Afnám skerðinga vegna ATVINNUTEKNA – Flokkur fólksins

  1. desember 2017

Góðan daginn kæru lesendur

Það er spurning hvort ég eigi að vera sorgmædd eða reið í dag.

Í gær talaði ég við góðan vin minn á Íslandi og var það jólaspjallið okkar. Eitt og annað bar á góma eins og gengur og gerist þegar aldagamlir vinir hittast, jafnvel þó aðeins sé í síma og það á milli landa. Við ræddum meðal annars stjórnmálin á Íslandi og hina ótrúlegu stöðu margra ellilífeyrisþega og öryrkja. Ég snerist til varnar fyrir nýja þingmenn Flokks fólksins. Vinur minn sagði þau hafa gleymt loforðunum. Ég hélt því fram að þau héldu áfram að vera öryrkjar, þau sem það voru, og nú væri að minnsta kosti komin rödd venjulegs fólks inn á alþingi. Vinur minn er elskulegur maður og hann leyfði mér eins og svo oft áður að lifa í góðri trú.

Þegar samtali okkar lauk skoðaði ég Facebook. Við mér blasti frumvarp frú Ingu og Flokksins sem ég hafði haldið að væri fyrir alla. Ó nei. Ég varð að éta ofan í mig það sem ég hafði sagt við vin minn rétt áður.

Flokkur fólksins var að leggja fram frumvarp um afnám skerðinga á atvinnutekjur. Á atvinnutekjur, ekki lífeyristekjur, bara atvinnutekjur af því það var svo ægilega heilsusamlegt fyrir eldri borgara að fara út á vinnumarkaðinn þegar þau eru komin yfir 67 ára aldurinn. Svo hafa þau líka, samkvæmt frumvarpinu, hlustað á samtök eldri borgara (FEB líklega og Gráa hersins) og marga aðra sem eru sammála um að atvinna fram í rauðann dauðann sé það sem blívur. Nákvæmlega.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna flokkurinn væri að gera þetta. Jú, líklega gæti hugsanlega verið að þau hefðu, þegar launaumslgið skilaði sér, fallið í gryfju gleymskunnar sem svo oft gerist hjá þeim sem taka sæti á hinu háa alþingi. Nú voru launatekjur þeirra það sem skipti máli og þær máttu ekki skerða örorkulífeyri þeirra. Þetta er ein hugsanleg skýring þó auðvitað slíkt verði aldrei viðurkennt.

Önnur skýring sem mér dettur í hug er að þau þurfi að sýna fram á að þau hafi gert eitthvað sem sést eftir að þau settust í stóla alþingis. Kannski hafa þau hugsað að það væri betra að geta bent á frumvarp sem þau hafi lagt fram og því hafi verið hafnað af ríkisstjórn og stjórnaflokkum, því auðvitað verður þetta frumvarp ekki samþykkt. Kannski eru þau að undirbúa næstu kosningar og þá er gott að geta bent á feita bita sem reyndust ekki ætir.

Það sem mér finnst alveg með ólíkindum hjá þessum þingmönnum er hugmynda fátækt þeirra. Datt þeim aldrei í hug að flytja frumvarp sem tæki á skerðingum bæði atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna og hafa á skerðingunum þak?

Er þetta fólk svo gjörsneytt þekkingu á tölvuvinnslum og reikniaðferðum að það var ekki möguleiki að setja þak á skerðingarna?

TR væri ekki í vandræðum með að búa til svona forrit. Ekki málið. Þau hafa alls konar fræðinga innanborðs.

Ég hef verið jákvæð í garð Flokks fólksins og verið svo einföld og barnaleg að halda að þau mundu verða rödd lítilmagnans og kannski vekja aðra þingmenn upp af þyrnirósar dvalanum. Ég hef ekki kosningarétt á Íslandi og kaus því engann flokk. Ekki einn einasta. Alveg saklaus af því og mikið er ég fegin að þjóðskrárstjóri henti mér út af sakramentinu um árið.

Ég hélt þegar þau, Flokkur fólksins, fóru í mál við ríkið vegna breytinga sem voru gerðar á greiðslum til lífeyrisþega þó lögin segðu annað, að þetta væri fólk sem fylgdi samvisku sinni eftir. Ekkert hef ég heyrt hvar sú lögsókn stendur nú og hefur það mál farið frekar hljótt, finnst mér.

Góður vinur minn á Facebook sagði mér að hann hefði enga trú á Flokki fólksins þegar ég var að dásama þessa lögsókn. Ég maldaði í móinn en hefði betur hlustað. Þessi vinur minn er glöggur og það er hægt að taka mark á honum. Ég geri það í framtíðinni eftir að hafa séð hið ótrúlega frumvarp sem Flokkur fólksins leggur nú fram.

Hvað varð um kosninga loforðin?

Treystir flokkurinn á að kjósendur séu svo illa að sér að það sé hægt að telja þeim trú um að fyrst þurfi að afnema skerðingar vegna atvinnutekna og svo komi eitthvað meira á eftir?

Sumir falla auðvitað í þessa gildru og taka allt gott og gilt sem frá Flokknum kemur en ég er handviss um að þó nokkur hópur kjósenda sér í gegnum plottið. Þetta er ekkert annað en sýndarmennska til þess að geta sagst hafa gert eitthvað. Líklegt er að fleiri slík frumvörp verði lögð fram, rétt svona til þess að hafa eitthvað að gera.

Grátlegt en virðist vera staðreynd. Ég er hrygg og vonsvikin. Ég skil VG alveg, þau eru samkvæm sjálfum sér og líkar vel að liggja í sæng með íhaldinu og spillingar apparatinu og finnst ekki slæmt að brosa í gegnum alla spillinguna og reka upp stór augu.

Þessi ríkisstjórn er ekki jákvæð gagnvart venjulegu fólki í landinu en ég trúði því þar til í gær að það væri Flokkur fólksins.

Líklega tapa bæði VG og flokkur fólksins miklu fylgi í næstu kosningum. Það er ekki hægt endalaust að ljúga að kjósendum, eða er það?

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: