
Númer 4 er svo fjármagnstekjuskattur sem þau telja vera tví og jafnvel 3 sköttun.
Þá ætla ég að fetta fingur út í RÆÐU sem formaður FEB í Reykjavík og nágrennis flutti á fundi með nefndarmönnum fjárlaganefndar Alþingis vegna málefna eldri borgara.
Ég bendi fólki á að lesa ræðuna í heild.
Svoldið skondið að mæta á svona fund með ræðu sem er smá í anda predikunar prests.
Það sem ég geri alvarlega athugasemd við, og sem sýnir ótrúlega skoðun formannsins á eftirlaunum:
Hann segir: “Þá er ég að tala um það fólk sem þarf að leita til Almannatrygginga, til að eiga í sig og á”
Ha, leita til……. hvað er að manninum?
Hvenær urðu eftirlaun frá TR ölmusa?
Hvenær urðum við sem fáum eftirlaun frá TR ölmusuþegar?
Ég veit ekki betur en við höfum borgað skatta og skyldur til þjóðfélgsins og eigum RÉTT á eftirlaunum frá TR.
Hvaða heimi lifir maðurinn eiginlega í?
Hann segir síðar í skrifuðu ræðunni sinni sem hann flutti fyrir nefndina:
……….Ég skora á ykkur öll …………að taka höndum saman og þvo þann smánarblett af okkur öllum, sem njótum velmegunar, að hætta þessum sparðartíningi og hafa manndóm og mannúð til þess að axla þá ábyrgð ráðandi fólks, að RÉTTA HJÁLPARHÖND þeirra samferðarmanna, eldri borgara, sem búa við fátækt”
Fjárlögin eiga að vera fyrsta skref mannúðar og meðhjálpar, segir formaður FEB
Þegar ég las þetta varð ég öskureið.
Hvað er að manninum?
Hvaðan kemur hann?
Eftirlaun frá TR eru ekki hjálparhönd. þau eru réttur okkar sem höfum greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins.
Þau eru ekki ölmusa.
Þau eru ekki gjöf.
Þetta er áunninn réttur íslendinga.
Ellert B hefur ábyggilega ágætar lífeyristekjur, enda segir hann “við sem búum við velmegun” og frú formaður LEB er ábyggilega ekki á flæðiskeri stödd. Þrátt fyrir það ættu þau að vera það vel inni í málum þeirra sem þau þykjast vera að berjast fyrir að niðurlægja ekki þennan hóp með svona þvaðri.
Þegar fólk þarf að leita til Mæðrastyrks nefndar og slíkra stofnana er verið að rétta fólki hjálparhönd. Það eru þung sport fyrir þann sem þangað þarf að leita.
Þegar verið er að greiða út ellilífeyri frá TR er um áunnin réttindi að ræða sem hafa ekkert, nákvæmlega ekkert með ölmusu eða hjálparhönd að gera. EKKERT.
Hulda Björnsdóttir