18.desember 2017
Ætti að afnema allar skerðingar TR af ellilífeyri.
Ég skrifaði í gær og fyrradag um hvernig skerðingar koma niður á fólki sem hefur 146.000 krónur frá Lífeyrissjóði.
Sum samtök, sem ég nefni auðvitað ekki á nafn, merktu póst minn sem SPAM og var gefin ástæða að ég færi með rangt mál. Allt er þetta svo sem ágætt og má hver og einn hafa sína skoðun í friði fyrir mér. Hins vegar er ekki gott þegar félagsskapur sem hefur innan borðs a.m.k. 11 þúsund manns, segir tölur sem teknar eru beint af vef TR rangar. Þessi samtök eru talsmenn 40 þúsund manna, ellilífeyrisþega, og þessi samtök eru það sem ríkisstjórnir hlusta á.
Þá ætla ég að snúa mér að efni dagsins sem er spurning sem leitar á mig hvort afnema ætti allar skerðingar?
Ég er á móti því að allar skerðingar dyttu niður.
Ég sé ekki rökin fyrir því að þeir sem hafa tekjur yfir t.d. hálfa milljón á mánuði ættu að fá óskertan ellilífeyri frá TR. Ég nota þetta dæmi, þ.e. hálfa milljón bara til þess að hafa einhverja tölu. Ég hef ekki mikið verðskyn varðandi nauðsynjar á Íslandi þar sem ég hef ekki búið á landinu í mjög langan tíma. Vel getur verið að viðmiðið ætti að vera hærra.
Tveir flokkar lögðu áherslu á að allar skerðingar færu burt fyrir þessar síðustu kosningar.
Ég er ekki á móti þessum flokkum, hef ekkert annað en gott um þau að segja og þau hafa opnað umræðuna ekki bara úti í þjóðfélaginu heldur líka á meðal þingmanna.
Á þessu ári verða útgjöld TR sennilega vegna aldraðra 67 milljarðar. Verði allar skerðingar afnumdar færi kostnaðurinn upp í 117 milljarða samkvæmt röstuðningi þeirra sem vit hafa á. Séu áhöld um þessar tölur þá er ekkert annað en að leiðrétta mig og tek ég því með þökkum.
Eiga þeir sem hafa í eftirlaun sömu laun og þeir fengu í fullu starfi að njóta fullra eftirlauna frá TR?
Er það sanngjarnt?
Mér finnst það ekki, og hefur aldrei fundist. Það er frábært að sumar stéttir þjóðfélagsins hafi það gott þegar á eftirlauna aldurinn kemur. Það sem er ekki í lagi er að stór hópur þeirra sem hafa byggt upp þjóðfélagið lepji dauðann úr skel meðal annars vegna þess hvernig reglur valda því að sparnaður í Lífeyrissjóði jést upp í sama og ekki neitt.
Eins og sjá má á tölum í skrifum mínum í gær og fyrradag þá er ekki mikill fengur í því fyrir fólk að spara í lífeyrissjóð alla sína starfsævi og fá svo brotabrot af sparnaðinum vegna reglna um skerðingar lífeyris frá TR.
Afnám skerðinga þurfa að virka bæði vegna atvinnutekna og tekna úr lífeyrissjóði, en það þarf að vera þak á skerðingunum.
Líkur eru á að ný ríkisstjórn hafi hlustað á röksemdir þeirra sem eru í fararbroddi fyrir samtök eldri borgara og að atvinnutekjur valdi ekki skerðingum. Ég hef ekki séð að greiðslur úr Lífeyrissjóðum séu undir sama hatti.
Ég get ekki séð að það ætti að vera ýkja flókið í framkvæmd að hafa þak á afnámi skerðinga. Tryggingastofnun er tölvuvædd og ég geri ráð fyrir að þar starfi kerfisfræðingar sem væru ekki í vandræðum með að breyta forsendum útreikninga.
Nú þegar verið er að lauma í gegn hækkun lífeyris aldurs í 70 ár þá spyr ég:
Hvað hefur breyst svo mikið á Íslandi að fólk yfir 65 ára aldur eigi auðvelt með að fá vinnu á hinum almenna vinnumarkaði?
Er það ekki staðreynd að fyrir almenna borgara er gríðarlega erfitt að fá vinnu jafnvel þó fólk sé ekki nema rétt komið yfir miðjan aldur?
Hvað á að gera við þetta fólk sem ekki fær vinnu? Á það að fara á atvinnuleysisbætur? Ekki getur það lifað af engu.
Afnemum skerðingar en höfum á því þak. Kerfisfræðingar TR redda útreikningum og þetta verður ekkert mál í framkvæmd.
Gerum greinarmun á því hvort einstaklingur er með 146 þúsund krónur í tekjur frá Lífeyrissjóði eða yfir hálfa milljón eða meira.
Sá sem hefur yfir hálfa milljón ætti að mínu mati að sæta skerðingum en hinir ekki.
Í lokin ætla ég að benda á að þegar einstaklingur flytur úr landi og býr erlendis skerðast eftirlaun hans vegna búsetunnar. Hann fær ekki heimilisuppbót. Þeir sem búa einir á Íslandi fá heimilisuppbót en um leið og þeir fá búseturétt erlendis fellur hún niður. Það virðist sem margir geri sér ekki grein fyrir þessu.
Heimilisuppbót er ekki fyrir alla. Hún er tala sem stjórnmálamenn nota þegar þeir á tyllidögum dásama upphæð eftirlauna frá TR.
Grunnlaun eftirlauna frá TR eru krónur 228.734 á mánuði, hvorki meira né minna. Heimilisuppbót er krónur 52.316 á mánuði.
Þessar tvær tölur eru auðvitað fyrir þá sem ekki hafa neinar aðrar tekjur, eingöngu ellilaun frá TR. Tölurnar eru einnig áður en skattur hefur verið dreginn af.
Hulda Björnsdóttir