Talað niður til fátækra

17. júlí 2024

Í gær sendi ég hugleiðingu um frítekjumark og hvernig skerðingar hafa áhrif á afkomu konu sem er búin að greiða í lífeyrissjóð frá upphafi.

Athugasemd kom frá einum þar sem hann talar um að frítekjumark ætti að vera 100 þúsund krónur fyrir tekjur frá Lífeyrissjóðum.

Hann segir jafnframt að hægt sé að líta á tekjur frá lífeyrissjóði sem atvinnutekjur.

Ég er ekki sammála öllu sem hann segir.

Ég lít á greiðslur til mín frá lífeyrissjóði mínum sem laun eða atvinnutekjur.  Ég borgaði í lífeyrissjóð alla mína starfstíð, prósentin mín voru dregin frá launum mínum og síðan greiddi atvinnurekandi mótframlag í sjóðinni.  Þetta var samkvæmt kjarasamningum!

Ég fékk ekki þessi prósent útborguð, þau voru sett í sjóðinn til þess að ég gæti notað þessa peninga þegar ég kæmist á eftirlaun, ef ég yrði svo heppin að lifa lengi.

Ég var svo heppin að lifa lengi og núna er ég ný orðin 79 ára og á ábyggilega eftir að minnsta kosti 10 ár í viðbót.

Hinn ágæti athugasemda karlmaður talar um 100 þúsund króna frítekjumark.

Ég hef heyrt þessa röksemd áður frá honum og FEB og LEB.

Að segja í einu orði að greiðslur frá lífeyrissjóði séu í raun atvinnutekjur og í næsta orði að tala um 100 þúsund krónur í frítekjumark, þegar frítekjumark atvinnutekna í dag er 225 þúsund á mánuði, er hrein móðgun og sýnir hve grútmáttlaus barátta FEB og LEB er.

Auðvitað á sama frítekjumark að gilda um atvinnutekjur og greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Mínar greiðslur og launagreiðanda míns hafa setið á vöxtum hjá sjóðnum síðan ég byrjaði að borga í hann frá upphafi!

Í upphafi voru allar tekjurnar mínar skattlagðar en svo var breytt um takt og framlög í lífeyrissjóð ekki skattlögð fyrr en greitt yrði úr sjóðnum.

Núna greiði ég skatt af tekjum frá lífeyrissjóði og ríkið hirðir 45 prósent af tekjunum með skerðingum. Þar sem ég hef greitt í sjóðinn frá upphafi þá er sumt tvískattað en ég er ekkert að ergja mig yfir því, það eru bara nokkur ár og væri TR um megn að finna það út!

Ég var ekki kona í lægstu launuðu störfunum en samt með lág laun miðað við kallana og ég hef ekki mikla trú á því að konur í mönnum flokki eigi miklar fjármagnstekjur!

Það eru líka margar konur og menn sem hafa haft enn lægri laun en ég á starfsævinni og það er fólkið sem skrif mín fjalla um.  Mér kemur hreint ekkert við hvernig þeir í efri þrepunum hafa það og hvað verður um fjármagnstekju skerðingar þeirra. Það fólk lepur ekki dauðann úr skel og hefur áhyggjur af því þegar fer að líða á mánuðinn hvernig hægt verður að hafa eitthvað, bara eitthvað, á diskinum fram að mánaðamótum.

Fátækt fólk hefur ekki krafta til þess að berjast fyrir bættum kjörum þegar það er komið á eftirlauna aldur.

Margt af þessu fólki er búið á líkama og sál eftir erfiði ævinnar. Stúlkurnar og konurnar sem unnu sem sjúkraliðar til dæmis, eru búnar á því löngu fyrir 67 ára aldurinn og margar komnar á örykju.

Verkamennirnir sem strituðu myrkranna á milli eru á sama stað. Þeir eru löngu búnir að eyða öllum kröftum, bæði andlegum og líkamlegum.

Þetta fólk fékk greitt fyrir vinnu sína og greiddi í lögbundna lífeyrissjóði alla sína starfsævi og nú situr þetta fólk uppi með skerðingar eftir fyrstu 25 þúsundin á meðan þeir sem hafa unnið þægilega vinnu og hafa fulla starfsgetu eftir 67 ára, geta haldið áfram að vinna og fengið 225 þúsund króna frítekjumark fyrir greiðslur frá TR:

Það ber allt að sama brunni.

Hátekjuliðið sér um sína.

Hverjir eru það sem standa í baráttu fyrir eldri borgara? Eru það fátækir eldri borgarar? Nei, það held ég ekki.

Skoðið stjórnir FEB og LEB og athugið hvaða fólk er þar.

Þeir sem hafa unnið hjá þessum samtökum og tala um 100 þúsund króna frítekjumark fyrir okkur pöpulinn eiga ekki upp á pallborðið hjá mér.

Þar til sömu reglur gilda um atvinnutekjur og greiðslur frá lífeyrissjóðum tek ég ekki mark á baráttu þessara samtaka.

Fagurgalinn er flottur fyrir suma en ég verð reið og er löngu hætt að láta liðið særa mig með kröfum sem eru fyrir neðan virðingu eldri borgara baráttu.

Hulda Björnsdóttir


Unknown's avatar

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a comment