15.júlí 2025
Ég hef ekki skrifað lengi um kjör eldri borgara og var eiginlega hætt því en svo kemur að því að ég gefst upp í þagnarbindinu og nú liggur mér margt á hjarta
Ný ríkisstjórn hefur nú starfað í nokkra mánuði og þingi loksins slitið eftir ótrúlega framkomu stjórnarandstöðu sem ég fylgdist með undir lokin.
Ég hef held ég aldrei séð aðra eins heift og hroka, er ég þó búin að fylgjast með stjórnálum meira og minna í 60 ár!
Nú er þingið komið í sumarfrí og ekkert merkilegt í þingsölum fyrr en í september
Ég sá einhvers staðar þar sem forsætisráðherra taldi upp hverju stjórnin hefði áorkað á stuttum tíma og var þar meðal annar að 1. September mundi frítekjumark hækka upp í 60 þúsund !
Ég var frekar kát með þetta og frekar hneyksluð á vanþakklæti einhvers sem kommentaði að ekkert væri gert fyrir eldri borgara, enn eina ferðina.
Nú er ég búin að kynna mér málið og maðurinn hafði rétt fyrir sér.
Þetta frítekjumark er fyrir öryrkja en ekki eldri borgara og kemur mér ekki svo mjög á óvart þar sem Inga hefur talað mikið um fólkið hennar og það eru ekki eldri borgarar, það eru öryrkjar!
Ekki nóg með það að frítekjumark öryrkja hækki upp í 60 þúsund heldur eru margir sem hækka upp í 100 þúsund frítekjumark.
Nú velti ég aðeins fyrir mér hvernig frú Inga og ríkisstjórnin hefur hugsað sér að fara með þá öryrkja sem orðnir eru eldri borgarar?
Á að flokka eldri borgara enn meira niður en gert hefur verið?
Núna eru nokkrir flokkar eldri borgara: Þeir sem fá hálfan ellilífeyri og gera það væntanlega af því að þeir hafa nokkuð góðar tekjur frá Lífeyrissjóði.
Annar flokkur er þeir sem eru á enn á vinnumarkaði
Þetta er flókið
Hvað ætlar frú Inga og ríkisstjórnin að gera fyrir hinn venjulega mann og konu sem eru ekki með atvinnutekjur og ekki háan lífeyrissjóð?
Ætlar ríkisstjórnin enn eina ferðina að hunsa þá sem eru í lægri kantinum?
Ég er hrædd um það
Hverjir eru það svo sem eru í þessu kanti sem ég er að tala um?
Það eru til dæmis konur sem hafa unnið láglaunastörf og eru þær margar. Það eru almennir verkamenn sem ekki hafa rakað saman háum launum. Það eru konur í ýmsum störfum þar sem þær hafa verið á lægri launum en karlar og hafa ekki efni á að taka hálfan lífeyri. Þetta eru svona smá dæmi en hægt að tína fleira til.
Þegar ríkisstjórn skellir fram fullyrðingu eins og þeirri að frítekjumark hækki 1.september er eðlilegt að halda að það sé hjá öllum þeim sem njóta frítekjumarks.
Þetta er algeng aðferð þegar verið að telja upp afrek stjórnarliða og er ekki langt að minnast BB .þegar hann stærði sig af hækkuninni á frítekjumarki vegna atvinnutekna og gaf í skyn að það væri fyrir alla. Hann tók aldrei fram að það væri BARA vegna atvinnutekna.
Það þarf að taka upphrópanir stjórnmálamanna með varúð!
Ég ætla að kynna mér betur ný lög um öryrkja áður en ég tala um tölur. Hef fengið góðar upplýsingar um þann samanburð.
Semsagt,
Ég er komin á kreik aftur til að vekja athygli á einu og öðru sem mér finnst þess virði.
Einhverjir verða öskureiðir og telja mig vanþakkláta og ósanngjarna og það er eðlilegt.
Hafið samt í huga að ég hef lengi skrifað um það sem mér finnst skipta máli og er vön því að fá alls konar viðbrögð.
Í nokkur ár hélt ég úti síðu sem hét Milli lífs og dauða, en lokaði henni fyrir nokkrum árum því ég sá engan tilgang í því að vera að berjast fyrir lokuðum dyrum!
Það eiga nokkrir pistlar eftir að koma frá mér næstu daga.
Hulda Björnsdóttir
