24. ágúst 2025
Nú er ég enn eina ferðina svo auðtrúa og einföld að ég held að allt breytist og verði gott í einni svipan!
Þetta er bara ég og hefur verið lengi.
Ég held að lífið sé lærdómur og þegar ein lexía er komin endanlega inn í kollinn á mér þá taki önnur við.
Ef ég hins vegar læri ekki það sem mér var ætlað kemur eitthvað svipað upp síðar og ég fæ tækifæri til þess að breyta svarinu!
Þetta er það sem ég kalla lífið!
Síðustu rúm fjórtán ár hef ég búið í lítilli blokk, með 6 íbúðum.
Þegar ég kom hingað inn var ýmislegt ekki alveg í lagi, til dæmis bjó niðri fjölskylda sem var í verulegum vanda stödd.
Maðurinn var ofbeldisfullur og það var óhuggulegt að hlusta á hann, jafnt að degi sem nóttu, þegar allt ætlaði um koll að keyra.
Smátt og smátt gafst frúin upp og flutti burt með börnin en þá komu konur sem voru í skamman tíma og munstrið hélt áfram.
Útlendingurinn hefur alltaf farið í taugarnar á herranum, líklega fyrir það eitt að búa fyrir ofan og heyra upp hvernig ástandið var.
Það voru margar vökunæturnar.
Undanfarin nokkur ár hefur hann búið annars staðar og komið dag og dag, eða réttara sagt nótt og nótt og þá stundum spilað tónlist fram á nótt, frekar í hærra laginu og ekki svefnsamt fyrir nágranna.
Þegar maður býr í svona blokk þarf að gera ýmislegt fyrir sameignina, t.d. að borga rafmagn og vatn og fleira, bara svona eins og um venjulegt hús sé að ræða. Eini munurinn er að allir eiga að taka þátt í kostnaðinum.
Það rignir inn á svæðið sem er bílageymslan og stendur vatnið í polli fyrir framan minn skúr og þegar lautin er full flæðir inn hjá mér. Ég lét setja ál lista fyrir og nú flæðir allavega ekki inn lengur.
Í tvö ár rigndi inn í stofuna hjá mér gegnum sprungu sem var utan á húsinu, og rigndi inn í fleiri íbúðir.
Það tók langan tíma að fá eitthvað gert í því máli en náðist þó á endanum en ég hef ekki látið laga skemmdirnar á veggnum hjá mér, ekki enn þá
Nokkrum sinnum hef ég gert tilraun til þess að selja og flytja í burtu en það hefur reynst erfitt og ég gefist upp á því.
Allt keyrði þó um þverbak þegar siriarnir fluttu inn. Ég nenni ekki að tala um það.
Þau seldu í fyrra og nú eru komnir nýir eigendur sem búa erlendis og ætla að hafa þetta sem aukaíbúð.
Þetta er ábyggilega hið besta fólk ég efast ekki um það.
Nú er verið að gera íbúðin upp og verður hún ábyggilega fín á eftir og gott að gleðjast með nýjum eigendum.
Það besta við þetta nýja fólk er að nú er komin administration sem virðist vita sínu viti.
Búið er að halda einn fund og verður annar fljótlega.
Komið er í ljós að eitt og annað er ekki í lagi lögum samkvæmt hér í blokkinni og er fyrirtækið sem er admin vel að sér í þeim málum og verið að kippa málum í lag og vonandi kemst til dæmis rafmagn á í sameigninni fljótlega.
Það kom í ljós að þó nokkrar skuldi sitja eftir sem urðu eftir að fyrra fyrirtæki sagði okkur upp og þarf að taka afstöðu til þess að næsta fundi hvernig greiða eigi þær.
Vinurinn á neðri hæðinni skulda mikið og verður fróðlegt að sjá hvernig íbúarnir vilja taka á því máli. Er hægt að komast upp með að vera einn af sex eigendum og ekki greiða sameiginlegan kostnað? Ég veit það ekki en þetta kemur í ljós a fundinum.
Þegar ég var að hugsa um þetta í dag og gær þá skildi ég loksins að þetta er sama fólkið í húsinu, nema nýju á hæðinni fyrir ofan mig.
Verða minni vandræði með nýrri stjórn mála? Ég veit það ekki en vona að fast verði tekið á málum.
Það þarf að skoða gas í hverri íbúð og sameign á fimm ára fresti ef blokkin er eldri en 10 ára. Okkar er held ég 26 eða 27 ára og þau fjórtán ár sem ég hef búið hér hefur ekki komið tæknimaður til mín til að skoða og virðist sama uppi á teningum hjá öðrum.
Mér var boðið að vera í samfloti með admin þegar sameignin verður skoðuð og eftir 5 ár verð ég svo látin vita að komið sé að næstu skoðun. Þetta er mjög þægilegt fyrir mig og 3ja september kl 9 kemur tæknimaður og tekur gasið út hjá mér. Ég borga 47 evrur fyrir.
Ekkert vandamál
Ég sé hins vegar í framhaldi af þessu máli að ekkert hefur breyst annað en nýir íbúar uppi sem ég veit ekki hvernig eru í raun og veru. Það kemur í ljós í framtíðinni. Þau sögðu mér reyndar að þetta yrði ekki leiguíbúð og virðist það nokkuð ljóst því þau hafa sett öryggisgæslu skilti fyrir utan íbúðina. Sem er eðlilegt þar sem þau verða ekki í íbúðinni nema í fríum.
Ég hélt að það væri myndavél en var sagt að það væri ekki, þetta væri bara ef einhver reyndi að komast inn færi allt á stað og löggan kæmi.
Hvað veit ég svo sem?
Ég var til taks fyrir húsbóndann uppi með því að opna fyrir þeim sem þurftu að komast inn til að taka út viðgerð og setja upp internet og svoleiðis.
Ég gerði þetta svona sem góður nágranni og það truflaði mið ekki mikið. Ég sá til þess að það væri á tíma sem ég væri heima.
Svo kom nos maðurinn með internetið og braut meo kapalinn svo ekkert net var hjá mér í nokkra daga.
Ég kvartaði við eigandann og bað hann að hafa samband við nos, sagði honum mína hlið á málinu. Sá hringdi svo í tæknimanninn sem varði sig og eigandinn trúði hans útgáfu en ekki minni.
Ég reiddist og var ekki par ánægð með að vera rengd svona gróflega, en þarna var kall sem trúði kalli betur en kvensunni: Eftir þref við eigandann þar sem hann benti mér á að ég væri eitthvað andlega biluð eða alla vega væri það ekki gott fyrir andlega heilsu mína að æsa mig upp!
Eftir nokkuð þref sagði ég einfaldlega: Þessu samtali er lokið! Og kvaddi.
Þetta var 8. Ágúst. Síðan hef ég ekkert heyrt og lykillinn er enn hér.
Mér dettur ekki í hug að bjóða lykilinn. Mér finnst lang líklegast að skipt hafi verið um skrá og er það eðlilegt við eigendaskipti.
Gaurinn er forstjóri í stóru fyrirtæki á Englandi og líklega vanur því að fólk beri virðingu fyrir valdi hans. Að vera ríkur og valdamikill gengur sumum til höfuðs.
Þessi framkoma minnti mig óneitanlega á ástand sem ég bjó við í 25 ár á íslandi.
Þar var valdið og ég fékk að finna fyrir því að ég væri nú svo sem ekki mikils virði!
Lexían núna er að ég þarf að spyrja sjálfa mig: lærði ég eitthvað af þessum 25 árum eða ætla ég að leyfa nýjum karli að tugta mig til andlega með valdhroka?
Ég þurfti að skoða þetta vel, ég varð sár og grét svolítið en svo jafnaði ég mig og ég held að ég sé búin að ná mér og næst verð ég líklega betur á verði,
Ég hef alltaf verið gullibul eins og einn kennari minn sagði við mig fyrir óralöngu. Það eldist illa af mér.
Nú er ég búin að jafna mig vel og get haldið áfram.
Hins vegar hef ég séð eða skilið að það gæti orðið snúið að stýra samkundunni á næsta fundi og næstu fundum, en það er ekki mitt mál. Ég mæti auðvitað en ég ætla ekki að skipta mér af því hvað hinir gera. Ég hef mína skoðun á því hvað á að gera við þann skulduga og verð spurð á fundinum eins og allir hinir. Meirihluti ræður og ég fylgi því sem samþykkt verður.
Stundum er bara ágætt að sitja svona fundi og leyfa hinum að rífast!
Þetta er orðið langt mál um lítið mál en stundum líður manni svona.
Með aldrinum ætti ég að hafa þroskast og hætta að taka ábyrgð á öllu og öllum!
Hulda Björnsdóttir
