10.febrúar 2020
Jæja, þá er ég komin í samband við umheiminn aftur og get farið að láta ljós mitt skína.
Ég var að lesa skrif eins sem býr á Tenerife. Hann er að kvarta yfir því að hafa fengið beiðni um lífsvottorð frá Lífeyrissjóði VR.
Mér fannst þetta hálf kjánalegt en þegar ég les svo commentin þá held ég að það sé allt í lagi að segja frá því hér hvers vegna maðurinn fékk þessa beiðni og eitthvað fleira í leiðinni sem mér þykir ástæða til þess að hnykkja á eina ferðina enn.
Ég tékkaði á því hvar maðurinn væri skráður hjá Þjóðskrá og þar er hann erlendis skráður.
Annað sem mér þótti áhugavert er upphæð sú sem maðurinn fær. 5 þúsund kall segir hann.
Getur það verið að eftir áratuga greiðslu í lífeyrissjóð VR fái maðurinn aðeins 5000 kall á mánuði. Hann er 68 ára á þessu ári. Eru þetta örorkubætur eða ellilífeyrir? Það kemur ekki fram og ég veit auðvitað ekkert um það.
Af lestri skrifa mannsins skilst mér að hann haldi að hann þurfi að fara til Íslands og sanna í eigin persónu að hann sé ekki dauður. Mér skilst líka á skrifunum að líklega tilheyri hann ekki neinni sókn á Tenerife.
Allt þetta finnst mér reyndar mjög einkennilegt svo ekki sé dýpra í árina tekið.
Pistill mannsins er ágætur og skemmtiefni fyrir þá sem hafa áhuga á skrifunum sem slíkum.
Hins vegar er þetta alvöru mál og nú skal ég útskýra hvers vegna og hvar er hægt að fá svona vottorð.
Þegar eftirlaunaþegi eða öryrki flytur frá Íslandi er ekki lengur hægt að samkeyra upplýsingar á milli Tryggingastofnunar og Lífeyrissjóða við upplýsingar í þjóðskrá.
Búi þessir hópar hins vegar á Íslandi er þessi samkeyrsla auðveld og notuð.
Allir eru tékkaðir einu sinni á ári með þessum keyrslum. ALLIR sem annað hvort frá greiðslur frá Lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun ríkisins.
Mér finnst þetta nokkuð eðlilegt þegar ég hef sett mig inn í málið en auðvitað þótti mér þetta smá hlægilegt í byrjun og stelpurnar á kirkjuskrifstofunni hérna í Penela hlæja alltaf pínu þegar ég kem með pappírinn. Þetta þarf að gera á hverju ári, það er bara þannig og ekkert annað en að hafa gaman af. Ekki eru allir sem fá tækifæri til þess að sanna að þeir séu lifandi og geti útvegað svona vottorð.
Þar til í fyrra þurfti ég aðeins að skaffa vottorð fyrir Tryggingastofnun en síðasta sumar fékk ég líka bréf frá VR.
Öll mín viðskipti bæði fram og til baka varðandi þetta mál eru í gegnum netið. AUÐVITAÐ annað væri fáránlegt og ég trúi því ekki að maðurinn sem var hvati að þessum skrifum mínum viti það ekki.
Núna eru á döfinni árleg pappírsskipti á milli landa fyrir þá sem búa erlendis og eru annað hvort öryrkjar eða eftirlaunafólk.
Íslensk skattskýrsla er á leiðinni fljótlega og þarf að samþykkja hana og senda á netinu auðvitað.
Hér í mínu landi er skattskýrslan gerð í apríl eða maí og byggð á þeirri íslensku ásamt ýmsu sem tekið er tillit til hér af heimaslóðum. Endurskoðandi gerir mína skýrslu og ég þarf ekki annað en taka pappíra saman og prenta út íslensku skýrsluna og eitthvað smotterí. Svo bíð ég þar til komin er niðurstaða á því hvað ég á að greiða þetta árið hérna í búsetulandinu mínu og í lok ágúst borga ég alla summuna sem eru nokkur þúsund evrur.
Þegar búið er að samþykkja skýrsluna mína hér í búsetulandinu sendi ég hana til Tryggingastofnunar ásamt lífsvottorði og fæ staðfestingu á móttöku frá stofnuninni. Geri ég þetta ekki mundi ég ekki fá áfram eftirlaun frá Íslandi. Ekkert flókið, reglurnar eru bara svona. Öll þessi viðskipti mín fara auðvitað fram á internetinu, þó það nú væri, og meira að segja þó ég eigi ekki Ipad eins og frú formaður landssambandsins vill að allir eldri borgarar hafi á milli handanna, þá gengur þetta nokkuð greiðlega fyrir sig.
Frú formaður vildi líka að eldri borgarar fengju skilaboð um inntöku meðala minnir mig í gegnum Ipadinn og gott ef ekki átti líka að sækja sér vini á netið með apparatinu. Semsagt frú formaður sér eldri borgara í róbóta heimi en ég er svo heimtufrek að ég vil geta fengið faðmlag frá lifandi fólki og geta hlegið með lifandi verum og meira að segja ef ég þarf á að halda fengið vini til þess að hugga mig ef á mig sækir sorg. Það er einfaldlega þannig að fólk er nauðsynlegur partur af tilverunni, annars deyr sálin, hvað svo sem frú formaður segir.
Innskotið um frú formann er auðvitað hinn mesti kvikindisskapur en við hverju er svo sem að búast af útlaganum sem er graut fúl yfir því að fá ekki mannsæmandi laun eftir að hafa skilað áratuga sköttum og skyldum til íslensks þjóðfélags.
Ég ætla aðeins í lokin að minnast á málaferli Gráa hersins og baráttu þeirra fyrir því að ríkið hætti að stela sparnaðinum okkar um hábjarta daga alla daga ársins áratug eftir áratug.
Ærandi er hún þögnin frá til dæmis frú vestfirðingi sem skilur svo vel allt sem snýr að fátækt þegar hún stígur í ræðustól Alþingis en snýr sér svo við og baðar sig í grænu tómi þar sem allt er svo gott.
Ærandi er hún líka þögnin frá baráttujöxlum fátækra sem gleymdu pínulítið um hvað málið snýst og lölluðu sér yfir á barinn og skiptu um hest eins og ekkert væri og tóku sér náttstað með þeim sem búa á eyðibýlum úti í sveit og geyma peningana sína í paradísarpeningaþvættislöndum!
Já það er ekki logið á suma, meira að segja gæti mér ekki dottið í hug skáldlegir atburðir eins og gerast í íslensku þjóðfélagi daginn út og daginn inn og ótrúlega margir bara sáttir og sælir.
Það skiptir jú ekki máli þó einhverjir tugir þúsunda íslendinga hafi flúið land til þess að drepast ekki úr hungri.
Það skiptir ekki heldur máli þó tugir þúsunda fátækra á Íslandi sjái aldrei fram á betri tíð.
Það skiptir höfuð máli að þeir sem hafa komið sér vel fyrir og tilheyra hinum göfugu örfáu ættum sem nú ætla að sölsa undir sig enn einn bankann, geti haldið sinni stefnu áfram og haldi í vonina um að sveltistefna losi þá við þennan ærandi vanþakkláta líð sem eru eldri borgarar, öryrkjar og undirmáls launaðir starfsmenn hingað og þangað í þjóðfélagi hinna ríku.
Nem staðar hér í bili en látið ykkur ekki detta í hug að nú hafi ég ausið endanlega úr skálum mínum, ó nei, við heyrumst fljótlega aftur.
Hulda Björnsdóttir