Með kveðju frá milljónamæringnum MÉR

1.október 2024

Ég er ein af þessum hátekju manneskjum komin á eftirlaun.

Tölur hér að neðan eru fyrir skatt!

Frá lífeyrissjóði fæ ég 249.856 krónur þennan mánuðinn, fékk um þúsund krónum minna síðast.

Þetta eru auðvitað skelfilega há laun og ekki hægt að láta mig komast upp með að fá eitthvað frá ríkinu, alla vega ekki mikið. Það verður jú að hugsa um þjóðarhag og ekki hægt að láta svona fólk eins og mig komast upp með einhvern skæting.

Frá Tr fæ ég 236.771 krónu á mánuði og ef ekki væru skerðingar mundi ég fá 333.194 og það plús hinar ægilegu 249 þúsund krónur mundi auðvitað setja ríkissjóð á hvolf og það má alls ekki.

96.423 eru teknar af tekjum sem ég var svo ósvífin að safna fyrir á meðan ég vann fulla vinnu í meira en 40 ár, og áttu þessar krónur að sjá til þess að ég hefði það sæmilegt þegar og ef ég yrði gömul.

Á næsta ári mun ég skulda TR því áætluð laun voru aðeins lægri en það sem ég fæ frá lífeyrissjóði og auðvitað borgar maður skuldir sínar, eða hvað?

Ósvífni mín á sér engin takmörk því ég flutti úr landi áður en ég komst á eftirlaun og spara þar með íslenska ríkinu lækniskostnað og svoleiðis smámuni.

Hálaunamanneskjan ég er ekki par hrifin af því hvernig farið er með sparnaðinn í lífeyrissjóð sem var svo dásamlegt fyrirbæri þegar sett var á fyrir mörgum áratugum.

Ég man eins og gerst hafi í gær hvað starfsmannastjórinn sagði og hvað hann var ægilega lukkulegur fyrir okkar hönd og hvað við mundum hafa það gott í ellinni.

Ég gerðist flóttamaður fyrir langa löngu því ég hafði séð hvernig dýrðin snerist við í höndunum á þeim voru svo heppin að eldast.

Núna nota ég evrur og breyti hinum geðveikislega háu launum yfir í evrur um hver mánaðamót.

Í október í fyrra var evran á 143.53 þegar ég millifærði

Í dag var hún 150.94 þegar ég millifærði.

Ég nenni ekki að reikna út hvað ég tapa miklu á hverjum mánuði vegna glæpsamlegs gengis íslensku krónunnar.

Ég er svo ósvífin að telja mig spara íslenska ríkinu stórfé með því að vera ekki að þvælast fyrir í kerfinu á Íslandi og læt öðru landi eftir að halda mér gangandi heilsufarslega.

Þar sem ég bý ein fæ ég auðvitað ekki heimilisuppbót bara af því að ég voga mér að búa ekki á Íslandi og skiptir engu máli þó ég hafi allt mitt líf greitt skatta og skyldur á Íslandi.

Já, það er dásamlegt að vera fædd á Íslandi og hafa starfað þar alla starfsævina og svona fólk eins og ég á ekki að vera að kvarta því við erum hálauna pakk.

Aumingja útgerðardásemdin lepur dauðann úr skel, það vita jú allir.

Nei, ég segi það aftur, hálaunapakk eins og ég á alls ekki að kvarta.

Ég á ekki skilið að hlustað sé á mig þegar ég kvarta yfir brjálæðislegu gengi og gargandi skerðingum.

Haltu þig á mottunni, þú eldgamla kelling, segir kerfið við mig í hverjum einasta mánuði.

Flýttu þér að drepast svo við, fátæka útgerðin og fátæka auðfólkið, getum farið að sofa róleg á kvöldin.

Þrjóska ég ætla líklega að verða 100 ára svo það eru mörg ár eftir til þess að mjólka TR!

Með kærri kveðju frá „milljónamæringi“

Hulda Björnsdóttir

Unknown's avatar

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a comment