9. maí 2020
Að mörgu leyti er ég í sömu sporum og öryrkjar og fátækir eldri borgarar þessa dagana.
Ég þarf að velta fyrir mér hverri krónu oft og mörgum sinnum til þess að fá mánuðinn til þess að ganga upp. Hef ég efni á því að kaupa meðöl? Hvað mikið á ég að nota í matinn? Gæti ég sleppt að kaupa dísel á bílinn?
Ég gæti talið upp fleira sem ég þarf að skoða hvort sé alveg nauðsynlegt.
Af hverju er ég í þessari aðstöðu núna? Ég er ekki í þessari aðstöðu venjulega en maí er allaf mánuður stórra útgjalda og lækkun tekna um tugi þúsunda frá síðasta ári er ekki tekin út átakalaust. Allar áætlanir og skipulag eru foknar út í veður og vind.
Jú gengið er farið til andskotans og ég þarf að borga skatta síðasta árs á gengi núvirðis!
Vegna 2017, jan og feb, er ég með hærri skatta núna en ella.
Vegna þessarar leiðréttingar hefur verið klipið af eftirlaunum mínum frá TR og fleira sem ég nenni ekki að telja upp. Það var bjarnargreiði Ingu að fara í þetta mál og kemur best út fyrir hina ríku sem aldrei höfðu fengið samþykktan ellilífeyri frá TR en höfðu sótt um á þessum tíma.
Óskiljanlegt en satt.
Við hin, hinn sótsvarti, sitjum uppi með skerðingar og afturvirka innheimtu!!!!!!
Já afturvirka innheimtu en ekki afturvirka hækkun.
Svo dásamlegt að ég get ekki einu sinni grátið yfir ruglinu, hvað þá hlegið. Ég er bara reið og í uppreinsarhug.
Ég er í góðum málum þar sem ég flúði land löngu áður en ég varð 65 ára. Ég vissi alltaf að ég vildi ekki verða gömul á Íslandi. Ég hafði fylgst með frá unga aldri hvernig búið var að almúganum þegar hann varð eldri borgari og ég var löngu búin að sjá að ég myndi lepja dauðann úr skel þegar ég yrði gömul á Íslandi.
Núna erum við að ganga inn í kreppu og Bjarni búinn að lýsa því yfir hátíðlega að velferðarkerfið sé baggi sem þurfi helst að losna við!
Hverjir verða látnir taka á sig byrgðarnar?
Ég þori næstum því að éta hatt minn upp á að það verða öryrkjar, eldri borgarar og fátækt fólk, það verður ekki elítan, ó nei.
Æi hættu nú þessu eilífa tuði, segir einhver.
Ég held áfram að tuða á meðan ég hef eitthvað vit, því getið þið treyst. Þið getið því miður líka treyst því að gerist ekki kraftaverk þá munum við, hinn sauðsvarti almúgi, vera burðardýrin enn einu sinni.
Núna eru 2 mál rekin fyrir Héraðsdómi vegna þess hvernig ríkið brýtur ár eftir ár á eldri borgurum og öryrkjum.
Öryrkjar reka mál vegna brota á jafnræðisreglunni þar sem eldri borgarar hafa 25 þúsund króna almennt frítekjumark en öryrkjar eru skertir krónu á móti krónu.
Grái herinn, fyrir hönd eldri borgara rekur mál vegna þess hvernig farið er með sparnað okkar í lífeyrissjóði og við látin niðurgreiða það sem Tryggingastofnun ríkisins lætur okkur í té.
Bæði þessi mál munu án efa taka langan tíma og reiknar til dæmis Grái herinn með a.m.k. 3 árum.
Ég er ánægð með að verið sé að berjast fyrir réttlætinu á síðustu mögulegu vígstöðvum, réttarkerfinu.
Ég leyfi mér að vera vongóð um að fá að sjá niðurstöðu í báðum þessum málum.
Við skulum samt ekki gleyma því að núna, nákvæmlega núna þurfum við á öllum baráttujöxlum að halda og við þurfum að standa saman og þá getum við lyft grettistaki.
Argandi ljónynjur eru um allt og ég er ein af þeim og stolt fram í fingurgóma.
Ég rek upp öskur yfir óréttlætinu og er ekki á leið inn í kassa þar sem ég þegi og leyfi elítunni að troða mig niður á skítugum skónum.
Nú er í umræðunni að veita Bjarna Ben og Katrínu Jakobsdóttur FÁLKAORÐUNA!
FÁLKAORÐU FYRIR HVAÐ?
FÁLKAORÐU FYRIR AÐ BÚA VER AÐ HINUM FÁTÆKU Í ÞJÓÐFÉLAGINU OG SKARA AÐ KÖKU ELÍTUNNAR?
FÁLKAORÐUNA FYRIR AÐ SEGJA OKKUR AÐ ÉTA ÞAÐ SEM ÚTI FRÝS?
Ég garga og garga!
Ég veit að það er hefð fyrir þessari veitingu. Ég veit það en samt garga ég. Af hverju í veröldinni er fólki veitt orða fyrir að sinna vinnunni sinni frekar illa? Ég bara spyr!
Eins og þið sjáið þá er ég reið, öskureið, eina ferðina enn.
Við skulum nota kraft reiðinnar í uppbyggingu og samstöðu. Við erum öflug og við erum mörg. Öryrki getur hver og einn orðið án nokkurs fyrirvara. Eldri borgari verða þeir sem lifa fram yfir 65 ára aldurinn. Þess vegna eru mál þessara hópa mál allra aldursflokka.
Fátækt á hinu ríka Íslandi árið 2020 er slík þjóðarskömm að helst vildi ég ganga með hauspoka þegar upp kemst hér í litla landinu mínu þar sem ég bý, hvaðan ég er upprunnin.
Ég geng ekki með hauspoka. Ég berst fyrir bættum kjörum fátækra á Íslandi þó ég búi ekki á landinu.
Hvað gerir þú? Komdu í hópinn !
Hulda Björnsdóttir