28. 10.2023
Ég hlustaði á viðtal við formann leigjenda samtakanna
Þetta er viðtal sem allir ættu að hlusta á.
Hann blés mér líf í baráttu jafnvel þó að ég eigi ekki að vera að rífast um hvernig allt er á heljarþröm á Íslandi, þar sem ég búi erlendis komi mér staðan ekkert við!
Ég las á Facebook að við sem búum erlendis eigum ekki að vera að skipta okkur af Íslandi þar sem við höfum ákveðið að búa annars staðar.
Ég get ekki samþykkt þetta.
Ég starfaði yfir 40 ár á Íslandi og eyddi þar fyrstu 60 árum ævinnar.
Ég borgaði í lífeyrissjóð og greiddi skatta og skyldur samkvæmt Íslenskum lögum.
Þar af leiðandi á ég rétt á eftirlaunum sem ég hef áunnið mér þar sem ég bý í landi sem er með tvísköttunarsamning við Ísland.
Það kemur mér við hvernig krónan hamast upp og niður eins og skoppar kringla.
Ég fæ ekki ýmsan stuðning frá félagslegum réttindum sem ég fengi ef ég byggi á Íslandi og spara þar með ríkinu eitthvað smáræði.
Að búa við brjálað gengi krónunnar sem stýrt er af auðmanna stétt landsins er óþolandi, ekki bara fyrir mig heldur líka þá sem búa á Íslandi. Fólk, sumt, fattar ekki að krónan hefur áhrif á verðlag á landinu. Það eru ekki bara við sem búum erlendis sem verðum fyrir barðinu á auðvaldinu.
Nú hefur öryrkjabandalagið tapað máli gegn ríkinu varðandi skerðingar. Það var auðvitað ekki við öðru að búast en ekkert breytist nema að reynt sé að ná fram réttlæti.
Ég hef aldrei skilið heimsku þeirra sem ráða og skilningsleysi þeirra á því að núverandi kerfi kostar ríkið offjár vegna skerðinganna sem eru hjá öryrkjum og eldri borgurum.
Þegar öryrki reynir að komast aftur inn í lífið og fær einhverja vinnu sem gefur smá tekjur kemur ríkið og hrifsar svo til allt til sín.
Hvers vegna skilja ekki ráðamenn að því fleiri sem eru drepnir ef þeir reyna að bjarga sér, því dýrari verður einstaklingur. Hann þarf meiri læknis þjónustu, hann þarf meiri lyf, hann þarf að leita til sveitarfélags eða hjálparsamtaka til þess að hafa mat á diskinn sinn.
Hann verður þunglyndur og lífið tilgangslaust og hann hættir að berjast við skrímslið sem kerið er og gefst upp.
Sumir svifta sig lífi og aðrir verða geðsjúkdómum að bráð, og verða enn dýrari fyrir vikið, og ríkið borgar.
Er enginn sem er með fullu viti sem stjórnar þessu kerfi?
Líklega er öllum sem ráða hjartanlega sama.
Forsætisráðherra sagði fyrir mörgum árum að þessi hópur gæti ekki beðið og nú hefur hún verið við kjötkatlana í þó nokkur ár og grettir sig í brosi, ánægð með sig og stólinn og er hreint ekki að fara neitt.
Henni er nákvæmlega sama um fátæka og sjúka.
Hverjir stjórna svo Íslandi eftir allt saman?
Jú það eru ekki Alþingismenn, það eru samtök atvinnu lífsins sem maka krókinn fyrir hina ríku og passa upp á að hinir fátæku og sveltandi haldi áfram að vera hlekkjaðir í sulti og seyru.
Samtök atvinnu lífsins stjórna Íslandi og hástéttin nýr saman höndum í gleði yfir gróða.
Þjóðin kýs sama sukkið aftur og aftur og ekkert breytist.
Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku verða fátækari.
Skyldu sparnaður minn í Lífeyrissjóð í áratugi er étinn upp af ríkinu í hverjum mánuði, rétt eins og hjá öryrkjunum.
Eldri borgarar fóru í mál til þess að fá úr því skorið hvort skerðingar væru löglegar, og auðvitað tapaðist málið á öllum stigum. Nú er það mál líklega farið til Mannréttinda dómstóls.
Sama gildir um málssókn öryrkjanna, það tapaðist líka.
Fátækt er ekki bara á meðan öryrkja og eldri borgara.
Það er fjöldi venjulegra fjölskyldna sem eiga ekki fyrir mat og öðrum brýnum nauðsynjum alla daga mánaðarins.
Fjármálaráðherra sagði af sér og sú afsögn leiddi til þess að hann hoppaði í annað ráðuneyti.
Í siðmenntuðum löndum þýðir afsögn að ráðherra hættir. Hún þýðir ekki að hann skipti bara um ráðuneyti.
Í stað hans er komin gella í fjármálin sem skilur hreint ekkert í því hvernig þjóðfélag virkar fyrir alla.
Líklega er leiðin áfram niður á við hjá venjulegu íslensku fólki og hástéttin verður ríkari og ríkari.
Er eitthvað hægt að gera?
Ég veit það ekki. Á meðan fólk kemur þessu sama liði aftur og aftur í valdastólana breytist ekkert, það er allavega alveg öfugt.
Vinur minn einn kallar Ísland Skrípasker, kannski er það réttmæt nafngift.
Annar vinur minn segir oft að fólk sé fífl. Kannki er það líka rétt.
Vonleysi er ofarlega á baugi hjá venjulegu fátæku fólki en á sama tíma glottir Kata og segir útlendingum að allt sé svo ægilega gott á Íslandi.
Svei því! Á endanum étur karma svikarana!
Hulda Björnsdóttir
