Skerðingar eru glæpur

16. júlí 2024

Ég heyrði ekki betur en Gunnar Smári væri að gefa í skyn í þætti í gær að barátta fyrir breyttu skerðingarhlutfalli á greiðslur frá lífeyrissjóðum væri eingöngu fyrir þá sem eru vel stæðir eldri borgarar!

Ég reiddist þegar ég heyrði þetta.

Hann hefur verið ötull við að tala um öryrkja og hvað þeir hafi það slæmt, sem er auðvitað hárrétt. Hins vegar gerist það þegar öryrkinn verður 67 ára að hann hættir að vera öryrki og verður bara eldri borgari og hagur hans vænkast ekki. Ætli GS viti þetta?

Mér þykir það ekki mikil auðæfi að hafa 98.231 krónum meira á mánuði en sá sem aðeins fær greitt frá TR, þó ég fái 246.000 frá Lífeyrissjóði.

Tryggingastofnun og skatturinn éta upp megnið af því sem átti að vera fyrirhyggja fyrir áhyggjulausara lífi efri áranna!

Ég er auðvitað bara kona og var ekki með karlmanns laun á starfsferli mínum en ég greiddi í lífeyrissjóð frá upphafi þess kerfis.

Okkur var sagt að það sem við greiddum í lífeyrissjóð væri frábært því við mundum njóta þess í ellinni. Stjórnvöld hafa jafnt og þétt etið upp þennan sparnað okkar og nú súpum við seyðið af því.

Að lifa á Íslandi sem eldri borgari og hafa 391.462 krónur á mánuði eftir skatt er ekki líf hátekju manneskju. Það leyfi ég mér að fullyrða.

Ég er ekki að gera lítið úr kjörum þeirra sem ekki eiga neinn lífeyrissjóð og lifa við enn verri aðstæður. Ég er hins vegar að garga yfir því að sparnaður minn, sem var dreginn af launum mínum í hverjum mánuði í rúm 40 ár, skuli ekki skila mér meiru en 98.231 krónu á mánuði, fram yfir þann sem hefur ekki sparað í lífeyrissjóð.

Þeir sem hafa barist fyrir því að skerðingar yrðu felldar burtu af tekjum frá lífeyrissjóðum eru ekki að berjast fyrir hina tekjuhæstu. Þeir eru að berjast fyrir fólk eins og mig, sem fæ rétt rúmar 200 þúsund krónur eða minna á mánuði úr lífeyrissjóði.

Það sem var sett í lífeyrissjóð var partur af launum mínum og er þar af leiðandi launatekjur þegar ég fæ greitt á eftirlauna árunum úr sjóðnum. Þessar greiðslur voru í öllum kjara samningum ásamt framlagi vinnuveitandans á móti.

Núna er BB og co búin að koma því svo fyrir að eldri borgarar sem eru á vinnumarkaði og fá laun fyrir vinnu þar lifa við skerðingar mörk sem eru 225.000 á mánuði. Það er sem sagt ekki farið að skerða fyrr en eftir 225.000 króna tekjur en hjá okkur hinum er skert eftir 25.000.

Það er nokkur munur á 300.000 króna frítekjumarki á ári eða 2.400.000 (2,4 milljónum).

Hverjir eru það svo sem geta unnið eftir 67 ára? Það er spurning sem mætti velta fyrir sér en eitt er víst að hópur kvenna úr frekar lágum stéttum er ekki fjölmennur þar.

BB og co hafa séð um sína og hæla sér af því að hafa hækkað frítekjumark, en segja ekki frá því hvað liggur undir og hvað það eru margir sem njóta ávaxtarins! Ég man ekki hvað það eru margir sem nota atvinnu skerðingar og ég nenni ekki að fletta því upp! Ég get fullvissað ykkur um að það er ekki stór hluti eldri borgara.

Mikið af eldri borgurum hafa flúið land og búa hingað og þangað þar sem þeir geta dregið lífið fram án þess að svelta hálfu hungri.

Þetta fólk hefði margt þúsund sinnum frekar kosið að búa á Íslandi þar sem vinir og skyldmenni eru, en það var um tvennt að velja, að svelta á Íslandi eða geta lifað nokkuð áhyggjulausara lífi erlendis, fjarri ættingjum og vinum.

Við það að flytja úr landi falla niður allar félagslegar bætur, eins og til dæmis heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir og í sumum löndum eru ekki tvísköttunarsamningar og þar sem þeir eru ekki, falla allar bætur, ellilífeyrir og það sem honum tilheyrir, niður.

Hér að neðan eru svo dæmi um hvernig þetta lítur út í tölum hjá þeim sem fær 246.000 krónur á mánuði frá lífeyrissjóði og hjá þeim sem hefur eingöngu lífeyri frá TR.

————————————

Fullur ellilífeyrir 333.294 á mánuði (einstaklingur sem býr t.d. erlendis og fær engar uppbætur eða einstaklingur sem býr á Íslandi og býr ekki einn. Ef hann byggi einn á Íslandi fengi hann heimilisuppbót)

Svona lýtur dæmið út: (fullur ellilífeyrir er kr.333.194 á mánuði fyrir skatt)

Greiðslur frá lífeyrissjóði 246.000 á mánuði

Greiðslur frá TR á mánuði eftir skerðingar 233.744

EINSTAKLINGUR með 246.000 króna tekjur frá Lífeyrissjóði hefur í heildarlaun (frá TR og lífeyrissjóði) 479.744 fyrir skatt

EINSTAKLINGUR sem hefur bara laun frá TR fær 333.194 fyrir skatt

Sá sem hefur lífeyrissjóðs greiðslur upp á 246.000,  fær krónur 391.462 á mánuði eftir skatt ( 222.903 kr. frá TR og 168.559 krónur frá lífeyrissjóði)

Sá sem hefur bara tekjur frá TR fær eftir skatt 293.231

Skerðingar hjá þeim sem hefur tekjur frá Lífeyrissjóði nema 45% eftir frítekjumark, en það eru hvorki meira né minna krónur 25.000 sem eru frítekjumark. Eftir þessar 25 þúsund reiknast 45% skerðingar sem dragast frá því sem greitt er frá TR!

Mismunur þessara tveggja í tekjum á mánuði eru 98.231 krónur.

Líklega finnst Gunnari Smára þetta vera smá smugulegt hjá mér að vera ekki sátt við mismuninn.

Mér finnst þetta óréttlátt og fer ekkert ofan af því.

Þegar lífeyrissjóður var kynntur í upphafi áttu greiðslur úr honum að vera viðbót við það sem TR greiddi en núna eru lífeyrissjóðir notaðir til að niðurgreiða kostnað ríkisins við almannatrygginga kerfið!

Hulda Björnsdóttir

Unknown's avatar

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a comment