3. september 2023
Ég hlustaði á viðtal Gunnars Smára við Hlín Agnarsdóttur (vonandi er þetta rétt nafn hjá mér, hún hefur alltaf verið bara Hlín í mínum huga í gegnum árin)
Frábært viðtal og vakti mig til umhugsunar um mig sjálfa og af hverju ég er eins og ég er.
Stundum er ég þægileg fyrir mig og stundum er ég öll í klessu og kolrugluð.
Ég hef verið að reyna að átta mig á mér og það hefur staðið yfir á marga áratugi! Og ekkert lát á.
Það sem Gunnar og Hlín sannfærðu mig í raun um var að ég væri í lagi!
Eins og við segjum hér í litla landinu mínu „eu tenho muitos anos“ sem þýðir að ég eigi mörg ár!
Mér finnst þetta svo fallegt og hér í landi er borin virðing fyrir þeim sem eldri eru, ólíkt því sem er á Íslandi.
Ég hef lært það undanfarin 3 ár að ég ætti að hlusta oftar á undirmeðvitundina þegar hún er að vara mig við ástandi sem ég held að sé eðlilegt.
Ég hef haldið að það væri eitthvað að mér þegar ég hef barist gegn því að vera beitt ofbeldi og lygum, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.
Það er ekkert sérlega mikið að mér. Ég er með stórt hjarta og ég á auðvelt með að hjálpa fóli og ég er líka auðtrúa og trúi því að allir séu í raun góðir, jafnvel þó það blasi við mér með STÓRUM STÖFUM að eitthvað mikið er í ólagi.
Ég hef endalaust beðið afsökunar og fyrirgefningar og verið á hnjánum og oft grátandi þegar ég hef séð hvað ég er VOND MANNESKJA.
Núna er ég að ná áttum og finna sjálfa mig, hina sönnu mig og það er pínulítið skrýtið.
Núna læt ég ekki bjóða mér hvað sem er og ég losa mig við fólk sem er að troða á réttindum mínum.
Þetta tekur á, ég viðurkenni það.
En ég er stolt af því hvað mér hefur tekist að halda mínu striki.
Ég er að ná mér eftir heilsu brest og það gengur vel. Vika 7 er að verða búin og orkan er öðruvísi og úthaldið betra dag frá degi hægt og rólega.
Í gær fékk ég símtal frá ofbeldis aðilanum. Ég varð reið og hann sagði mig vera með nasty tougnue. Það var rétt, ég var ekki hin auðmjúka, ég var líklega hrokafull og andstyggileg.
Stundum dögunar ekkert minna en að vera andstyggileg. Það er sorglegt, en satt. Þegar ég kem auga á hvað ég á í raun skilið allt gott fyrir hvað ég hef gert og hverju ég hef fórnað þá breytist skoðun mín og ég stend með mér, sem ég geri ekki alltaf.
Ég held að viðtalið hjá Gunnari Smára hafi verið yfir klukkutíma langt en ég hlustaði til enda og ætla að hlusta aftur við tækifæri. Það kom margt fram hjá þeim sem ég get nýtt mér í þroskaferli mínu.
Ég segi þroskaferli því ég trúi því að frá fæðingu til dauða séum við stöðugt að þroskast, annað hvort í átt að betri andlegri líðan eða í hina áttina.
Ég er nokkuð ánægð með mig í dag og held áfram að standa MEÐ MÉR EN EKKI Á MÓTI.
Það er ekki mitt að taka ábyrgð á gjörðum annara eða hugsunum þeirra.
Þegar ég get og mig langar til að gera eitthvað fyrir einhvern þá geri ég það af því að ég er með stórt hjarta og ég er góð manneskja. Það gleður mig þegar ég get glatt vini mína og komið þeim þægilega á óvart. Það veitir mér styrk og hjartað í mér verður hamingjusamt og brosir út í bæði.
Ég hef laðað að mér í gegnum lífið óttalega vesælt fólk oft og tíðum og leyft því að notafæra sér góðvild mína. Það er fortíðin. Nútíðin er að ég vel hverjir eru í vinahópi mínum. Það er bremsa komin á hjá mér og vonandi bilar hún ekki.
Lífið er dásamlegt núna og ég er sátt við mig og bjartsýn á hverjum morgni þegar ég vakna. Hamingjan kemur inna frá og hefur í raun ekkert með annað fólk að gera.
Ef mér þykir ekki vænt um mig eins og ég er þá getur enginn önnur manneskja breytt því. Þegar ég er tilbúin til þess að ELSKA MIG EINS OG ÉG ER OG LEYFA MÉR AÐ NÓTA AÐEINS ÞESS BESTA Í LÍFINU þá er mér borgið
Lífið er fagurt og það er gott að vakna á morgnana.
Hulda Björnsdóttir

