Skrípasker í sinni bestu mynd

27. september 2024

Hugleiðing í lok dags

Í morgun sá ég að Þórður Snær ætlar að ganga til liðs við Samfylkinguna.

Nýlega gerðist ég áskrifandi að pistlum sem hann skrifar og var nokkuð ánægð með þá.

Hann er glöggur maður og góður þjóðfélagsrýnir.

Ég hef auðvitað ekkert með það að gera hvort hann fer á þing eða ekki. Ég er bara svekkt yfir því að missa hann af almennum umræðuvettvangi inn í pólitísku hítina.

Ég efast ekki um að hann vilji hafa áhrif til góðs með þessari ákvörðun.

Gallinn er bara sá að þegar hann er kominn inn á þing í faðm Samfó þá verður frelsið farið.

Flokks aginn tekur yfir.

Hann verður múlbundinn af aga formannsins og getur ekki haft sjálfstæða skoðun lengur, alla vega ekki tjáð hana fyrir almenningi.

Þetta er bara svona, og margur hefur farið inn á þing með göfugar hugsjónir sem hafa verið kveðnar í kútinn af formanni.

Ég hef óskaplega litla trú á flestum þeim sem nú sitja á þingi og sagði einhvers staðar að alþingi væri gjörspillt.

Auðvitað fékk ég bágt fyrir, en ég stend við þessa skoðun mína.

Þjóðfélagið er gjörspillt. Það eru ekki allir sem eru í spillingunni, en hún teygir arma sína eins og kolkrabbi um allt. Hvað er það annað en spilling þegar örfáar ættir raka saman auði á meðan almúginn sveltur hálfu og heilu hungri?

Ég sá um daginn hungurlúsina sem situr eftir þegar búið er taka skatta og skerðingar af hækkuninni sem ráðherrann var svo ægilega lukkulegur með, fyrir eldri borgara.

Svo sá ég líka að öryrkjar eru með einhverja tugi þúsunda hærri tölu vegna skerðinga en eldri borgarar og koma því eitthvað betur út í næstu framtíð.

Öryrkjar hætta ekki að vera öryrkjar þegar þeir eiga 67 ára afmæli en þá verða þeir eldri borgarar og fara á kjör eldri borgara, og vitið hvað, þá lækka þeir í bótum!

Var þetta alltaf hugsunin hjá yfirvöldum, eða vita þeir hreinlega ekkert hvað þeir eru að gera?

Ég get ekki svarað því, en mér sýnist flestir á Alþingi hafa fremur litla þekkingu eða áhuga á kjörum þeirra sem eru 67 ára eða meira, nema auðvitað þeirra sem tilheyra klíkunni, elítunni!

Það er hægt að taka hálfan ellilífeyri og sleppa við skerðingar.

Það er hægt að vinna og hafa ríflegar upphæðir áður en skerðingar byrja.

Atvinnumöguleikar venjulegs fólks eftir 67 ára eru ekki miklir.

Ég sá einhvers staðar að konur yfir 50 ættu erfitt með að skipta um starf eða fá vinnu eftir einhverja fjarveru!

Margar konur úr umönnunarstéttum eru búnar bæði á líkama og sál eftir 50 og jafnvel fyrr.  Ekki geta þær farið á kostakjör eftir það. Nei, þær verða margar öryrkjar vegna heilsu brests.

Réttlætið er alls staðar, er það ekki?

Ég veit ekki hvað Þórður veit mikið um kjör þessa fólks, kannski heilmikið og kannski ekki neitt.

Ég er stundum að láta mig dreyma um að manngæska og sanngirni ráði för þegar skoðað er kerfi almanna trygginga en það er draumur sem deyr þegar ég vakna.

Kerfið er þannig að flest fólk sem situr á Alþingi nennir ekki að setja sig vel inn í það en situr á móti fulltrúum þessara hópa og skilur og er fullt af góðvilja þangað til viðmælendur eru farnir út úr herberginu.

Það gerist ekkert.

Nei, það er ekki alveg rétt, það gerist eitthvað smá, eins og til dæmis hækkun frítekjumarks eldri borgara í fjárlögunum sem nú eru til umræðu og ráðherra stærir sig af.

Hann kemst upp með að hæla sér af því að þeir sem eru á Alþingi nenna ekki að eyða orku í að fara yfir málið og kynna sér í botn hvaða afleiðingar hækkunin hefur!

Ég leyfi mér að segja að margir þingmenn hreinlega nenna ekki að vinna vinnuna. Sumir sofa meira að segja á þingfundum! Er hægt að sýna meiri linnuskap?

Ég held að það skipti ekki nokkru máli hverjir af þessum flokkum situr í ríkisstjórn.

Það er að mestu sami grautur í sömu skál, undir mismunandi nöfnum og bókstöfum.

Að kjósa á Íslandi er einfaldlega jók.

Enginn gefur út fyrir kosningar hverjum ekki verður starfað með og þegar búið er að ljúga inn atkvæðin gerir pólitíkin bara það sem henni sýnist.

Unga fólkið og eldra líka, flýr land.

Það er ekki hægt að vera venjuleg launamanneskja á þessu landi og hafa sæmilega í sig og á, hafandi hús til að búa í og mat á borðum alla daga mánaðarins.

Gengi, vextir, verðlag, húsnæðiskostnaður, lækniskostnaður, og það sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi stendur ekki til boða fyrir alla á Íslandi.

Fáar ættir eru að sölsa undir sig allt og komast upp með það.

Hvað er eiginlega að þjóðinni?

Hulda Björnsdóttir