Njóttu lífsins – eru ekki greiddir skattar í Portugal?

Njóttu lífsins

Þessi fyrirsögn er á greinum um hve dásamleg skattaparadís Portúgal sé og hvernig nýjar skattareglur og tvísköttunarsamningar hafa gjörbreytt umhverfi í landinu fyrir útlendinga sem komnir eru á eftirlaunaaldurinn.

Þessi ágæta fullyrðing er á síðu sem heitir nuna.is   https://www.facebook.com/valhallaparadis/?ref=br_rs

og sýnist mér vera rekin af hinum þjóðkunna fyrrverandi forsetaframbjóðanda Ástþóri Magnússyni.

Mikið væri þetta allt gott ef satt væri.

Á síðunni er fullyrt að tvöfalda lífeyri sé ekkert mál og íbúð keypt fyrir ekki neitt.

Ráðstöfunartekjur eiga að tvöfaldast og tvær milljónir aukalega á ári fyrir hjón sem nýta sér tilboð það sem herrann er að bjóða upp á.

Sýndar eru í töflu “staðreyndir” málsins og er þetta plagg líklega frá janúar 2017, alla vega er útreikningur TR frá þeim tíma.

Ég ætla ekki að tala um tölulegar villur í þessu sambandi en bendi þó á að gengi krónunnar hefur eitthvað smá með verðlagið að gera þar sem launin eru í íslenskum krónum.

Ég hef búið í Portúgal í rétt 7 ár. Í janúar á næsta ári, 2018, eru 7 ár síðan ég kom hingað.

Ég er eftirlaunaþegi og fæ eftirlaun mín frá Íslandi og tel mig þekkja nokkuð vel hvernig skattlagningu er háttað hér í landi.

Í auglýsingu Ástþórs er gert ráð fyrir að komið verði á fót Íslendinga nýlendu í Algarve.

Hann gerir einnig ráð fyrir því að fólk sé í Portúgal rúma 6 mánuði á ári og flytji lögheimili sitt til Portúgal.

Einnig gerir hann ráð fyrir að sumir eigi fasteign á Íslandi sem þeir þurfi ekki að selja til þess að kaupa aðra í Portúgal. Hann gerir ráð fyrir að fólk muni leigja í gegnum leigufyrirtæki íslenska íbúð sína og hafa tekjur fyrir það. Svo gerir hann ráð fyrir að fólk gæti verið á Íslandi, líklega þá í eigin íbúð þar, í nokkra mánuði ár hvert. Síðan á að vera hægt að skreppa til Íslands þegar fólk vill. Hinn ofboðslegi gróði af uppátækinu gerir það mögulegt.

Hann talar einnig um Golden Visa sem er í gildi hér í landinu en það er ekki fyrir venjulega eftirlaunaþega heldur hina ofur ríku.

Þegar ég sé svona auglýsingu og gylliboð fyllist ég hryllingi. Maðurinn segist þekkja vel til aðstæðna hér og birtir meira að segja af youtube vitnisburð þeirra sem hafa látið drauminn rætast. Ég sá nú engan Íslending í þeim viðtölum.

Þegar ég flutti hingað var hávær umræða hjá stjórnvöldum, þáverandi stjórnvöldum, um að útlendir eftirlaunþegar ættu ekki að greiða skatta í landinu. Þetta gekk svo langt að þeir komu fram í sjónvarpi hvað eftir annað og lofuðu gjörninginn, sem reyndar aldrei varð að veruleika. Sumir lögfræðingar héldu þessu fram blákalt og þegar ég var að stíga fyrstu skref mín í skattaumhverfi landsins varaði Finance apparatið hér í bænum mig við því að trúa lögfræðingnum. Þeir sögðu mér að þetta væri ekki rétt. Það væri eingöngu verið að tala um þetta og ekkert hefði verið samþykkt.

Málið komst aldrei lengra en að tala um það.

Á milli landanna gildir tvísköttunarsamningur og samkvæmt honum verða allir að borga skatta einhvers staðar. Það kemst enginn hjá því.

Ég var ekki ríkisstarfsmaður og þar af leiðandi borga ég mína skatta í Portúgal. Hefði ég verið ríkisstarfsmaður og fengi eftirlaun sem slík væri skattskylda mín á Íslandi.

Hér í Portúgal eru mismunandi skattþrep eftir tekjum.

Til frádráttar sköttum hér er hægt að fá frádregin virðisaukaskatt af sumu og er það ráðstöfun frá 2015 og gerð til þess að reyna að koma í veg fyrir undanskot frá skatti. Einnig er til frádráttar kostanður vegna veikinda.

Þar sem ég fæ eftirlaun mín frá Íslandi færast þau sjálfkrafa inn á íslenska skattskýrslu ásamt inneign á bankabók eða reikningum í banka um áramót ásamt eignum á Íslandi. Allt er þetta sjálfvirkt og þarf ég ekki annað en að samþykkja gjörninginn.

Um vorið er mér svo gert að skila inn lífsvottorði, bæði til TR og Lífeyrissjóðs. Það er gengið úr skugga um að ekki sé verið að greiða bætur til einhvers sem býr og hefur lögheimli í himnaríki.

Skattskýrsla mín hér í Portúgal byggir á uppgefnum tekjum á skattskýrslu frá Íslandi. Þær tekjur eru greiðslur frá TR og Lífeyrissjóði. Tekjurnar eru reiknaðar yfir í Evrur og færðar á portúgalska skattskýrslu, sem skilað er í maí. Þar sem kerfið hérna er flókið hef ég endurskoðanda sem gerir mína skýrslu. Ég passa upp á öll fylgiskjöl og reikninga og endurskoðandinn reiknar út og gengur frá skýrslunni. Þetta er allt tölvuvætt hér.

Portúgalskri skattskýrslu, eða afriti af henni, þarf ég síðan að skila til TR.

Í desember á hverju ári þarf ég að senda umsókn til RSK og biðja um frískattkort, til þess að ég sé ekki látin borga skatt á Íslandi af eftirlaunum og öðrum tekjum á Íslandi og vera þar með tvísköttuð. Tvísköttunarsamningar á milli ríkja eru til þess að koma í veg fyrir slíkt. Ég hef engar tekjur hér í Portúgal svo það er einfalt. Hefði ég hins vegar tekjur hér mundu þær lækka eftirlaun mín frá TR á Íslandi.

Þeir pappírar sem ég skila til RSK eru staðfesting skattyfirvalda í búfesturíki um skattskyldu og heimilisfesti, ásamt erlendu skattframtali vegna fyrra árs og væri um tekjur að ræða þá tekjuvottorð vegna fyrra árs.

RSK gefur síðan út frískattkort sem þau senda til TR og Lífeyrissjóðs og gildir það í eitt ár.

Eins og sjá má af framangreindu er ekki skattfrelsi hér í Portúgal. Þeir sem því halda fram vaða í villu.

Ég hef spurst fyrir um það hjá yfirvöldum hér í landi hvers vegna sumir útlendingar borga skatta hér og aðrir ekki. Það er hægt að sjá á síðu IRS tvísköttunarsamninga sem gerðir hafa verið ásamt fleiri upplýsingum eins og til dæmis flokkun skattprósentu. Svörin sem ég hef fengið, bæði hér í bænum mínum og í höfuðstöðvum í Lisboa, eru að Ísland sé í raun eina landið sem fylgi því eftir að fólk greiði skatta í öðru hvoru landinu og þá samkvæmt tvísköttunarsamningum.

Það er fullt af bretum, þjóðverjum, svíum, dönum og hollendingum sem ekki greiða skatta hér en búa hér allan ársins hring. Þetta fólk nýtir sér heilbrigðisþjónustu og vegakerfi ásamt allri opinberri þjónustu, en sér sóma sinn í því að svíkjast undan skattskyldu.

Mér er vel kunnugt um að þó nokkur fjöldi Íslendinga sem búa á Spáni greiða ekki skatta þar. Þeir greiða skatta á Íslandi en ættu að greiða skattana á Spáni. Þeir sem ekki búa á Spáni meira en 6 mánuði á ári geta verið heimilisfastir á Íslandi og notið þeirra kjara sem þar bjóðast. Þeir sem búa meira en 180 daga á ári á Spáni en eru skráðir á Íslandi og njóta bóta sem þeir væru búsettir í Íslandi eru auðvitað skattsvikarar og ekkert annað. Fólk hælir sér af því að þetta sé hægt og er bara nokkuð hamingjusamt með gjörninginn.

Ég er ekki frá því að Ástþór sé ekki alveg inni í dæminu um hvernig skattkerfi virkar og hann gæti kannski sest niður með einhverjum frá RSK og fengið þau til þess að útskýra málið.

Það er alveg ljóst að enginn kemst hjá því að borga skatta einhvers staðar sé hann eftirlaunaþegi frá Íslandi. Annað eru hrein skattsvik sem enginn ætti að vera hamingjusamur með, eða stunda.

Ég vara fólk við því að taka fullyrðingar nuna.is alvarlega. Þær eru logandi af rangfærslum og blekkingum.

Það er alltaf til fólk sem leitar allra leiða til þess að svindla á þjóðfélaginu, hvar svo sem í heiminum er, en það fólk er sem betur fer ekki í meirihluta.

Ég tek undir það sem kemur fram í hinni makalausu auglýsingu Ástþórs að það er ódýrara að lifa í Portúgal en á Íslandi. Gengi krónunnar spilar inn í hve miklu ódýrara það er.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: