26. oktober 2024
Ég ætla að vaða úr einu í annað!
Í dag er laugardagur og mánuðurinn alveg að klára sitt ferðalag.
Í næstu viku er kominn vetrartími í litla landinu mínu og allt breytist.
Núna eru dagarnir öðruvísi, það er dimmt lengur fram eftir morgninum og dimmir fyrr á kvöldin. Þetta er megin ástæða þess að tímanum er breytt.
Það er betra fyrir börnin að fara í skólann þegar dagsbirtan er meiri.
Mér finnst þetta frekar snúið fyrir líkamsklukkuna mína en svo venst þetta eftir eina eða 2 vikur er ég komin aftur í gírinn.
Ég hlustaði á kennara tala um hvað það er orðið erfitt að kenna á Íslandi og hvernig launin eru allt of lág og fleira.
Ég hlustaði á Samstöðina í gær og þar var eins og oft áður keppni um hver gæti talað mest! Þetta er mín skoðun á því þegar hver talar ofan í annan.
Ég gerðist svo djörf að segja að ég gæfist upp á að hlusta á þetta!
Lifandi samtal er ekki fyrir alla!
Vertu þá bara ekki að hlusta
Auðvitað er mér frjálst að hlusta eða að hlusta ekki.
Það sem er svo skondið við þetta er að ég er ekki ein um þessa skoðun.
Oddný Harðar var í þætti og talaði um þetta og þó nokkrir vinir mínir hafa haft orð á þessu við mig persónulega.
Það sem ég velti fyrir mér er hvort það sé bannað að hafa skoðun?
Ég lít svo á að samtal sé ekki þegar allir tala upp í alla, að hlusta er list sem virðing byggist að hluta á.
Ég velti því fyrir mér, oft, hvers vegna eldri borgarar til dæmis, láta ekki meira í sér heyra varðandi kjör þeirra.
Getur það verið vegna þess að þeir séu hræddir?
Mér finnst samræður þar sem keppni fer fram um hver getur talað hæst og mest og komið sínum skoðunum yfir hina, ekki vera lifandi samtal. Mér finnst það frekjusamtal.
Og þá kem ég að því sem mér datt í hug.
Það er allt í kalda koli á Íslandi þar sem leiðin hefur verið niðurávið í mörg ár.
Þegar ég hlustaði á kennarana þá fannst mér skína í gegn að agaleysi væri vandamál.
Það er talað um písa kannanir og vanlíðan kennara og ómanneskjulegt álag á kennara og vanlíðan barna.
Að kenna í bekk þar sem ekki er hægt að fá krakka til þess að sitja og hlusta er erfiðara en orð fái líst.
Ég man eftir því þegar ég var að kenna fyrir mörgum árum og einn bekkur var eins 7 aðrir, að álagi. Í þessum eina bekk var allt í hers höndum en hinir bekkirnir voru í skólanum til þess að læra.
Þetta er ekki bara vandamál á Íslandi. Þetta er vandamál líklega um alla byggðina.
Þegar ég kenndi í Kína var ráðið með erfiðu bekkina að 2 kennarar voru í kennslustundinni, annar kenndi og hinn hélt uppi aganum! Þetta var áhrifaríkt og virkaði. Þar var horfst í augu við vandann og reynt að leysa hann með samvinnu.
Það er ósanngjarnt að kenna kennurum um agaleysi. Agaleysi byrjar heima! Ef lifandi samtal er að hver tali upp í annan þá lít ég svo á að eitthvað sé bogið við agann.
Það er ekkert að því að hlusta, og er reyndar í mörgum heilræðum um gott líf að læra að hlusta. Þeir sem aldrei hlusta læra aldrei neitt!
Auðvitað er mér frjálst að hlusta á hvaða stöð sem ég vil en ég má líka hafa skoðun á því hvað mér líkar og hvað mér líkar ekki.
Lausnin getur verið að hætta að hlusta, og það er allt í lagi, en ég held að ástæða þessa yfirgengilega kapphlaups um að hafa orðið sé einfaldlega agaleysið í sinni einföldustu mynd.
Ég er fegin að það tókst ekki, þegar ég reyndi að gerast áskrifandi að Samstöðinni.
Ég trúði því að þetta væri góð tilraun og hún heldur áfram. Það er mikið sama fólkið sem kemur í viðtöl og vitað mál hverjir eiga „þetta lifandi samtal“
Ég gæti til dæmis valið að hlusta þegar hinir kappsömu eru ekki á viðmælanda skrá.
Ég gæti líka alveg hætt að hlusta.
Ég gæti þagað yfir því hvað mér finnst.
Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni.
Virðing og agaleysi fara ekki saman. Það er mín skoðun.
Nú rísa einhverjir upp og hakka mig í sig og það er í lagi. Ég get tekið því.
Nú er komið fram fjárlagafrumvarp og það hefur áhrif á afkomu mína. Hækkun ellilífeyris er skv frumvarpi 4,3 prósent.
Ég er að gera áætlun fyrir næsta ár.
Ég ætla að reikna með óbreyttum tekjum, því hækkun TR fylgir líka hækkun á áætlun vegna tekna frá Lífeyrissjóði og þar sem skerðingar breytast líklega ekki þá finnst mér líklegt að ég komi út á sama stað næsta ár og því sem ég er að fá núna.
Verðbólgan virðist ekki vera á niðurleið og mig minnir að 5 prósent hækkun á tekjum lífeyrissjóða sé í áætluðum tekjum TR og skurðarhnífurinn skeri grimmt.
Hvergi hef ég séð talað um skerðingar eldri borgara í því sem ég hef séð frá flokkum sem nú eru að smala.
Það er eins og eldri borgarar séu mesta mein samfélagsins og þeir éti upp tekjurnar frá ríkissjóði! Þetta hefur verið svona lengi og mér finnst líklegt að það ástandi haldist óbreytt.
Hulda Bjornsdóttir

